Þess vegna getur rétt orðalag og framsetning skipt öllu máli fyrir lesblindan nemanda

Þess vegna getur rétt orðalag og framsetning skipt öllu máli fyrir lesblindan nemanda

Sýnt hefur verið fram á að orðaforði lesblindra barna er oft minni en annarra.  Hugtök reynast þeim oft snúin og stafsetning er slök. Þau eiga oft erfitt með að þekkja muninn á „undan“ og „eftir“, þeim getur reynst þrautin þyngri að læra dagana og „hægri/vinstri“ ruglingur er algengur.  Foreldrar furða sig oft á því hve vitlaust barn sitt les litlu orðin í textanum, meðan sum lengri orðanna gengur betur að lesa.

Sjáðu heildarmyndina

Sjáðu heildarmyndina

Til að skilja þetta þurfum við enn og aftur að rifja upp að lesblindir einstaklingar „sjá“ hugsanir sýnar betur en flestir aðrir. Myndræn hugsun er þeim í blóð borin. Þetta gerir það að verkum að þau muna afskaplega vel eftir því sem þau sjá og upplifa, en geta virkað afskaplega gleymin þegar kemur að því að „læra“ eitthvað.

Hér er ástæðan:  Lesblindum gengur mjög vel að skilja og muna eftir því sem er myndrænt. Það getur verið kostur.

Gallinn er hins vegar sá að margir eru beinlínis háðir því fyrirmæli (sögð eða lesin) séu myndræn líka.
Hugtök sem eru ómyndræn geta því valdið vandræðum. Við þurfum að muna, þau bera það ekki með sér líkt og myndræn hugtök. Þau eru m.ö.o. ekki nógu gagnsæ. Ómyndræn orð festast því ver í minni en önnur orð. Dæmi um þetta eru smáorðin, t.d. „hér“, „frammi“ og „vera“.

Þetta getur verið nokkuð áberandi í lestri þannig að smáorðin eru oft lesin vitlaust. Þau sjást ekki. Merkingin liggur í myndinni.

Ef við sjáum ekki orðið fyrir okkur þá skiljum við það ekki. „Hamar“ og „sög“ sjást. „Spanni“ sést ekki (hvað merkir það?). Hugtakið getur verið myndrænt í eðli sínu (t.d. verkfæri), en bara ef þú þekkir það.

Hugtakið er myndlaust í huga þess sem ekki skilur

Afleiðingarnar eru þær að barnið les „var“ sem „er“, „ég“ sem „og“, „í“ sem „á“ o.s.frv.
(Ruglaðist þú við lestur línunnar að ofan?)

Nöfn og heiti hluta og staða í textum reynast þung.  Léttlestrarbækur með nöfnum á borð við „Rúrí“ og „Ómar“ eru lúmskt þungar fyrir þennan hóp.

Hins vegar eiga lesblindir einstaklingar oft auðvelt með að sjá “stóru” myndina.  Að setja hluti í víðara samhengi, að finna lausnir.  Smáatriðin vefjast síður fyrir þeim, enda skipta þau oft minna máli í víðara samhengi.

Hvað eru nokkrar stafsetningarvillur samanborið við meistaralega fléttu í sakamálasögu?  Það er lokatakmarkið sem skiptir mestu máli, útkoman.
Heildarmyndin.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.