Þú getur gert svo miklu meira

Þú getur gert svo miklu meira

Við setjum okkur okkar eigin takmarkanir.  Lífið kennir okkur. Viðbrögð annarra við frammistöðu okkar og hugmyndum móta okkur.  Við “brennum” okkur.   Þessi takmarkandi hugsun lúrir alltaf undir yfirborðinu og stjórnar því algjörlega hvað það er sem þú tekur þér fyrir hendur, hvað þú treystir þér til að takast á við.  En veistu hvað þú getur?Undirvitundin er góður nemandi.  Hún lærir allt sem fyrir henni er haft, sé það bara gert nógu oft.  Og það þarf oft ekki svo mörg skipti.  Þér nægir að brenna þig einu sinni á kertaloga til að læra þína lexíu.  Nemandi sem fellur í stærðfræði mótast af þeirri reynslu.  “Ég get ekki lært dönsku” segja svo aðrir.

Undirvitundin hugsar ekki rökrétt.  Enda temjum við okkur bæði góða og slæma ávana.  Undirvitundin “pikkar” upp mynstur úr umhverfinu og fyrr en varir erum við farin að endurtaka þessi mynstur hugsunarlaust.

Á eitthvað af þessu við þig?

  • Ferðu oftast sömu leið í skólann eða til vinnu?
  • Borðar þú oftast það sama á morgnana?
  • Klæðir þú þig í fötin í ákveðinni röð?
  • Gengur þú alltaf sömu slóð og gerir sömu hlutina þegar þú mætir til vinnu eða kemur heim?
  • Gengur þú oftast sömu leið í gegnum matvörubúðina?
  • Situr þú oftast á sama stað í kaffistofunni eða matsalnum?
  • Borðar þú oftast sama matinn á jólunum?
  • Setur þú alltaf sömu höndina fyrst inn í ermina þegar þú klæðir þig í yfirhöfn?
Hver stjórnar tónlistinni hér?

Hver stjórnar tónlistinni hér?

Undirvitundin er eins og hljómplata eða geisladiskur.  Þú getur spilað diskinn eins oft og þú vilt, en sama tónlistin mun hljóma.  Hún er innbrennd.

Viltu nýja tónlist?

Viltu breytingar? Hvernig veistu hvað þú getur eða hvers þú ert megnug ef þú keyrir alltaf á sama stýrikerfinu?  Var einhver sem mótaði þig sem barn með því að gera lítið úr skoðunum þínum, áhugamálum eða einhverju sem hafði gildi fyrir þér? Jafnvel góðlátlegt grín getur haft áhrif.  Þegar sagt er við fjörugt barn að það sé “trúður” þá getur það verið eins og að hella olíu á eldinn.  Barnið aðlagar sig að hugmyndum annarra um sig og sækist eftir athyglinni sem það fær fyrir að leika hlutverk trúðsins.

Ef þú vilt breytingar þá er oft betra að einbeita sér að útkomunni, því sem þú vilt uppskera.  Ekki bara gagnrýna því þannig beinir þú athyglinni að því neikvæða og uppskerð meira af því.  Því þú uppskerð eins og þú sáir.  Það sem fær athygli blómstrar.  Beindu athyglinni að því jákvæða og þú sérð meira af því.

En í dag eru þetta þínar hugmyndir.  Þín sjálfsmynd.  Og það er undir þér komið að breyta henni eða sætta þig við hana og lifa með henni.  En hún mun hafa áhrif á allt sem þú gerir og þú munt sjá merki hennar allt í kringum þig.  Útlit,fatasmekkur og lífsstíll eru gott dæmi.  Ertu menntuð eða ómenntuð? Hvers vegna?  Hvað lærðir  þú? Hvers vegna? Við hvað starfar þú? Hvers vegna?  Það er líklegt að innbrenndar hugmyndir hafi haft mikil áhrif á ómeðvitaðar ákvarðanatökur síðar á lífsleiðinni.

Hefur þú einhvern tímann upplifað það að spá í tiltekinn bíl og sjá skyndilega mikið af þeirri bílategund á götunum?  Eða átt von á barni og finnast eins og óvenjumargar konur séu óléttar eða með barnavagna?

Ef þú vilt breytingar hugleiddu þá að skipta um mynstur.  Horfðu í aðra átt.  Önnur hegðun kallar á aðra hugsun.  Önnur hegðun skilar þér annarri útkomu.

Þetta er eina leiðin.  Ef þú vilt breytingar þá þarft þú að breyta einhverju.  Ef þú breytir engu þá breytist ekkert.  Ekki kennarinn, skólinn, yfirmaðurinn eða makinn.  Breytingin liggur innra með þér.  Og það er það góða, því þá hefur þú fullt vald.  Þú þarft ekki lengur að bíða eftir því að aðrir breyti sér.

Þú ert plötusnúðurinn í eigin partíi.  Ef þér líkar ekki tónlistin…skiptu þá um disk.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!