Þess vegna getur einbeiting verið varhugaverð!

Þess vegna getur einbeiting verið varhugaverð!

Að geta einbeitt sér er mikilvægt.  Þeir sem eiga erfitt með það eiga jafnan erfitt uppdráttar í skóla. En við megum ekki gleyma því að hlutverk athyglinnar er öðru fremur að reika.  Annað getur beinlínis verið hættulegt.

Oftast er rætt um athygli (eða skort á henni) í tengslum við nám og námsörðugleika.  Í námi er það vissulega kostur að geta setið við og haft augu og eyru á einum hluti í langan tíma.  Erfiðleikar til að gera þetta er litnir neikvæðum augum og í mörgum tilfellum er talað um athyglisbrest.

En gleymum því ekki að skólakerfið er ungt, einungis 2-300 ára gamalt.  Við erum hvorki hönnuð né byggð fyrir það umhverfi sem skólastofan er.  Er athyglin (eða “skortur” á henni”) eðlilegur eða óeðlilegur?  Er námsumhverfið eðlilegt eða óeðlilegt?  Það fer e.t.v. eftir því hvaðan er horft.

Athyglin er alltaf einhversstaðar. Við slökkvum ekki á henni.

Til einföldunar skulum við segja að athyglin sé annað hvort á umhverfi okkar, eða hugsunum.  Athyglin getur ekki verið á báðum stöðum á sama tíma, það er ljóst.  Við skiptum athyglinni á milli þessara heima.  Við erum annaðhvort meðvituð um umhverfi okkar eða hugsanir.  Annað kosturinn útilokar hinn.  Heilinn er annað hvort móttækilegur fyrir skilaboðum frá skilningarvitunum 5 (því sem við sjáum og heyrum) eða þá að hann er að velta sér upp úr eigin hugsunum.

Athyglin skimar umhverfið

Athyglin skimar umhverfið

Sá sem er djúpt sokkinn virkar því utan við sig.  Að tala í farsíma í akstri bitnar á getu okkar til að bregðast við hættum.  Sá sem ekur fjallveg dettur út úr samtalinu meðan hann “einbeitir” sér að akstrinum…og öfugt!

Hlutverk athyglinnar er einkum tvíþætt.  Annars vegar að “verja” undirvitundina.  Þetta er rökhugsunin, við hugsum rökrétt og vegum og metum það sem við sjáum og heyrum.  Við trúum því eða trúum því ekki.  Við látum engan segja okkur að við séum fugl og trúum því.  En meira um undirvitundina síðar.

Hitt veigamikla hlutverk athyglinnar er að skima umhverfið fyrir hættum og snöggum breytingum.

Gleymum því ekki að áður fyrr var lífsbaráttan mun harðari og það að komast lifandi í gegnum daginn var ekki sjálfgefið.  Hellisbúar og frumbyggjar bjuggu við margs konar hættur og ógnanir, villidýr og óvini.  Snákur í grasi eða górilla í rjóðri gat breytt saklausu umhverfi í vígvöll á sekúndubroti.  Við skimum umhverfið fyrir breytingum.  Ef ekkert breytist þá er allt öruggt.  Skyndilegt hljóð eða hreyfing vekur snöggt viðbragð hjá okkur.  Okkur bregður.

Hætturnar geta leynst víða!Þetta er arfleifð okkar.  Ekki skólastofan þar sem sussað er á þá sem tala.  Að fylgjast lengi með einhverju sem ekki ógnar okkur eða hefur áhrif á lífsafkomu okkar heldur líklega ekki athygli okkar heldur.  Þrusk í grasi gat þýtt skyndileg hætta.  Sá sem ekki var með athyglina hjá sér var dauðans matur.  Þrusk í nestispoka eða skrjáfur í blýanti er vissulega ekki merki um lífshættulega ógn en sömu aðvörunarbjöllurnar kunna að hringja.  Athygli sumra er með slíku móti að þeir eiga erfitt með að láta aukahljóð fara fram hjá sér.  Eru þeir með góða athygli eða athyglisbrest?

 

Með þessu er ég ekki að halla á skólaumhverfi, enda vilja flestir vinnufrið og tækifæri til að mennta sig.  En það er stundum eins og við gleymum því hvaðan við komum.  Að margs konar hegðun og eiginleikar sem fylgt hafa okkur í þúsundir ára eru litin hornauga því þau henta ekki í afar afmörkuðu umhverfi.

Góð athygli er breytileg.  Stundum er hún út um allt (umhverfinu), og stundum á einum afmörkuðum hlut (oftast hugsunum okkar).  Hvar hún er hverju sinni, ræðst ekki alltaf af vilja okkar, heldur innbyggðum forritum (t.d. eðlishvöt) sem keyra í undirvitund okkar án þess að við verðum þeirra vör.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Trackbacks

  1. […] einföld leið sem losar um þetta hugarástand fljótt og vel.Ég hef áður skrifað um athyglina, að hún beinist annað hvort inn á við (að hugsunum okkar) eða út á við (að […]

Hvað finnst þér? Sendu línu!