5 kostir þess að setja sér mörk og slæmar afleiðingar þess að gera það ekki

5 kostir þess að setja sér mörk og slæmar afleiðingar þess að gera það ekki

Viltu koma meiru í verk? Læra hraðar? Lesa hraðar? Afkasta meiru?  Auðvitað viltu það.  En skyldi það vera mögulegt án þess að auka streituna, vinna hraðar, meira og lengur? Já, heldur betur, og það er alls ekki eins erfitt og maður gæti haldið.Hvernig skyldi þetta svo gert?  Töfraorðið er: Takmörk.

Settu þér takmörk, eða skorður.  Takmarkaðu tíma þinn í tiltekið verkefni áður en þú byrjar.  Tilfellið er að flest verkefni taka þann tíma sem þeim er úthlutað.

  • Ef þú hefur 2 klst til að lesa þá lestu í 2 klst.
  • Ef þú vinnur frá 8-16 þá tekur vinnan þann daginn (ótrúlegt en satt) akkúrat 8 klukkustundir.
  • Ef þú hefur klukkutíma í mat þá tekur matartíminn klukkustund.
  • Ef þú þarft svo einhverra hluta að minnka hann í 30 mínútur þá (ótrúlegt en satt) rúmast matartíminn innan 30 mínútna.

Ritgerð sem þú átt að skila eftir viku tekur viku í undirbúningi. Ekki gleyma andlega þættinum, að hugsa um ritgerðina, að hugsa um að byrja, að byrja, að laga textann til, útlitið og yfirlesturinn.  Ótrúlegt en satt, þú klárar ritgerðina á síðustu stundu.

Ef þú hefur 3 mánuði til að skila verkefni þá erum við að tala um andlegt skrímsli.  Guð forði þér frá slíkum verkefnum.  Þú hugsar um þau fyrir svefninn, þig á eftir að dreyma þau, þú upplifir frestunaráráttu, kvíða og allt þar á milli.  Ef þú hefur skrifað stóra lokaritgerð eða B.sc. verkefni þá veistu hvað ég á við.

Þetta er lögmál.  Verkefnin fylla alltaf upp í það tímarúm sem er til staðar.  Stærð verkefnanna skiptir engu máli.  Að sama skapi ertu líkleg til að skipuleggja atburði í lífi þínu með sama hætti. Jólin eru á síðustu stöndu.  Afmæli, ferming eða brúðkaup.  Tilefnið skiptir ekki máli.  Alltaf skal tímarúmið sem er til staðar fyllt.  En einhvern veginn sleppur þetta samt alltaf.  Hvort kom á undan, eggið eða hænan?

Stærstu mistökin sem við gerum er að …..setja okkur ekki mörk þegar kemur að tíma.  Þar af leiðandi vex verkefnið fram úr hófi og tekur þegar uppi er staðið allt of langan tíma.  Þú ert 20% af tímanum að klára 80% verkefnisins og síðustu 80% af tímanum fara í síðustu 20%.  Þú átt eftir að eyða allt of miklum tíma í útlitspælingar og hluti sem engu máli skipta.

Settu þér tímatakmörk áður en þú byrjar, kostirnir eru fjölmargir

  1. Þú ert líklegri til að byrja strax því þröskuldurinn lækkar
  2. Frestunarárátta kemur oft til af því að verkefnið vex okkur í augum.  Byrjaðu strax og byrjaðu smátt
  3. Tímapressa eykur einbeitingu
  4. Það er auðveldara að lesa hratt í 20 mínútna lotum en ef þú ætlar að læra í “allan dag”
  5. Það er líklegra að þú komist í flæði, sem er hugarástand þar sem þú dettur inn í verkefnið og afköstin margfaldast

