Vanaföst eða föst í viðjum vanans – Hvort er betra?

Vanaföst eða föst í viðjum vanans – Hvort er betra?

Er líf þitt í föstum skorðum eða ertu etv. bara föst/fastur í viðjum vanans? Gengur þér illa að koma breytingum í framkvæmd og ferðu alltaf í sama farið?  Er hugur okkar e.t.v. fyrirfram forritaður?  Ferðu að miklu leyti í gegnum daginn á sjálfstýringu – af gömlum vana?

Arfleifðin – hugarmynstrin

Við erum öll fædd með vissa eiginleika í farteskinu – hugur okkar er að hluta til mótaður af hugarmynstrum. Þessi „mynstur“ birtast sem ýmis konar þarfir, bæði tilfinningalegar og líkamlegar. Við þurfum að fá þessum þörfum fullnægt eigi hugur okkar að þroskast og dafna. Hversu vel og hvernig við fáum þessum þörfum fullnægt getur haft áhrif á líðan okkar og andlega heilsu.

Hugarmynstur er í raun ákveðið mynstur hugsana (e. patterns/templates), sem mótar hugsun okkar og viðbrögð við áreyti. Frá fyrsta andardrætti byrjum við að leita að því sem upp á vantar, hugarmynstrin eru hvatirnar – þörfin að byrja að leita og uppfylla þær.

Nýfætt barn dregur andann í fyrsta sinn og leitar að andliti móður sinnar. Hvernig vita nýburar hvernig á að anda, sjúga og horfa? Í móðurkviði er myrkur og fóstrið fékk næringu um naflastreng. Ástæðan er einföld; við fæðumst með ákveðin hugarmynstur (mótaðar hugsanir um hvernig á að gera vissa hluti). Ungabarn bregst við svipbrigðum móður, ef hún rekur út úr sér tunguna þá hermir barnið.
Þetta er í raun merkilegt því hvernig veit barnið hvort tunga þess er inni í munninum eða ekki? Hvernig tengir barnið tungu móðurinnar við sína eigin? í móðurkviði er enginn spegill.

Þetta lýsir vel þessari arfleifð sem við fæðumst með. Maðurinn hefur þróast í milljónir ára og þessi þróun er innbyggð í okkur. Hvernig við bregðumst við áreyti, ræðst af miklu leyti af þessum hugarmynstrum.

Fuglinn og hreiðrið

Hugsum okkur fugl sem leitar að efni til hreiðurgerðar. Fuglinn leitar að efni sem skal vera langt og mjótt, helst sveigjanlegt. Þarna er um að ræða „mynstur“ í huga fuglsins. Það sem hentar best til hreiðurgerðar eru auðvitað strá ýmiskonar, en fuglinn getur mætavel hirt plaströr úr drykkjarfernum, teina úr reiðhjóli o.s.frv. Fuglinn hefur semsagt fyrirfram mótaðar hugmyndir (hugarmynstur) um það hvaða byggingarefni hentar best. Hugarmynstrin eru samt nógu opin (e. incomplete) til að lífveran geti vaxið, dafnað og lært af lífsreynslu sinni og þannig mótað hugarmynstrin áfram með reynslu sinni og upplifunum. Mynstrin eru semsagt ekki endanleg, þó mótast og breytast gegnum lífið.

Plantan “veit” hvernig hún á að vaxa – barnið ekki

Við gætum spurt: „Hvaða líkamlegu, félagslegu og andlegu þarfir þarf plantan að uppfylla sem gera henni kleift að vaxa og dafna?“. Ef plantan dafnar ekki vel þá leitum við skýringa í umhverfi hennar; vantar vatn? Fékk hún kannski of mikið vatn?

Munurinn á plöntu og manneskju liggur ekki síst í því að plantan „veit“ hvernig hún á að vaxa, barn veit það ekki. Barnið þarf leiðsögn, við köllum það uppeldi. Uppvöxtur mannveru krefst mun meira atlætis en plöntunnar. Andleg vellíðan, og þar með líkamleg veltur á því hversu vel einstaklingnum tekst að „næra“ þessar þarfir sínar.

Hugarmynstur móta stærri hluta hegðunar okkar en við gerum okkur grein fyrir

Við sjáum þetta á því hversu fast við sækjum að hafa hlutina og tilveruna í föstu horfi. Við ökum sömu leiðina í vinnuna, sitjum á sama staðinn á fundum, við höfum „smekk“ fyrir tónlist og svo mætti lengi telja. Hlutir sem eru okkur mikilvægir eins og jólahald mega helst ekki breytast o.s.frv.

Þegar hlutir í umhverfi okkar breytast getur það tekið á okkur. Flutningar, nýr skóli eða breytingar á vinnustað leggjast oft illa í fólk – mynstrið okkar var brotið og við erum ekki örugg lengur. Það getur tekið langan tíma fyrir okkur að „aðlagast“ nýja mynstrinu þar til okkur finnst það „eðlilegt“ á ný, þá líður okkur aftur betur.

Af þessu má sjá að hegðun okkar er að hluta til mótuð og viðbrögð okkar við umhverfinu einnig. Við fæðumst því með tilteknar þarfir sem við leitumst við að uppfylla. Skapist ójafnvægi tengt þessum grunnþörfum okkar þá getur það síðar haft áhrif á líðan okkar og andlega heilsu.

Eitt það erfiðasta sem við gerum er að breyta ávönum okkar.  Það getur tekið okkur mörg ár að koma einföldum hlutum inn í líf okkar.  Slæmir ávanar gera okkur lífið leitt og góður vilji má sín oft lítils gegn vananum.

