Anna Kristíne (DV) skrifar um lesblindu

Hefur þú einhvern tíma gert grín að manneskju sem er áttavillt, á erfitt með að muna og er jafnvel lengi að greina milli vinstri og hægri? Er þetta kannski sama manneskjan og hefur fjörugt ímyndunarafl og ríka sköpunargáfu? Kannski er þessi manneskja haldin lesblindu…


Lesblinda er ættgeng

Hér á eftir fer viðtal sem Anna Kristine, þá blaðamaður á DV átti við Kolbein (það er ég;) um lesblindu og tilurð Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.  Ath. að hlutar viðtalsins hafa verið teknir út eða styttir svo þeir henti betur birtingu á vefnum.

“Það er algengt að lesblinda hái fólki í daglegu lífi án þess að nokkur sjái tengingu milli daglegra athafna og lesblindu,” segir Kolbeinn Sigurjónsson, Davis ráðgjafi hjá Betra nám sem starfrækt er í Mosfellsbæ. “Í raun er um skynvillu að ræða, því það er algengt að þetta fólk eigi erfitt með að “muna” hluti, það gleymir sér oft, er áttavillt og er lengi að greina milli hægri og vinstri svo eitthvað sé nefnt. Jákvæðu hliðarnar eru hins vegar þær að lesblindir hafa gjarnan fjörugt ímyndunarafl og rík sköpunargáfa er fylgifiskur lesblindu; jafnvel orsök hennar. Þessir einstaklingar fá mikla útrás gegnum skapandi leiki og nám.”

Um 15% glíma við lesblindu

Fyrir fjórum árum hófst þjálfun íslenskra Davis ráðgjafa, en þá þegar hafði myndast eftirspurn sem hafði verið annað með því að fá erlenda Davis ráðgjafa til landsins.

“Davis kerfið er nefnt eftir höfundi þess, Ronald D. Davis,” útskýrir Kolbeinn.”Hann var greindur með lesblindu og einhverfu á barnsaldri og átti jafnframt erfitt með tal. Árið 1980 hófst hann handa við að finna lausn á eigin vandamálum, sem áttu eftir að verða kjarninn í Davis aðferðunum sem hafa gagnast hafa þúsundum einstaklinga við að ná tökum á lesblindunni.

Árið 1982 stofnaði Ron ásamt Dr. Fatima Ali, Ph.D., “Reading Research Council”, þar sem unnið var markvisst að því að þróa kerfið sem Davis leiðrétting byggir á og árið1995 hófst svo kerfisbundin þjálfun Davis leiðbeinenda, og eru þeir um 390 talsins í dag.”

Hann segir að Davis leiðréttingin sé einnar viku námskeið, þar sem ferlinu er skipt í þrennt: viðtal, leiðréttingu, sem felst í þrjátíu klukkustunda einstaklingsnámskeiði og svo eftirfylgni.

“Davis leiðrétting leggur grunninn að breyttum námsaðferðum og hentar því mjög vel þegar hefðbundnar kennsluaðferðir bera ekki árangur,” segir hann. “

Hjá Betra nám er boðið uppá tvenns konar [Davis]námskeið, lesblindu-leiðréttingu, sem tekur fimm daga og stærðfræði leiðréttingu, sem tekur átta til níu daga. Þar sem Davis leiðrétting er einstaklingsnámskeið gefst færi á að nálgast persónuleg markmið nemandans betur en ella. Erfiðleikar með ritun eða vandamál tengdi athyglisbresti eða ofvirkni má einnig vinna með og hefur sú vinna oft skilað góðum árangri.”

Fimmtán þúsund fullorðnir með lesblindu

Að sögn Kolbeins er lesblinda töluvert algeng, þótt tölur um hana séu nokkuð á reiki.

“Oft er talað um 5 og allt upp í 15%, en hafa ber í huga að engin ein skilgreining er til fyrir lesblindu eða dyslexiu. Sé miðað við tíðni á hinum

Betra nám er í Kjarna - Mosfellsbæ

Norðurlöndunum má reikna með að fjöldi fullorðinna, 16-60 ára sem glímir við alvarlega eða mjög alvarlega lestrarörðugleika sé um það bil 15 þúsund. Séu þeir taldir með sem eiga við einhvers konar lestrarörðugleika að stríða hækkar þessi tala í 35.000 manns. Ég leyfi mér því að ætla að lesblinda sé algengari en almennt er talið, því margir tengja lesblindu eingöngu við lestur.

Við köllum það lesblindu þegar einstaklingurinn glímir við erfiðleika tengda lestri; lestur, lesskilning og einbeitingu, en reikniblinda er tengd stærðfræði. Einstaklingurinn getur haft annað hvort eða hvorutveggja. Þegar ég tala um erfiðleika tengda stærðfræði, reikniblindu, þá á ég við að skilningi á grunnhugmyndum stærðfræðinnar sé ábótavant. Barn getur lært að telja frá 1-10, án þess að gera sér grein fyrir hvaða “magn” eða “fjöldi” er raunverulega á bak við tölustafinn (táknið). Þannig getur “1” verið eins og “a” en “2” eins og “b”; einfaldlega tákn með hljóði.

