Viðtal í bæjarblaðinu Mosfellingur: “Markmiðið að efla námsgetu”

Viðtal í bæjarblaðinu Mosfellingur: “Markmiðið að efla námsgetu”

Davis lesblindunámskeiðin hafa hjálpað þúsundum einstaklinga um allan heim í glímunni við lesblindu. Davis kerfið er nefnt eftir höfundi þess, Ronald D. Davis, sem var greindur með lesblindu og einhverfu á barnsaldri og átti jafnframt erfitt með tal. Ronald þróaði breyttar námsaðferðir sem henta vel þegar hefðbundnar aðferðir bera ekki árangur. Einn af þeim sem starfar við Davis ráðgjöf er Kolbeinn Sigurjónsson en hann veitir ekki einungis lesblinduráðgjöf heldur hjálpar einnig fólki með ýmsa aðra námsörðugleika eins og talnablindu, athyglisbrest og athyglisbrest með ofvirkni.

JökulsárlónKolbeinn er fæddur í Reykjavík 22.janúar 1972. Foreldrar hans eru þau Selma Guðmundsdóttir húsmóðir og Sigurjón Einarsson bifreiðastjóri. Selma lést árið 2000. Kolbeinn á einn bróður, Einar og þrjár hálfsystur sammæðra, Selmu, Sigríði og Birnu.

„Ég flutti í Mosfellssveit þegar ég var þriggja ára og á mínar fyrstu minningar héðan. Leiðin lá í Varmárskóla enda eini skólinn í sveitinni og því kynntist maður mörgum mjög vel.

Uppvaxtarárin voru góð enda má segja að maður hafi alist upp með annan fótinn í Varmánni og hinn í Köldukvísl.“

Á tímabili voru jarðkofar málið

„Sumrin voru löng enda skólinn nokkuð styttri en hann er í dag. Við vinirnir höfðum alltaf nóg fyrir stafni og sóttum mikið niður að ánum til að sigla, vaða og veiða.

Það var líka vinsælt hjá okkur að smíða kofa og á tímabili voru jarðkofar málið, við tengdum þá saman með rörum til að útbúa kallkerfi á milli þeirra.

Við bjuggum líka til boga og aðalmálið var að drífa yfir gömlu háspennulínurnar. Þegar rökkvaði tóku við vasaljósaleikir svo því var alltaf nóg að gera.“

Hélt að þetta væri mitt síðasta

Yfir Blikastöðum„Í mörg ár æfði ég handbolta með Aftureldingu og spilaði með Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, einnig stundaði ég mikið skíði í Skálafelli. Sem krakki varð ég heillaður af flugi.

Þegar ég varð þrettán ára fékk ég að læra svifflug eitt sumar og það fannst mér æðislegt.

Átján ára eignaðist ég svifdreka ásamt Bjarkari félaga mínum. Við ákváðum að læra þetta bara sjálfir en það endaði með brotlendingu og ég slapp með skrekkinn.

Mér var auðvitað mjög brugðið og hélt hreinlega að þetta væri mitt síðasta en þetta varð til þess að við vinirnir skelltum okkur á námskeið og ég stundaði svifdrekaflug í mörg ár eftir þetta, áfallalaust,“ segir Kolbeinn og brosir.

Hafði áhrif á framtíðarplönin

„Kiddi æskufélagi minn eignaðist forláta Amstrac PC tölvu þegar við vorum 13 ára. Við vorum illa haldnir á tímabili og spiluðum tölvuleiki út í eitt, forrituðum líka í Basic oft fram undir morgun.

Ef internetið hefði verið komið á þessum tíma þá hefðum við líklega horfið þangað inn og ekki komið út aftur,“ segir Kolbeinn og hlær. En þessi tími hafði áhrif á framtíðarplönin.”

Allur heimurinn var undir

Mosfellingur„Eftir stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1992 lá leiðin í Tölvuháskólann þar sem ég lauk námi í kerfisfræði. Lokaverkefnið mitt var stafrænt albúm, sem var nýlunda árið 1995.

Örfáir áttu stafrænar myndavélar og internetið rétt að byrja. Árið 1998 stofnaði ég ásamt félögum mínum sprotafyrirtæki. Hugbúnað átti að selja á netinu og allur heimurinn var undir. Lendingin var hörð og við brotlentum. Þetta var skemmtilegur og lærdómsríkur tími, en líka erfiður.