Ávani verður ekki til á einum degi

Ávani verður einfaldlega til vegna þess að við framkvæmum tiltekna hluti aftur og aftur.  Góðir (og slæmir) hlutir gerast hægt.  Ef heilinn lærði ekki með þessum hætti þá gætum við hvorki gengið né hjólað.  Sem byrjendur gerum við hlutina með mikilli athygli, það er meðvituð ákvörðun að læra á píanó, skauta eða synda.

Athyglin er á útopnu meðan við sem byrjendur dettum, hrösum og gerum ítrekuð mistök.  Með tímanum lærist þetta þó, undirvitundin tekur í raun hlutverk athyglinnar yfir og einn daginn getum við gengið, hjólað eða synt án þess að hugsa svo mikið um það.

Undirvitundin er góður nemandi.  Hún gerir ekki greinarmun á réttu og röngu, hún dæmir ekki.  Hún bara meðtekur.  Góða ávana og …slæma.

Maður situr því uppi með það að flestir lestir manns eru sjálfskapaðir.  Við getum því miður ekki kennt öðrum um en okkur sjálfum.  Ávaninn er oftast afrakstur þrotlausra æfinga.  Margir lögðu mikið á sig til að “læra” að reykja.  Þeir fengu mörg tækifæri og þúsund ástæður til að hætta en þeir gáfust ekki upp.

Við uppskerum eins og við sáum.

Orsakir fyrir öllu

Það eru orsakir fyrir öllu og allt hefur afleiðingar.  Ekkert gerist “af því bara”.  Rigningin, rokið og jafnvel lífsleiðinn á sínar orsakir og þar með skýringar.  Með því að velja orsökina þá veljum við afleiðingarnar.  Fyrir þessu lokum við oft augunum og finnum afsakanir í umhverfinu til að útskýra afleiðingarnar.

“Kennarinn er ömurlegur” er betra en “Ég sinni náminu ekki nógu vel”.
“Það er allt orðið svo dýrt” er þægilegra en “Ég kaupi mikið af óþarfa dóti”.
“Dómaraskandall” er betra en “Hitt liðið átti betri leik”.

Að hafa hlutina í föstum skorðum kann að veita (falska) öryggistilfinningu en getur líka verið ávísun á leiða.  Við þurfum áskoranir og tilbreytingu, en sækjum gjarnan í kyrrstöðu.

Hvenær lærðir þú síðast eitthvað nýtt?

Sem börn stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum daglega.  Börn æfa eitt í dag og annað á morgun.  Þau læra á hljóðfæri, stunda margar íþróttagreinar og eru í mörgum fögum í skólanum.  Á unglingsárunum fækkar tómstundum gjarnan og upp úr tvítugu eru flestir hættir.  Leiklistarnámskeiðin, tónlistarnámið, handbolta- og fótboltaæfingarnar.  Allt tilheyrir þetta fortíðinni.  Við ljúkum jafnvel stúdentsprófi og síðar e.t.v. háskólaprófi.  En hvað svo?

Í örygginu felst kyrrstaða.  Að gera sama hlutinn alltaf aftur.  Að gera aðeins það sem við erum góð í.  Að forðast áhættur og mistök.
Sá sem stendur kyrr situr eftir.  Námi lýkur ekki með útskrift úr skóla.  Það hefst.  Þegar við erum ekki lengur mötuð af umhverfinu þá sitjum við uppi með okkur sjálf.  Þegar enginn segir okkur lengur hvað við eigum að gera, eða sér okkur fyrir verkefnum frá degi til dags, hvað tekur þá við?

Námstækifærin eru allsstaðar

Tækifærið til náms er alls staðar í kringum okkur.  Ekki bara í skóla og á námskeiðum.  Bækur um allt milli himins og jarðar standa öllum til boða, við eigum bókasöfn um allar trissur, rafbækur (s.s. Amazon Kindle) gera okkur kleift að sækja efni heimshorna á milli með litlum tilkostnaði.  Á Internetinu er aragrúi tækifæra til að læra eitthvað nýtt í gegnum Youtube, bloggsíður og fjarnámskeið.

En margir láta sér áreytið í vinnunni nægja og hætta þegar heim er komið.   Það sem eftir lifir dags er gjarnan notað í afþreyingu (s.s. sjónvarp og Netið), við “drepum” tímann.  Upphaf kyrrstöðunnar er hafið.  Formlega náminu lokið og 9-5 lífið tekið við.

Fyrr eða síðar

Ófáir lenda í vandræðum þegar umhverfið fóðrar þá ekki lengur.  Tómleikinn getur gripið þá sem missa vinnuna, lenda í skilnaði eða hætta að vinna sökum aldurs.  Þá kemur í ljós að það er ekki nóg að “drepa” timann.  Sjónvarp og tölva örva ekki hugann heldur hægja á honum og leiðinn læðist að.  Það sem áður var upplifting er orðin kvöl, og var það kannski allan tímann.  Hvað gerum við þegar okkur “leiðist”?  Það er næsta víst að sá sem horfir mjög lengi á sjónvarp eða hangir mjög lengi í tölvunni “leiðist”.  Þegar öllu er á botnin hvolft þá er þetta ekki fullnægjandi skemmtun, heilinn þarf örvun og áskoranir til að starfa eðlilega.

Hvaða kröfur gerir sjónvarpsgláp og tölvuhangs til okkar?  Svo til engar.  Við uppskerum eins og við sáum. Orsök og afleiðing.

Hvernig líður þér í eigin skinni?
Hvaða markmið hefur þú?
Hvað ertu að gera frá degi til dags til að nálgast þau?
Hvað myndir þú gera ef þú fengir fyrirvaralaust 3 mánuði til að eltast við þína drauma?

Leikarinn Will Smith orðar þetta vel…

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!