Fréttablaðið – Viðtal

Hjá Betra nám í Mosfellsbæ kennir ýmissa grasa. Þar er ekki einungis boðið upp á námskeið fyrir lesblinda heldur má þar einnig finna námskeið í námstækni sem börn og foreldrar geta farið saman á. 

Kolbeinn Sigurjónsson

Námskeiðin henta börnum frá tíu ára aldri óháð námsgetu og frítt er fyrir annað foreldri til að styðja barn sitt ef þess er þörf. “Ég hef frítt fyrir foreldra til að tryggja að efnið skili sér og þá er ég sérstaklega að hugsa um yngri krakkana, svona tíu til þrettán ára. Þá finnst mér mjög gott að foreldrarnir séu með í minnistækninámskeiðinu,” segir Kolbeinn Sigurjónsson, Davis-ráðgjafi hjá Betra nám í Mosfellsbæ.

“Það eykur líkurnar á að fólk geti gert sér mat úr þessu eftir á og að barnið komi ekki heim með tækni sem foreldrarnir skilja ekki. Það er oft þannig að foreldrar eru að hjálpa börnum að læra fyrir próf og minnistæknin hjálpar til við utanbókarlærdóm eins og nöfn, staði og ártöl sem fylgir landafræði, náttúrufræði, sagnfræði og fleiru. Þetta verður léttara ef báðir aðilar kunna tæknina og tala sama tungumálið ef svo má segja. Þetta verður þá meira eins og leikur,” útskýrir Kolbeinn.

Foreldrar eru duglegir að fylgja börnum á námskeiðin og þá sérstaklega í minnistækni, sem er mjög almenn. “Sumir nota jafnvel tækifærið fyrir sjálfa sig og er þetta sérstaklega nytsamlegt þegar maður er í skóla. Próf eru oft notuð sem mælistika á hvað þú manst en ekki endilega hvað þú skilur. Ef þú ert með gott minni ertu líklegur til að skora hátt á prófum og því er minnistækni mjög skynsamleg og sparar tíma.”

Námstækninámskeiðin eru stutt og hnitmiðuð. Í boði eru námskeið í hraðlestri, minnistækni, stærðfræði þar sem farið er í grunninn og í hugarkortum sem er ákveðin glósutækni. “Hugsunin á bak við námskeiðin er að þau nýtist við margar námsgreinar. Þó að kjarninn hjá okkur sé í sambandi við lesblinduleiðréttingar og frá degi til dags séum við aðallega að sinna krökkum sem eiga erfitt með nám, þá geta hin námskeiðin hentað óháð námsgetu,” segir Kolbeinn og telur hann að því fyrr sem börn komi á námskeiðin því betra.

“Krakkar sem eru orðnir tíu til tólf ára og eiga ekki við neinn sérstakan vanda að stríða í námi eru tilbúnir að lesa hraðar en þeim er kennt í skóla. Okkur er aldrei kennt nema fyrsta skrefið í lestri í sex ára bekk og síðan ekki söguna meir,” segir Kolbeinn, og þar sem námsefni og lesefni eykst jafnt og þétt telur hann þetta vera góðan tíma til að setja í annan gír og bætir við kíminn: “Þetta er í rauninni bara eins og að hafa fleiri gíra.”

Betra nám er í Kjarna - Mosfellsbæ

Betra nám var stofnað utan um Davis-aðferðafræðina og í vor hefur það starfað í þrjú ár í þeirri mynd sem það er nú í. “Það gengur mjög vel en því miður eru yfirleitt biðlistar á lesblindunámskeiðin, sem eru einstaklingsnámskeið sem taka heila viku, þannig að það komast að hámarki fjögur verkefni að í mánuði hjá ráðgjafa.

Ég hef verið í þessu í fjögur ár og það er alltaf aukning sem skilar sér aftur í biðlistum,” segir Kolbeinn en námstækninámskeiðin eru hraðnámskeið þar sem kennt er á einni viku frá mánudegi til föstudags, um klukkutíma í senn. “Ég reyni að hafa þetta einfalt í framsetningu og kenni fólki að leggja áherslu á það sem skilar hraða og hætta að nota aðferðir sem tefja.

Með því að fara eftir þessari einföldu reglu má taka mikið til. Þegar ég hitti krakkana á hverjum degi í eina viku er ég eins og nokkurs konar þjálfari. Þau þurfa ekki að æfa sig heima á meðan þau eru að komast yfir erfiðasta hjallann,” segir Kolbeinn áhugasamur og eftir viku geta börnin beitt aðferðinni.

“Stærðfræðinámskeiðið er hins vegar sérhæfðara og hentar þeim sem eiga mjög erfitt með stærðfræði og vantar grunninn,” bætir Kolbeinn við. Hægt er að skrá sig á námskeið á heimasíðu Betra náms, www.betranam.is, og þar má einnig finna nánari upplýsingar.- hs

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!