Við gáfumst samt ekki upp, endurrituðum forritið á þremur mánuðum og gerðum samkomulag við þýskan aðila um sölu.  Við seldum yfir 60 þúsund geisladiska, auk 20 þúsund eintaka í gegnum netið. Þarna sáum við að þetta var hægt, en það var of seint og verkefnið fjaraði út.“

Dugleg að ferðast á öllum árstímum

„Ég er giftur Guðlaugu Ágústu Kjærnested snyrtifræðingi og við eigum saman tvær dætur, þær Kolfinnu 14 ára og Bríeti 7 ára. Fyrir átti Guðlaug Örn sem er 25 ára og Hildi sem er 23 ára.

Örn er bifvélavirki og er í sambúð með Valgerði Sigurðardóttur, barn þeirra er Eyþór Hrafn, Hildur stundar nám í ferðamálafræði og Kolfinna og Bríet eru í Lágafellsskóla. Hildur, Kolfinna og BríetÁhugamál fjölskyldunnar tengjast flest útivist og ferðalögum.

Við ferðumst bæði innanlands sem utan og erum nokkuð dugleg að fara á öllum árstímum. Fastur liður er skíðaferð fjölskyldunnar til Madonna á Ítalíu en Hildur hefur starfað þar s.l. tvo vetur með afa sínum Erni Kjærnested sem hefur verið þar hátt í 20 vetur.“

Stofnaði Betra nám

„Árið 2004 fékk ég diplómaréttindi í Davis lesblinduráðgjöf. Markmiðið var ekki endilega að starfa við þetta heldur hafði elsti strákurinn okkar Guðlaugar glímt við lesblindu og það hafði áhrif að ég fór út í þetta.

Ég stofnaði fyrirtækið Betra nám.is og hef nú starfað við ráðgjöf í 10 ár og haldið námskeið tengd lestrar-og stærðfræðiörðugleikum. Fólk sækir til okkar af öllu landinu, enda þjónustan mjög sérhæfð.

Ég hef einnig kennt hjá Mími símenntun og Hringsjá sem er námsendurhæfing. Árið 2010 lauk ég Bsc námi í tölvunarfræði frá TVÍ og 2011 lauk ég diplómanámi í dáleiðslu frá Hypnosis-Centre í Skotlandi.  Ég er einn af stofnmeðlimum í Félagi dáleiðslutækna á Íslandi.“

Bylting í tækniumhverfinu

„Námsörðugleikar hverfa ekki og sá hópur sem þarf sértæka hjálp virðist fremur að stækka frekar en hitt. Það sést best á því að við erum með 6.500 Facebook fylgjendur og tæplega 15.000 manns sem skráð hafa sig á póstlista hjá okkur. Þjónusta okkar á netinu vex sífellt og við höldum úti níu sjálfstæðum vefsíðum.

Við höfum notið krafta Þórunar Lárusdóttur, Guðna Kolbeinssonar og Egils Ólafssonar við talsetningu á námsefni.

Nýstárleg nálgun

„Í mars s.l. opnuðum við fjarnámskeið í almennum brotum en það er sérstaklega hannað með spjaldtölvur og snallsíma í huga og inniheldur rúmlega 300 háskerpumyndbönd til kennslu. Aðgangi að námskeiðinu fylgir svo stuðningur stærðfræðikennara, Halldórs Þorsteinssonar, semjafnframt er meðhöfundur námskeiðsins svo þetta er nýstárleg nálgun.

Námskeiðið er hannað fyrir nemendur í 5.-10. bekk sem eiga erfitt uppdráttar í stærðfræði.“

Hágæða námskeið fyrir elstu bekkinga

„Gott dæmi um nýmæli er þjálfunarnámskeiðið Reiknum hraðar, en það er sniðið að þörfum þeirra sem eiga erfitt með margföldun og hugareikning. Ný útgáfa námskeiðsins er app fyrir Android og iOS sem færir þessa þjálfun í spjaldtölvu eða síma nemandans.

Næsta haust opnum við svo hágæða námskeið í algebru fyrir efri bekki grunnskóla og byrjendur í framhaldsskóla.

Það verður því í nógu að snúast næstu mánuðina og tímarnir framundan eru bara spennandi,“ segir Kolbeinn er við kveðjumst.

Texti: Ruth Örnólfsdóttir, Bæjarblaðið Mosfellingur, www.mosfellingur.is, 7. tbl. 2014, bls. 24

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.