50% fall í stærðfræði ásættanlegt?

50% fall í stærðfræði ásættanlegt?

Samkvæmt tölum frá forsvarsmönnum framhaldsskóla er fall í upphafsáfanga í stærðfræði á Íslandi um 50%!

Þetta þýðir að annar hver nemandi er að falla í fyrsta einingabæra áfanga stærðfræðinnar á framhaldsskólastigi.

Nefndar hafa verið tölur á bilinu 30 – 60%, sem þýðir að lágmarki þriðjungur nemenda fellur. Er þetta ásættanlegt og hvaða skýringar eru á þessum sláandi tölum?

Eflaust er engin einhlýt skýring til, en alþjóðlegar rannsóknir hafa helst bent á kennsluna í þessu samhengi. Eru kennarar þá ekki að vinna vinnuna sína og ná ekki að koma efninu til skila?

pisa_mathKennarar eru að sjálfsögðu misjafnir eins og þeir eru margir, en þeir eru upp til hópa að gera sitt allra besta og vinna gott starf. Það sem liggur þarna meira að baki er frekar aðstæður sem kennurum er boðið upp á, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi.

Fjölmennir bekkir og þannig lítið svigrúm til einstaklingsmiðaðrar kennslu leiðir til þess að um 30-50% nemenda lenda með tímanum í algjörum ógöngum.

Þessir nemendur fá ekki þá aðstoð sem þeir nauðsynlega þyrftu og fréttir um samdrátt í skólamálum bitna hvað harðast á sérkennslu.

Þarna er enn skorið niður fjármagn í menntamálum þar sem síst skyldi og enn fleiri nemendur munu, ef að líkum lætur lenda í námserfiðleikum. Ástandið hjá þessum nemendum versnar stöðugt, þar sem skólakerfið býður ekki upp á þau úrræði sem þeir eiga rétt á.

Skólastjórnendur finna sig knúna til að vera með um eða yfir 30 nemendur í hverjum bekk og það verður sífellt algengara í framhaldsskólum að „yfirfullt“ er í áföngum. Kennarar eru því nauðbeygðir til að “halda öllu gangandi” í stað þess að geta sinnt hverjum og einum nemanda eftir þörfum.

Stærðfræðin er það fag sem flestir óttast og þurfa margir sértækan stuðning. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá. Ekki er hægt að leysa málin með því að halda því fram að það sé „eðlilegt“ að lenda í vandræðum í stærðfræði.

Nemendur sem lenda í vandræðum í stærðfræði þurfa einstaklingsmiðaða kennslu og sértækan stuðning til að komast á réttan kjöl.

Nýta þarf nútímatækni betur í kennslu, sbr. internetið, snjallsíma og spjaldtölvur.

Nemendur sem lenda í erfiðleikum í stærðfræði fá því væntanlega ekki þá þjónustu sem kennara og skólastjórnendur vilja veita.

KvíðahnúturSjálfstraust þessara nemenda bíður því hnekki og upplifun þeirra verður sífellt neikvæðari og að lokum verður uppgjöf. Dæmi eru um nemendur í framhaldsskólum sem þurfa að taka upphafsáfangann í stærðfræði oftar en tvisvar Þetta getur nú ekki talist uppbyggjandi fyrir einstaklinginn og fylgir að sjálfsögðu mikið niðurbrot og tilheyrandi kostnaður fyrir alla aðila sem að málinu koma.
Þetta er ástand sem ekki er hægt að líða og verður að berjast fyrir rétti þeirra sem eru í námserfiðleikum og viðurkenna að hér er um raunverulegan og alvarlegan vanda að ræða.
Eða kannski er það bara ásættanlegt að um helmingur nemenda falli í stærðfræði?

Halldór Þorsteinsson

Halldór Þorsteinsson

Höfundur er Halldór Þorsteinsson, stærðfræðikennari og höfundur námsefnis Bootcamp stærðfræði

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.