Flest umfjöllun um ofvirkni og lesbindu er á neikvæðum nótum. Neikvæðar hliðar fá gríðarlega athygli enda birtast þær oft vel í námi og nám og skólaganga taka drjúgan tíma á mótunarárum einstaklingsins. Þegar árangur afreksmanna er skoðaður kemur nokkuð forvitnilegt í ljós.
Ég hef áður velt því upp hvort sé hið raunverulega meinið, það sem við köllum námsörðugleika (s.s. lesblinda og athyglisbrestur) eða það hvernig við kennum og skólakerfið er uppbyggt.
Maður skyldi ætla að árþúsunda þróun myndi skila einhverju en einhvern veginn hefur okkur tekist að hanna (skóla)kerfi sem kemur þvert á okkar sterkustu hliðar þegar kemur að námi.
Við (eins og önnur dýr) lærum best í leik, þegar við erum slök og líður vel, er ekki ógnað. Þar sem hugur og hönd fá að koma við sögu. Þessir þættir fá helst útrás í listrænum greinum (sem eru af skornum skammti), matreiðslu og íþróttum.
Í íþróttum gilda önnur lögmál
Lögmál frumskógarins. Þar sem sá hæfasti sigrar. Oft reynir á snerpu og samvinnu (sbr. hópíþróttir).
Þessir þættir hafa mikið að segja úti í villtri náttúrunni líka. Samvinna reynir á traust og eykur líkurnar á því að viðkomandi komist af í villtri náttúrunni.
Þar reynir hins vegar minna á þessa þætti í dag, og alls ekki í skólakerfinu. Þessir eiginleikar nýtast aftur betur þegar á vinnumarkaðinn er komið og í atvinnulífi þar sem sambönd og traust skipta aftur máli.
Í námi eru menn upp á sig sjálfa komnir, jafnvel í beinni samkeppni við aðra nemendur um pláss í deildum og heilu skólunum. Fjöldatakmarkanir eru ekki til þess fallnar að auka samvinnu nemenda.
Enda eru þeir ófáir nemendurnir sem hafa gefist upp á námi en blómstrað í rekstri. Sumir lesblindir frumkvöðlar segja að það besta sem þér hafi lært í skóla sé að stóla á aðra, að treysta öðrum.
Þeir máttu einfaldlega til, þeir gátu þetta ekki sjálfir. Þessi eiginleiki kom síðar að góðum notum í rekstri, þessir menn áttu auðveldara með að deila verkefnum en aðrir sem höfðu tilhneygingu til að gera allt sjálfir urðu að lokum stærsta ástæða þess að fyrirtækið stækkaði ekki.
Ofurhetja er fædd
Michael Phelps er fæddur árið 1985 og vann það ótrúlega afrek á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008 að vinna til 8 gullverðlauna. Hefur hann unnið til 22 Ólympíugullverðlauna samtals.
Þegar Michael var ungur glímdi hann við erfiðleika í skóla vegna ofvirkni (ADHD) og var hann settur á Rítalín.
Honum leið ekki vel af því og fékk hann móður sína til að ræða við lækninn og var hann tekin af lyfinu eftir 2 ár.
Hann fékk greininguna í 5. bekk í ljósi þess hve erfitt hann átti með að sitja kyrr í kennslustundum og kennarar hans kvörtuðu undan truflunum í tengslum við það.
Það merkilega er að Michael Phelps er þekktur fyrir einbeitingu sína þegar kemur að sundi. “Mér líður einfaldlega öðruvísi í vatni” segir Michael í viðtali við Sports Illustrated.
Michael er ekki eini afreksíþróttamaðurinn sem telur sig njóta góðs af ADHD þegar kemur að keppnisíþróttum. En áralangt niðurbrot á sjálfsmynd veldur því oft að þessi hópur fetar ranga stigu og lítur alls ekki á sig sem sigurvegara.
Það þarf ekki annað en líta þau hugtök sem við tengjum við þessi einkenni, lestrarörðugleikar, lesblinda og athyglisbrestur.
Skilaboðin sem þau senda eru augljós;
það er eitthvað að þér.