Hvað viltu RAUNVERULEGA fá út úr lífinu? Áttu þér stóran (gamlan) draum? Fikrar þú þig markvisst nær honum? Ekki? Hvað er að stoppa þig?
Kannski ertu hrædd eða látið frestunaráráttuna ná tökum á þér. Oft koma hversdagslegir hlutir í veg fyrir að við náum markmiðum okkar. Hvers vegna ætli það sé? Oft þarf ekki nema lítinn tíma daglega til að koma ótrúlega miklu í verk til lengri tíma litið.
Hér eru 7 aðvörunarljós sem gefa til kynna hvort þú sért búin að gefast upp:
- Afsakanir. Allir afsaka sig. Tilfallandi afsakanir eru svosem skiljanlegar en vandamálin hrannast upp þegar við notum sömu afsakanirnar ítrekað og yfir langt tímabil. Þínar afsakanir virðast e.t.v. raunverulegar, en skapari þeirra ert….þú!
- Ótti. Ótti er gríðarlega yfirgripsmikil tilfinning og stjórnar að miklu leyti því sem við gerum eða gerum ekki. Ótti við að mistakast, ótti við höfnun, ótti við álit annarra, ótti við niðurlæginu….og svo mætti lengi telja. Eitt tryggasta ráðið til að upplifa ekki ótta er að gera ekki neitt. En gettu hvað? Óttinn er tilfinning, öllu heldur tilfinningaviðbragð. Viðbragðið er túlkun þín á aðstæðunum. Við óttumst ekki aðstæðurnar sjálfar, heldur er það túlkun okkar á aðstæðunum sem veldur ótta. Ein besta leiðin til að losna við ótta er að framkvæma það sem þú óttast. Þá kemstu að því að þetta var ekki eins hræðilegt og þú hélst og hvaða afsökun hefur þú þá?
- Ofgreining. Áttu það til að ofgreina aðstæður áður en þú byrjar? Það gengur ekki! Ef þú ætlar að bíða eftir kjöraðstæðum til að gera eitthvað þá muntu aldrei koma neinu í verk. Auk þess er aldrei hægt að sjá allt fyrir. Byrjaðu bara, taktu eitt skref í einu og leystu verkefnin í þeirri röð sem þau birtast.
- Einhvern tíman. Hve oft hefur þú ekki hitt fólk sem hefur sagt þér að einhvern tíman ætli það að láta drauma sína rætast? Að stunda áhugamálin betur, ferðast meira, eyða meiri tíma með börnunum o.s.frv. Þá verði lífið sko allt annað og betra! Einhvern tíma er ekki á dagatalinu, og því lengur sem þú bíður, því lengur þarftu að bíða. Svo einfalt er það. Í stað þess að bíða, byrjaðu! Byrjaðu á einhverju og gerðu bara eitthvað. Þegar þú ert byrjuð þá byrja hlutirnir að rúlla og þú skilur ekkert í þér að hafa ekki byrjað fyrr!
- “Ef bara…” “Ef ég bara hefði meiri tíma, meiri pening, betri sambönd…”. “Ef ég bara væri flinkari eða hæfileikaríkar, þá myndi ég…”. Flestir ævintýramenn, frumkvöðlar og aðrir sem komu draumum sínum í verk fengu þá ekki á silfurfati. Þeir bara byrjuðu. Og sumir hverjir á skelfilegum tíma. Margir koma sér ekki af stað fyrr en neyðin rekur þá af stað, t.d. eftir atvinnumissi. Microsoft og Apple voru stofnuð í kreppum. Þeim gengur ágætlega í dag.
- “Ég er ekki…” Ertu hrædd um að þú hafir ekkert sérstakt fram að færa? “Ég er ekki nógu góð, nógu lærð, nógu ung, nógu gömul nógu…”. Hugsaðu aftur. Allir hafa eitthvað, reynslu, þekkingu eða hæfileika sem öðrum vantar. Flestir vanmeta eigin kunnáttu og taka hana sem gefna.
- Þægindahringurinn. Óttinn við mistök er ein helsta fyrirstaðan þegar kemur að því að gera drauminn að veruleika. Þú hefur líklega heyrt að það sé erfitt að láta drauma sína rætast, að það sé áhættusamt og einungis á færi örfárra snillinga með stáltaugar. En hver segir að svo þurfi að vera?
Ef einhver annar hefur gert það sem þig langar til að gera – þá getur þú það líka. Við erum öll eins af náttúrunnar hendi, hvernig við spilum úr hlutunum hins vegar, er undir okkur komið.
Þú vilt sjálfsagt að barnið þitt rækti hæfileika sína og njóti alls þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Láti drauma sína rætast. Láti ekkert stöðva sig!
Hvað finnst þér? Sendu línu!
You must be logged in to post a comment.