Manstu aldrei neitt? Þetta gæti verið skýringin…

Manstu aldrei neitt? Þetta gæti verið skýringin…

Margir kvarta yfir hversdagsgleymsku.  Að muna ýmislegt sem engu máli skiptir en geta svo ekki muna það sem er mikilvægt jafnvel þótt lífið liggi við.  Þú kannast líklega við að gleyma nafni rétt eftir að handtakinu sleppir eða muna ekki stundinni lengur hvar þú lagðir lyklana frá þér…

Ekkert er eins algengt umkvörtunarefni og nöfn.  Nöfn á fólki og stöðum.  Ártöl eru einnig klassískt dæmi.  Af þessum sökum reynist okkur utanbókarlærdómur oft erfiður.  Að muna hvað einhverjir “kallar” hétu, hvenær eitthvað gerðist….landafræði, sagnfræði, náttúrufræði….

Margir eiga mjög erfitt með að muna það sem þeir lesa, og gefast því oft upp á því.  Það tekur því ekki að lesa þegar maður man aldrei neitt af því sem var að gerast síðast.

En hvers vegna er þetta svona erfitt?  Stór hluti af námi krefst þess að við séum sífellt að leggja eitthvað á minnið.  Einkunnir eru oft lítið annað en mæling á því hve mikið maður man.  Flestum er sama um hvað manni finnst.  Hvenær gerðist þetta?  Hver gerði þetta?  Hverjir voru Fjölnismenn?  Hvað er ljóstillífun?  Hver er höfuðborg Tyrklands?

Myndræn hugsun

Flest hugsum við í myndum, missterkt þó.  Við “horfum” á hugsanir okkar.  Við túlkum orð og hugtök sem myndir.  Orðið “reiðhjól” lifnar við í huga okkar…sem mynd.  Hugtök er mis-myndræn.  Blóm og stólar eru myndræn.  Orð eins og “sem” og “var” eru það ekki.

Og hér liggur hundurinn grafinn.

Hugtök (upplýsingar!) sem eru ómyndræn festast seint og illa í minni.  Það er eins og hugurinn viti ekki hvað hann eigi að gera við þetta.  Meðan sumt festist eins og tyggjó er annað eins og sápukúla – horfið!

Dæmi: Lestu textann einu sinni:

“Það var árla morguns þann 14. nóvember 1964 sem skipverjar á vélbátnum Ísleifi frá Vestmannaeyjum komu auga á gufustrók sem lagði upp úr hafinu um 3 sjómílur vestur af Geirfuglaskeri í Vestmannaeyjaklasanum.  Í fyrstu áttuðu menn sig ekki á hvað var á ferðinni, en fljótlega sást að um eldgos á sjávarbotni var að ræða.  Þar sem gosið hófst var um 100 metra sjávardýpi.
[…]
Fyrstir til að ganga á land í hinni nýju eyju voru þrír Frakkar á vegum franska stórblaðsins Paris Match og gerðist það 7. desember, um þrem vikum eftir upphaf gossins.”
-Lestu betur, Fjölnir Ásbjörnsson og Guðni Kolbeinsson, bls. 151.
.
.
.
.
.
.
.
.

Svaraðu nú spurningunum hiklaust án þess að gjóa augunum á textann:

  1. Hvaða mánaðardag hófst gosið?
  2. Hvaða ár?
  3. Hvað hét bátur skipverjanna sem komu fyrstir að gosinu?
  4. Hve langt frá Geirfuglaskeri steig strókurinn úr sjó?
  5. Hvað hét franska stórblaðið?
  6. Hvaða dag stigu frakkarnir á eyjuna?

Hvernig gekk svo?

Beinar spurningar hafa nefnilega þann (leiðinlega) eiginleika að snúast um upplýsingar, sem oftar en ekki eru myndlaus orð.  Að sjálfsögðu fer það eftir aldri og tengslum okkar við efnið hve vel eða illa þetta gengur.  Þeir sem tengjast t.d. Eyjum eru líklegri til að muna betur eftir staðreyndum í textanum vegna þess að staðhættir eru kunnuglegir.  Áhugi okkar er einnig meiri þegar efnið tengist okkur sjálfum.

Skoðum textann betur

Hér er textinn endurbirtur, svörin eru rauðleit:

“Það var árla morguns þann 14. nóvember 1964 sem skipverjar á vélbátnum Ísleifi frá Vestmannaeyjum komu auga á gufustrók sem lagði upp úr hafinu um 3 sjómílur vestur af Geirfuglaskeri í Vestmannaeyjaklasanum.  Í fyrstu áttuðu menn sig ekki á hvað var á ferðinni, en fljótlega sást að um eldgos á sjávarbotni var að ræða.  Þar sem gosið hófst var um 100 metra sjávardýpi.
[…]
Fyrstir til að ganga á land í hinni nýju eyju voru þrír Frakkar á vegum franska stórblaðsins Paris Match og gerðist það 7. desember, um þrem vikum eftir upphaf gossins.”

Hér sést ágætlega að svörin sem beðið er um (rauðleitu orðin) er myndlaus í þeim skilningi að það er erfitt að sjá þau fyrir sér (öðruvísi en stafaröð).   Það er eðlilegt að vita um hvað textinn fjallar eftir lesturinn, en það er ekki sjálfsagt að muna staðreyndir úr honum, s.s. nöfn, staði og ártöl.

Áhugi

Vandmál námsefnis – ef svo má segja – er að námsefnið tengist okkur sjaldnast persónulega.  En allir þekkja það hve auðvelt það er að læra um eitthvað sem við höfum áhuga á eða skiptir okkur máli.  Þá er athygli sjálfkrafa meira en ella, en athygli er einmitt forsenda þess að muna eftir einhverju.  Nemandi sem hefur lítinn áhuga á námsefninu er ekki líklegur til stórræða.

Vítahringur skapast oft þar sem nemandinn les hægt, athyglin reikar og hann man lítið af því sem hann las.  Spurningarnar hljóma því afar framandi og nemandinn þarf að lesa aftur og leita svarann.  Þá man hann jafnvel ekki lengur spurninguna.  Námið tekur því allt of langan tíma og er sannarlega leiðinlegt.

Loks lýkur nemandinn við verkefnið og telst þar með vera búinn að læra.  En raunveruleikinn er annar, nemandinn lærði ekki ekki neitt – ekkert situr eftir.  Hann las kannski, en man ekkert.  Hann svaraði e.t.v. spurningunum, en getur ekki endurtekið svörin.  Hann þarf að læra allt aftur fyrir próf.

Úrræði

OFURMINNI

Ýmis ráð eru þekkt til að efla minnisgetu okkar.  Minnistækni er vel þekkt, enda ríflega 2500 ára gömul og hefur staðist  tímans tönn.   Eftir að hafa kennt minnistækni í mörg ár, bæði í formi einkakennslu, sem og fyrir fræðslumiðstöðvar  og skóla, setti ég saman fjarnámskeiðið OFURMINNI.  Það er ein besta og snjallasta leiðin sem þú getur farið til að margfalda minnisgetu þína!

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!