Það kann að hljóma ótrúlega, en þegar þú skoðar það betur þá sannfærist þú líklega. Hugsaðu bara til baka og líttu í eigin barm. Er þetta ekki augljóst?
Flæði (e. flow). Þegar hlutirnir flæða áfram áreynslulaust. Hugurinn brunar áfram eins og járnbrautarlest sem ekkert fær stöðvað. Í þessu hugarástandi erum við óstöðvandi. Við skiljum það sem fyrir okkur er lagt. Eins og að drekka vatn. Auðvelt að fylgjast með. Auðvelt að setja í samhengi!
Auðvelt!
Andstæðan? Ekkert flæði. Hökt og hik. Við þurfum að brjóta heilann. Við skiljum ekki alveg.
Ástæðan? Orsök og afleiðing. Orsakasamband. Hvernig hlutir tengjast og hafa áhrif hver á annan. Þegar heildarmyndin smellur saman eins og púsluspil.
Dæmi:
Barn les texta. Setningin samandstendur af mörgum orðum, sum eru framandi og illskiljanleg. Erfitt.
Stærðfræðikennarinn er að útskýra aðferð á töflunni. Nemandinn á erfitt með grunnatriði (eins og hugarreikning) auk þess sem hann skilur ekki öll orðin sem kennarinn notar. Erfitt.
Hvað skilur á milli? Stundum flæða hlutir og stundum flæða þeir einfaldlega ekki. Við tölum og skrifum línulega. Orð fyrir orð (vinstra heilahvel) En við hugsum í myndum, heildrænt (hægra heilahvel).
Til þess að skilja það sem er sagt eða skrifað, þá má ekki of langur tími líða frá fyrsta orði til þess síðasta! Það tekur okkur aðeins nokkur augnablik að gleyma því sem áður var sagt eða skrifað. Svæði í hægra heilahvelinu tengir saman punkta/staðreyndir.
Eins og að ganga í snjókomu. Eftir augnablik hefur fennt í sporin. Minnið er tómt!
Ef lesandi á að geta skilið það sem hann les þá þarf hann að lesa á tilteknum hraðar. Heilinn raðar saman orðunum í eina heild – þegar setningin hefur verið lesin. Ef nemandinn les of hægt eða lendir í basli með tiltekin orð í setningunni þá fennir í sporin. Flæðið brotnar og tíminn er einfaldlega of langur. Nemandinn getur ómögulega munað hvað hann las.
Ef stærðfræðiformúla inniheldur hugtök sem nemandi skilur ekki eða dæmið krefst þess að hann telji á fingrum (því hann kann ekki margföldun) þá brotnar flæðið og nemandinn getur ekki lært “aðferðina”. Varareiknir er ekki lausn, því það brýtur líka flæðið að líta upp úr dæminu og slá tölurnar í vasareikninn.
Að sama skapi er oft erfitt að læra texta utanbókar (t.d. ljóð) – okkur reynist mun auðveldara að læra söngtexta. Í söngtextum er taktur, ryþmi og laglína. Flæði.
Ekki skrýtið að til eru ótal vísur til þess eins að hjálpa börnum að læra dagana eða nöfn fingranna. Flæði.
Stundum er ekki nóg að gera hlutina rétt. Það þarf að gera þá hratt. Til að ná flæði.
Hraðinn gerir okkur kleift að endurtaka okkur oft á stuttum tíma. Það er auðveldara og upprifjanir geta skipt sköpum.
Þjálfunarnámskeið eins og Lesum hraðar og Reiknum hraðar byggja m.a. á þessari hugmyndafræði. Að hröð en stutt endurtekning sé oft mun líklegri til árangurs en hæg vinnubrögð. Þegar nemandinn vinnur hægt þá reikar hugurinn, æfingin tekur langan tíma og honum leiðist. Hann missir áhuga. Upprifjanir verða kvöl og pína.
Tíminn sem líður frá því að æfing byrjar og þar til henni lýkur getur ráðið úrslitum um hvort eitthvað situr eftir. Flæðið er eins og hringur. Þegar endarnir snertast þá gerast töfrarnir. Við kveikjum á perunni. Við tengjum!
Hvað finnst þér? Sendu línu!
You must be logged in to post a comment.