Það er ekki víst að þessi einstaklingur geti hlaupið út á tún og náð í fjórar spýtur, því hann tengir ekki magnið við hljóðið eða útlit tölustafsins. Það er því mjög algengt – ef ekki algilt- að þessir einstaklingar glími við mikla erfiðleika tengda athygli og þar með tíma. Oftast er einnig mjög erfitt að kenna þeim á klukku og þau eiga erfitt með að læra hluti sem byggja á tímaröð. Einfaldir hlutir eins og að reima geta reynst þeim mjög snúnir.”

Kunna ekki bókstafi eftir þriggja ára skólagöngu

Hvernig greinist lesblinda og hverjir greina hana?

“Oftast eru það kennarar sem benda foreldrum á að lesblinda geti átt þátt í erfiðleikum barnsins við að ná tökum á lestri. Þó heyrum við alltof oft í foreldrum sem hafa gengið á veggi innan skólakerfisins og finnst eins og ekki sé hlustað á þá. Það eru mörg dæmi um krakka sem eru jafnvel komin upp í 3. bekk og kunna ekki stafina – eftir þrjú ár í skóla.

Foreldrar hafa tjáð okkur að tilsvörin séu þau að barnið sé ekki orðið nógu gamalt til að fá greiningu Ég hef í raun litlar upplýsingar um hvort viðkomandi nemandi hafi verið talinn óþægur eða heimskur, en langflestir sem til okkar leita og eru uppkomnir þekkja þessa upplifun að hafa verið stimplaðir tossar og letingjar. Sjálf gefa þau oft skýringuna að þeim hafi einfaldlega leiðst.”

Kolbeinn ítrekar að lesblinda hafi margar hliðar, bæði góðar og slæmar. Davis ráðgjafar kjósi að líta á björtu hliðarnar.

“Einstaklingsnámskeiðin okkar kallast “Davis leiðrétting” og eru verkleg. Þar er notast við leir og sköpunargleði viðkomandi fær að njóta sín. Lesblinda er ekki skilgreind sem sjúkdómur og því er yfirleitt ekki talað um að hægt sé að “lækna” hana. Markmið okkar með námskeiðunum er að gera nemandanum kleift að ná stjórn á grunn-orsök lesblindunnar. Ef það tekst, má ætla að sýnilegu neikvæðu áhrifin minnki eða hverfi jafnvel með tímanum”

Leir í stað blýants og blaðs

Sú fullyrðing hans að hann myndi ekki láta lesblinduna hverfa alveg þótt hann gæti, kemur á óvart.

Stubbastoð er í boði fyrir yngstu nemendurna

“Það er vegna þess að lesblindan er svo stór hluti af því hver persónan er. Ef lesblindan myndi hverfa myndi einstaklingurinn um leið missa mestu hæfileika sína – sem oftast eru góða hlið lesblindunnar. Ég er ekki viss um að fólk vildi að barnið sitt hætti að teikna, smíða, semja tónlist, mála, hanna föt eða hvað það allt nú er sem þau eru oftast góð í. Þetta eru nátengir hlutir. Það má segja að lesblindan stafi af ósjálfráðum viðbrögðum við óvissu.

Við sjáum þetta til dæmis gerast með þeim hætti að lesblindur einstaklingur ruglast ekki við það að bera kennsl á þrívíða hluti, eins og glas eða blóm, en algengt er að hik komi á viðkomandi um leið og hluturinn verður tvívíður, þ.e. bókstafur eða orð. Bókstafurinn “b” kann að vekja óvissu því það líkist “d” eða “p”. Þessi ruglingur getur varað árum saman ef ekkert er gert til að eyða óvissunni um táknið. Davis leiðrétting gengur með öðru orðum út á að eyða óvissu.

Við vinnum kerfisbundið með öll rittáknin (bókstafi) og greinarmerki þar til óvissu hefur verið eytt, en þá tekur við vinna við að eyða óvissu varðandi helstu hugtökin, en það eru gjarnan hugtök sem erfitt er að sjá fyrir sér (ómyndræn) og hafa því óljósa merkingu. Með því að nota leir verður nemandinn virkur í náminu, hann notar fleiri skynfæri og fær tækifæri til að vinna í þrívídd. Margar góðar ástæður eru fyrir því að leirinn hentar vel sem verkfæri fyrir þessa vinnu, hann kemur í raun í staðinn fyrir blað og blýant á meðan við förum yfir erfiðasta hjallann.”