Ef þú gerir þetta ekki þá hins vegar

  1. Slugsar þú, því þetta er svo “leiiðinnlegt” og þú átt eftir að vera að þessu í “allaaan daaag”.
  2. Þú þreytist fyrirfram, bara við tilhugsunina
  3. Þú ert líklegri til að byrja á síðustu stundu því tilhugsunin um að byrja var bara einum of óhugnanleg
  4. Verkefnið virðist of flókið, of snúið, of margþætt
  5. Þetta er sjálfsblekking, því enginn heldur einbeitingu klukkustundum saman

Ef þú brýtur ekki verkefnið niður í stuttar vinnulotur (setur þér skorður!), heldur trúir að þú getir ráðist í stórt verkefni bara með því að lesa eða læra allan daginn, þá fellur þú í þessa gryfju:

  • Þú ert stöðugt að hugsa um hvort þú sért svöng, hvort þú eigir að fá þér að borða
  • Þú lítur á klukkuna og athugar hversu lengi þú sért búin að lesa (eins og það skipti máli?)
  • Þú ert í andlegri skák við sjálfa þig þar sem þú ert að finna afsakanir fyrir því að taka þér ótímabærar pásur
  • Athyglin reikar mun meira vegna þessa
  • Lesturinn gengur illa, þú ert sífellt að detta út og marglest setningar, málsgreinar og jafnvel blaðsíður
  • Þér leiðist (fer ekki einhver að hringja?)
  • Þér finnst eins og þú sért að missa af einhverju og ert stöðugt að skoða Facebook, youtube
  • Þér finnst það góð hugmynd að horfa á einn sjónvarpsþátt til að hvíla þig því þú ert búin að vera svo dugleg

Í lok dagsins líður þér eins og þú hafir lært í allan dag, en gerðir í raun lítið af viti.  Ef það er laugardagur þá dæsir þú yfir því að þurfa að læra meira á morgun.  Því hlutirnir fylla alltaf upp í þann tíma sem er til staðar.

Þrátt fyrir þetta þá veistu í raun ekkert hvernig þér miðar, þú hefur litla tilfinningu fyrir því hvað þú kannt og hvað þú þarft að læra betur.

Það eina sem þú veist er að þú þarft að læra meira.  Þetta veldur streitu og er alls ekki skemmtilegt.  Þess vegna þarftu að skoða Facebook og Youtube, þótt ekki væri nema til að halda geðheilsunni.

Margt af þessu mætti laga með því að setja tímaskorður.  Ákveddu hvað þú ætlar að lesa, hve margar blaðsíður, og hvað þú ætlar að vera lengi að því. Settu svo klukku í gang (t.d. e.ggtimer.com).  Gættu þess að hafa hverja lotu ekki of langa.  15-20 mínútur er fínt.  Taktu svo pásu og stilltu klukkuna á 5-10 mínútur og þá getur þú skoðað Facebook með góðri samvisku, þar til klukkan hringir.

Og þá gerast kraftaverkin

Meðan þú lest, þá ertu ekki sífellt að

  • líta á klukkuna
  • hugsa um hvort þú sért svöng
  • meta hve mikið þú átt að lesa í viðbót áður en þú tekur pásu
  • kíkja á facebook
  • kíkja á youtube
  • skoða símann þinn

Haltu þínu striki þar til klukkan hringir.  Ekki líta upp.  Kepptu við sjálfa þig og þú afkastar mun meiru á mun skemmri tíma.  Ef þú vilt vita meira þá gæti Aladdín verið fyrir þig.

TakeoffEf þú ert sífellt að skipta á milli verkefni (sem gerist þegar hugurinn reikar stanslaust á milli þeirra), þá ertu eins of flugvél sem nær ekki nægilegum hraðar til að taka á loft.  Það þarf afl til að koma hlutum í gang, en sáralitla orku til að viðhalda hreyfingunni.

Hlutirnir ganga strax betur um leið og þú ákveður að gera eitt í einu. Lestu bara þegar þú lest.  Taktu svo pásu og gerðu þá eitthvað annað.  Þótt þú haldir að þú getir gert margt í einu þá er það ekki svo.  Mannshugurinn er afleitur í því að gera marga hluti á sama tíma. Sjáðu bara hér ef þú efast.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!