Lykillinn að árangri (og það sem afkastamikið fólk á sameiginlegt)

Lykillinn að árangri (og það sem afkastamikið fólk á sameiginlegt)

Eitt helsta aðalsmerki þeirra sem ná að afkasta miklu og uppskera þannig meira á skemmri tíma er….einbeiting.  Mótsögnin felst samt í því að oft eru þetta einstaklingar sem sýna mörg einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrests!  Það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir geta haldið einbeitingu þegar svo ber undir, sýna stefnufestu  og gefast ekki upp.  Sjáðu hvað þú getur lært af þeim.

concentration_killers_pubhbAð vera duglegur skiptir að sjálfsögðu máli.  En árangurinn veltur ekki bara á því. Margir eru duglegir en vaða úr einu í annað og ljúka aldrei við neitt.  Eiginlegur árangur lætur því bíða eftir sér.  Árangur krefst úthalds, og úthald krefst einbeitingar.

Gildi þess að geta einbeitt sér

Einbeitingin er fyrir athyglina eins og stækkunarglerið fyrir ljósgeislann.  Ef sólarljósið er dreift þá gerir það ekki neitt, en sé því beint í einn punkt með stækkunargleri mætist öll orkan í einum brennipunkti sem umsvifalaust getur kveikt í.

Hvernig þú öðlast meiri einbeitingu

Ólíkt tiltekinni hæfni eða getu þá krefst þetta ekki endilega þrotlausra æfinga.  Alls ekki.  Til að öðlast meiri einbeitingu þarftu oft ekki annað en að útiloka aðra hluti sem skipta minna máli og gera ekkert annað en að orsaka truflun og skapa áreiti.

Hér eru 3 leiðir til að öðlast meiri einbeitingu og skarpari sýn:

  1. Hættu að gera mikið samtímis
    Það dreifir athyglinni gríðarlega og það fer mikill tími í að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Sími, tölvupóstur og fundir taka sinn toll.  Takmarkaðu aðganginn að þér og reyndu að sinna tölvupósti og síma í lotum.  Að sama skapi skaltu reyna að vinna áþekk verkefni í lotum.  Þannig nærðu upp vinnuhraða og “flæði” sem er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að afköstum.
  2. Forgangsraðaðu
    Tímaskortur er ekki til.  Aðeins röng forgangsröðun.  Nærðu ekki að klára verkefni dagsins?  Hvað eyðir þú miklum tíma í að bregðast við áreiti.  Slökkva elda?  Ertu sífellt að bregðast  við erindum annarra í stað þess að vinna í þeim sem skipta þig máli.
  3. Losaðu þig við áreiti og truflanir
    Þetta þýðir að þú þarft að slökkva á símanum, póstforritinu og hætta að skoða fréttasíður, Facebook og Youtube þegar þú átt að vera að gera eitthvað annað.  Þetta afvegaleiðir hugann og þú missir taktinn.  Afþreying á ekkert skylt við afköst.  Notaðu frekar afþreyinguna til að hvíla hugann stundarkorn en gættu þess að sími, tölvupóstur, sms og samstarfsfélagar kalli ekki sífellt á athygli þína.  Heilinn ræður einfaldlega ekki við það.

Hvað gætir þú gert við 3 viðbótarmánuði á ári?

Meðalmaðurinn vinnur aðeins í um 3 klukkustundir á dag, það er sá tími sem hann afkastar einhverju.  Skilur eitthvað eftir sig.  Restin fer í að bregðast við síma og ófyrirsjáanlegum erindum.  Spurðu sjálfa þig í lok dagsins, hvort skiptir meira máli?  Þolir tölvupósturinn virkilega ekki að vera svarað eftir 2 klukkustundir?  Er ekki mögulegt að svara pósti og símtölum kerfisbundið, t.d. einu sinni fyrir hádegi og einu sinni eftir hádegi.  Ímyndaðu þér hvað þú gætir gert við tímann sem losnar!

Aðeins 2 klst á dag sem þú virkilega afkastar einhverju (hvort sem það er á vinnutíma eða utan hans) jafngildir um 40 klukkustundum á mánuði.  Það er heil vinnuvika sem þú getur nýtt í eigin þágu eða annarra!

Á einu ári ertu búin að bæta við 12 vikum eða 3 mánuðum við tíma þinn sem annars hefði farið í að bregðast við málum sem virðast áríðandi (sími og tölvupóstur) en skilja lítið eftir sig.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.