Tungumál – Svona skaltu glósa!

Góðan daginn! Ef þú hefur lært tungumál árum saman, en getur hvorki skilið né talað við innfædda, þá ertu ekki ein(n) um það.  Í þessum pósti reyni ég að varpa ljósi á það hvers vegna við lærum tungumál svo seint og illa…og sýni líka einfalda en öfluga glósutækni þegar kemur að tungumálum.

Enska er gott dæmi – danska jafnvel enn betra.  Flestir tala og skilja ensku betur en dönsku því enskan er allt í kringum okkur.  Það hallar verulega á dönskuna því þar vantar “umhverfisáhrifin” og skólakerfið er nánast eitt um hitunina.

Vandinn

Í dag einblíni ég á glósutæknina.  Í skóla lærum við af bókum.  Hvað tungumál varðar er bókleg kennsla alls ekki sú besta.
Dæmi:

 

NASA

Missa glósurnar marks?

Albert er í ensku.  Hann les texta í enskubókinni sem fjallar um geimferðir NASA.  Í textanum er mikið af sértækum orðum sem varða himingeiminn sem Albert skilur ekkert í og hefur hvorki séð né heyrt áður.  Auk þess eru almenn orð sem þarfnast útskýringa.

Albert merkir við orðin sem hann skilur ekki, flettir þeim upp í orðabók og skrifar samviskusamlega í línustrikuðu glósubókina sína.  Þegar yfir líkur eru 35 orð í glósubókinni sem Albert hefur þýtt frá ensku á íslensku.

Einhverra hluta vegna skilar þetta litlum árangri.   Þetta er erfitt.

Líkleg skýring

Það tekur tíma að byggja upp orðaforða.  Best er að læra merkingu nýrra orða af samhenginu, t.d. þegar við hlustum.  Orðabókarvinna tefur gríðarlega fyrir og eyðleggur flæðið í lestrinum.  Glósuvinnan er tímafrek svo kennslustundin fer öll í það.  En þetta er góð leið til að halda nemendum uppteknum.

Við eigum almennt mjög erfitt með að muna lista.  Við tökum jafnvel minnismiða með út í búð – til að kaupa 3 hluti!
Glósubók nemandans er listi, laaaangur listi.  Hvergi í ferlinu (strika-þýða-glósa) er gert ráð fyrir hvernig skal læra þennan langa lista.   Orðalistinn samanstendur af stikkorðum en ekki samhengi.

Mörg orðanna eru (hér) tækni-orð.  Í kennslubókum eru þau oft sértæk og tengjast sérhæfðu efni kalfans sem verið er að lesa.  Þetta hjálpar lítið.  Nemandinn gleymir þessum orðum strax því þau eru ekki hluti af daglegu máli og endurtekninguna vantar því.

Við sem erum að læra erlent tungumál þurfum mjög mikla endurtekningu, 50-100 sinnum varlega áætlað.  Sá sem glósar les glósurnar sjaldnast aftur.  Það vantar endurtekninguna.  Hvers vegna?  Vegna þess að í skólanum þykir sjálfsagt að byrja á kafla B þegar Kafla A lýkur. Sá kafli fjallar um eitthvað allt annað og þar eru ný (sértæk) orð sem þarf að glósa.  Færibandið gengur áfram en endurtekninguna vantar.

Tillaga að lausn

Breyttu glósuaðferðinni.  Hér er hugmynd:

EKKI GLÓSA EINSTÖK ORÐ!  Glósaðu setningu (frasa).  Láttu orðið sem um ræðir birtast í samhengi sínu.  Þannig manstu það betur.
Dæmi:

Jarðvegur | “Her students tested soil samples representing soil from a site on Mars.”

Hér sérðu orðið sem um ræðir (soil=jarðvegur) í réttu samhengi.  Setningar hafa þann kost að þær eru myndrænar, vegna þess að þær hafa merkingu.  Setningin “Bílinn er rauður” er myndræn.  Við munum myndir betur en hugtök og orð.  Þú getur jafnvel nýtt þér Google orðabókina – hún er ókeypis.  Þú getur jafnvel skrifað niður 2-3 stuttar setningar sem innihalda orðið sem um ræðir.

Það er oft hjálplegt að sjá sama orðið í mismunandi samhengi, mismunandi sjónarhorni.

Ábending:  Teiknaðu litla mynd af setningunni.  Þannig gæti glósubókin haft 3 dálka.  1. dálkur er þýðingin, 2. dálkur er setningin á ensku og 3. dálkur er lítil mynd.

Hvers vegna mynd?  Jú þá örvar þú ímyndunaraflið, þú kryfur setninguna og skapar eitthvað.  Þú örvar hægra heilahvelið og enn betra er að lita myndina.

Þetta er mun, mun betri aðferð en samhengislaus listi.  Nemandi sem “les” glósubókina sína sér ekki fyrir sér orðið í samhengi og getur því ekki notað það í samhengi.  Hann man líklegast ekki listann og skilur því textann lítið betur þegar uppi er staðið.

Betra nám býður upp á öflug og bókarlaus tungumálanámskeið á www.tungumal.betranam.is

Njótið vel!

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!