Einhverfi ofvitinn Jósep lærði þetta á 2 mínútum – en getur þú það?

Einhverfi ofvitinn Jósep lærði þetta á 2 mínútum – en getur þú það?

“Hefur þú ofvitahæfileika?”  Þannig hljómar fyrirsögn greinarinnar um einhverfa ofvita í Lifandi vísindum.  Þar segir frá Jósep Söllevan sem lærði 36 samhengislausa talnarunu utan að.  Hið ótrúlega er að þú getur það líka, en prófaðu fyrst!

Lestu þessa tölu yfir, eins oft og lengi og þú vilt (því ég veit að þú getur ekki lært hana utanbókar!).  En reyndu.

4 7 2 9 5 7 6 3 4 5 1 3 4 2 9 1 0 3 7 1 5 5 9 0 3 8 3 4 7 2 9 2 6 7 1 8

LifandiVisindiEf þú virkilega reynir taktu þá eftir aðferðinni.  Ferðu margoft yfir þetta? Hve margar umferðir þarftu?  Hve  vel tollir þetta inni.  Ef þú gefur þér 30 mínútur, hve mikið heldur þú að þú munir í kvöld eða á morgun?  Þarftu e.v.t að byrja upp á nýtt?

Eitt af því erfiðasta sem við gerum er að fást við utanbókarlærdóm.  Sér í lagi samhengislausan.  Talnarunur eru þar ekki undanskildar.  Margir eiga erfitt með margföldunartöfluna, þrátt fyrir að hún byggi á reglu.

Þegar ég sá greinina þá langaði mig að sjálfsögðu að prófa líka, og með því að nota minnistækni lærði ég talnarununa í fyrstu tilraun eftir aðeins nokkrar mínútur!

Ég hugsaði mér með, að þegar maður getur lært svona runu utanbókar þá ætti maður að geta lært hér um bil hvað sem er (sem ekki byggir á djúpstæðum skilningi þ.e.).  T.d. ártöl.

Það ótrúlega er, að ég man töluna svo til ennþá, sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að það eru um 2 ár síðan ég lagði hana á minnið.

Ef eitthvað bregst í upprifjuninni, þá þarf ekki nema augnabliks leiðréttingu á það.  Ástæðan fyrir þessari frásögn er ekki sjálfshól, þvert á móti!

Heldur finnst mér það nánast ótrúlegt að svo öflugt tæki sem minnistækni er, skuli hunsuð af skólakerfinu.  Að vísu er einn og einn áhugasamur kennari sem miðlar einhverju slíku til nemenda sinna, en kennslan verður alltaf ómarkviss þar sem hún er ekki hluti af náminu og kennarinn er ávallt í knappri stöðu þar sem þétt námsskráin  hefur forgang en ekki námsaðferðirnar.

Bókleg fög sem eru kjörin fyrir minnistækni eru t.d.:

  • Náttúrufræði
  • Landafræði
  • Samfélagsfræði
  • Trúarbragðafræði
  • Sagnfræði
  • Félagsfræði
  • Listasaga
Talnarunan ótrúlega

Talnarunan ótrúlega

Auk þess er mjög gott að kunna skil á minnistækni þegar kemur að því að læra afmarkaða þætti, t.d. í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði.

Í stuttu máli mætti segja að minnistækni sé gulls í gildi þegar maður á erfitt með að læra eitthvað (muna eitthvað!) eftir 2-3 skipti.  Og trúðu mér, það gerist oft!

Nám byggir að miklu leyti á minni.  Við lærum af reynslunni, og hvernig færum við að því ef minnið væri ekki til staðar.  Bókleg fög reyna sjaldnast á skilning, mun meira á utanbókarlærdóm og því er það klárt mál að notkun minnistækni í námi ætti að vera skyldulærdómur.

 

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!