Um tvöhundruð manns hafa komið á námskeið Lesblindusetursins, en Kolbeinn segir að það geti veri snúið að greina lesblindu með vissu hjá ungum börnum.

“Oft greinist lesblinda í kringum tíu ára aldurinn, en sjálfum finnst mér að það eigi að byrja að vinna mun fyrr með börn, til dæmis þau sem ná ekki tökum á lestri eftir fyrsta bekkinn. Mörg þeirra atriða sem einkenna lesblindu eru einfaldlega eðlileg, eins og spegilskrift, og því útilokað að alhæfa að um lesblindu sé að ræða. Til okkar á setrið hafa komið einstaklingar á aldrinum 6-65 ára.”

Lesblinda er ættgeng

Eru margir fullorðnir sem uppgötva að þeir hafa átt við lesblindu að stríða alla tíð?

“Já, fólk hefur fengið að kenna á erfiðleikunum þótt það hafi hugsanlega ekki vitað að um lesblindu hafi verið að ræða. Lesblinda er einnig afar ættgeng og þar sem menntunarstigið var lægra hér áður fyrr þá vakti það enga sérstaka athygli þótt heilu kynslóðirnar væru lítið menntaðar.

Ungt fólk í dag stendur frammi fyrir því að það þykir sjálfsagt að ljúka stúdentsprófi og helst háskólaprófi. Því er hópur lesblindra sýnilegri í dag en áður. Það getur verið erfiðara að vinna með fullorðnu fólki en börnum, því tilfinningarnar eru sterkari og ýmislegt sem hefur legið grafið jafnvel áratugum saman getur komið upp. Oft geta þetta verið hversdagsleg atvik sem hafa engu að síður legið þungt á fólki og haft áhrif á sjálfsmynd þess.

Lesblinda

Það getur fylgt því mikill léttir fyrir þetta fólk að raða saman brotunum, að sjá sjálft sig og erfiðleikana í öðru ljósi. Það getur verið mikið átak fyrir fullorðið fólk að koma á námskeið til okkar og stundum er það eina námskeiðið sem fólk hefur farið á um ævina. Við vitum dæmi þess að fólk hefur drifið sig aftur í skóla, jafnvel háskóla, eftir að hafa sótt námskeið hjá Lesblindrusetrinu.”

Eru kennarar og forráðamenn skóla almennt vel meðvitaðir um lesblindu?

“Það er sjálfsagt allur gangur á því. Mínar skoðanir mótast óneitanlega af þeim hópi sem til okkar leitar, og því miður virðist það allt of algengt í þessum hópi að skilningur á lesblindu sé ekki fyrir hendi innan skólakerfisins. Ég vil þó trúa því að flestir kennarar viti eitthvað um lesblindu eins og helstu einkenni.

Einnig gerist það stöku sinnum að kennarar reyni að tala fólk af því að koma með börn sín á námskeið og lofa jafnvel aukinni aðstoð innan skólans. Þetta er jafnvel sagt við foreldra barns sem er búið að vera 4-5 ár í skóla og hefur enn ekki náð góðum tökum á lestri. Það er bara ein ástæða fyrir því að hjá okkur eru biðlistar í námskeið. Hún er sú að innan skólakerfisins eru stórir hópar barna sem ekki fá úrræði við sitt hæfi innan skólakerfisins.

Hægt er að skrá sig frítt í póstklúbb Betra náms

Ef allir gætu lesið, þá væri Lesblindusetrið ekki til, svo einfalt er það. Við sem störfum við að leiðbeina þeim sem glíma við þessa erfiðleika megum aldrei falla í þá gryfju að setja okkar eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni nemandans. Fólk á að hafa réttinn til að velja það úrræði sem best hentar þeirra barni án þess að hagsmunir okkar, kennara barnanna eða fordómar hafi þar áhrif. Mér er það minnisstætt þegar kennari kvaddi nemanda sinn sem bað um viku frí til að koma til okkar, með orðunum: “Þú þarft ekkert að fara á námskeið, þú ert bara latur.”

Er aðstoð við lesblinda niðurgreidd?

“Nei, ekki nema innan skólakerfisins. Þó vil ég geta merkilegra námskeiða sem frumkvöðullinn Hulda Ólafsdóttir hjá Mími á heiður skilinn fyrir, en það eru námskeiðin “Aftur í nám”. Þetta eru námskeið sem niðurgreidd eru af ríkinu og er Davis leiðrétting einn stærsti hluti þessara námskeiða.  Námskeiðin hafa mælst vel fyrir og færri komist að en vilja. Ég veit ekki til þess að fullorðnir fái fjárhagslega aðstoð til fá leiðréttingu á sinni lesblindu, en þó má reikna með að verkalýðsfélög niðurgreini hluta af kostnaði þessara námskeiða eins og annarra.”

annakristine@dv.is

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!