Hélstu að gott minni væri hlutskipti útvaldra? Hugsaðu aftur!

Hélstu að gott minni væri hlutskipti útvaldra? Hugsaðu aftur!

Okkur hættir til að tala niður getu okkar til að muna.  Kannast þú við að hafa sagt við sjálfa þig eitthvað eins og; “Ég man aldrei nöfn”, “Ég er vonlaus í ártölum”, “Ég man aldrei hvar ég legg frá mér hlutina”.  Ef svo er þá er líklega kominn tími til að endurforrita skoðun þína á eigin getu til að muna.

Minni

Gleymdir þú einhverju?

Af sömu sökum finnst okkur aðrir oft hafa betra minni en við.  En staðreyndin er sú að við erum ekki með gott eða slæmt minni…í þessum skilningi.  Minnið er ekki hlutur, eða líffæri.

Þú getur haft veikt hné eða léleg lungu, en ekki lélegt minni.  Ég er að sjálfsögð að tala um venjulegt, heilbrigt fólk en ekki sérstök tilfelli eins og alzheimer.  Ótrúlega margir telja sig hafa lélegt minni án þess að hafa nokkuð til síns máls.

Þú þarft ekki lengur að líta á minni þitt sem óhagganlegt fyrirbæri, gott eða slæmt.  Líkt og að vera góður eða slæmur í baki.  Það er mikil einföldun.

Minnið er ekki hlutur – heldur “ferli”.  Heilaskurðlæknir myndi líklega ekki opna heilann á sjúklingi og segja: “Fjúh, þessi hlýtur að vera gríðarlega gleymin(n)!”.  En laskað hné fer ekki á milli mála.

Að muna eitthvað er flæði, atburðarás.  Til einföldunar getum við skipt þessu flæði í 3 hluta:

  1. Við tökum eftir einhverju (sjáum eitthvað, heyrum eitthvað)
  2. Heilinn skráir upplýsingarnar
  3. Við framköllum upplýsingarnar

Almennt höldum við að þeir sem eru góðir að muna – og fá háar einkunnir – séu góðir í lið nr. 3.  Að kalla upplýsingarnar fram.
Á það reynir jú í prófum.  Að geta svarað því sem spurt er um.

En þetta er ákveðinn misskilningur.  Að rifja upp, að kalla fram staðreyndir og upplýsingar er auðveldi hlutinn…EF liður nr. 2 tókst vel, þ.e. að skrá upplýsingarnar í minnið.

Og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Við hvorki lærum, né æfum þann hluta (enda kunnum við það ekki).

Enginn kennir hvernig best er að leggja hluti á minnið

Þetta bara einhvern veginn gerist.  Það getur oltið á áhuga hvort maður man eitthvað eða ekki.  Þeir sem eiga erfitt með athygli eða skortir áhuga, detta jafnan út í skrefi 1.

Þetta eru þeir sem ekki fylgjast með, voru ekki að hlusta eða detta út meðan þeir lesa (án þess að taka eftir því).  Þegar þetta gerist þá man maður illa eftir því sem maður sér og heyrir.  Því hugurinn (athyglin) er annars staðar.

En stundum er það svo að athyglin er góð og það er allur vilji til staðar – en samt getur maður ekki munað hlutina.

Hefur þú lent í því að muna eitthvað sem er algjörlega vita-gagnslaust, en geta ekki lært eitthvað annað jafnvel þótt lífið liggi við?

Þetta er veiki hlekkurinn.  Og þar kemur minnistækni inn.  Þeir sem gera þetta vel (liður 2), geta í raun munað ótrúlegustu hluti.  Nöfn, staðreyndir, ártöl og annar utanbókarlærdómur er margfalt auðveldari ef þú kannt minnistækni.

Þriðji liðurinn, að framkalla staðreyndirnar, stendur og fellur með lið 2.  Semsagt, ef þér finnst einhver vera svo heppinn að vera með stálminni, þá er hann eða hún líklega góð í því að leggja hlutina á minnið.  Meðvitað, eða ómeðvitað.  Minnistækni gerir þér kleift að leggja upplýsingar meðvitað og markvisst á minnið, sem er afskaplega þægilegt í námi.

Minni þitt er mun betra en þú heldur.  En þú getur engu að síður stóraukið minnisgetu þína með því að nota markvissar minnisaðferðir.  En það er strax til bóta að hætta að tala niður  minni sitt og hugsa frekar um hvernig þú ætlir að muna eitthvað fremur en að ganga að því sem gefnu að þú getir ekki munað það.

p.s.

Næst þegar þú leggur frá þér hlut, prófaðu að segja (helst upphátt) við sjálfa þig: “Lyklarnir eru hjá kaffivélinni” (eða það sem á við hverju sinni).  Þetta einfalda ráð virkar ótrúlega vel, því það  tryggir athygli (annars gætir þú ekki sagt þetta upphátt).  Fyrsti liðurin (skortur á athygli) er ein helsta ástæða þess að maður “man” ekki eitthvað.  Þú gleymdir því líklega engu…þú tókst bara ekki eftir því 😉

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!