Það er DÝRT að gera ekki neitt

Það er DÝRT að gera ekki neitt

Flest erum við upptekin við að meta kostnaðinn við það sem við gerum – eða viljum gera.  Hvað kostar þetta? Hvað kostar hitt? Hvað kostar þetta námskeið? Hvað kostar þessi ferð? En hefur þú hugleitt hvað það getur kostað þig að gera ekki eitthvað?  Það gæti komið óþyrmilega á óvart.

Epli á dag!

Epli á dag!

Líf þitt og lífsgæði í dag eru bein og óbein afleiðing af því sem þú ákvaðst að gera í gær.  Þess vegna áttu þessa skó, þetta barn og þennan mann.  Þess vegna ertu húsmóðir, snyrtifræðingur, læknir eða flugfreyja.

Vegna þess að þú ákvaðst það á einhverjum tímapunkti.  Þetta eru ekki tilviljanir, heldur afleiðingar ákvarðana sem þú tókst.  En athugaðu að margar ákvarðanir eru ómeðvitaðar en förum ekki út í það  hér.

En hvað getur það kostað þig að gera ekki eitthvað?

Veltum upp nokkrum valkostum.  Þeir hljóma e.t.v. ekki spennandi en gættu þess að fjöldi fólks valdi þessa leið og velur hana jafnvel á hverjum degi þegar það stendur frammi fyrir valinu.

  • Hvað kostar það til lengri tíma litið að fara ekki í nám?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að læra ekki heima?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að mæta ekki í skólann?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að borða ekki næringarríkt fæði?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að hreyfa sig lítið og sjaldan?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að rækta ekki sambandið við makann og börn sín?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að fara ekki með bílinn í smurningu?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að skipta ekki vetrardekk á bílinn fyrir veturinn?
  • Hvað kostar sú ákvörðun að hætta ekki að reykja áður en það er of seint?

Svo mætti lengi telja.  En bíddu við, segir þú kannski.  Margt af þessu er ekki val.  Einfalda svarið er jú, víst er þetta val.  Ef einhver annar hefur gert þetta, þá getur þú gert þetta.  Ef einhver annar getur forgangsraðað í lífi sínu þá getur þú það líka.  Allt annað eru afsakanir sem við notum til að réttlæta slaka útkomu, hegðun eða lífsmynstur.

Sparnaður þinn er ekki bundinn við að sleppa því að gera eitthvað.

Þvert á móti.

Afleiðingar þess að gera eitthvað, eða sleppa því, geta verið á hvorn veginn sem er.

Taktu eftir, að kostnaður við að gera þessa hluti er oft ekki hægt að meta til fjár.  Það er verðmiði á orsakavaldinum.  Við vitum hvað vetrardekk kostar eða tóbakspakki.  En það vantar verðmiðann á afleiðingarnar.  Hvers virði er heilsan eða hjónabandið?

Þú setur stefnuna

Þú setur stefnuna

Hvað kostar það að detta úr námi?  Hvað er það búið að kosta manneskju eftir 10-20 ár á vinnumarkaði að hafa ekki menntað sig þegar tækifærið var til staðar.  Það góða er að tækifærin eru allt í kring.  Það eina sem þú þarft að gera er að taka ákvörðun í hvaða átt þú vilt stefna.  Þú stillir seglið á þinni skútu.

Í skammsýni okkar setjum við skammtíma vellíðan ofar langtíma velgengni.  Þú drekkur 2 lítra af vatni á dag því þú velur að gera það.  Þú getur líka valið að drekka bjór eða rauðvín í staðinn.  Afleiðingarnar?  Drekktu 2 lítra á dag í 6 mánuði og þú kemst að því.

Þú setur stefnuna með vali þínu.  Þú uppskerð eins og þú sáir.  Margt smátt gerir eitt stórt.  Æfingin skapar meistarann.  Svona hefur þetta alltaf verið og svona mun þetta alltaf verða.

Næst þegar þú skoðar hvað eitthvað kostar – athugaðu hvað það kostar að gera það ekki.  Því það er víst að þú nærð aldrei markmiði sem þú setur ekki.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!