Við heyrum oftast um lesblindu og athyglisbrest (dyslexiu og ADD) í neikvæðu samhengi, a.m.k. í tenglslum við nám. En svo þarf alls ekki að vera. Lesblinda getur nýst dásamlega vel í námi. Ástæðan kann að koma þér á óvart.
Í þessu samhengi tala ég bara um lesblindu (dyslexia), nota það sem yfirhugtak. Athyglisbrestur, einbeitingarskortur og hvaðeina má heyra þar undir í tengslum við þennan póst.
Lesblinda lýsir sér ekki síst í fjörugu ímyndunarafli.
- Hugurinn reikar
- Einstaklingurinn er dagdreyminn
- Á erfitt með að fylgjast með
- Skortir e.t.v. áhuga.
Lesblinda beinir athyglinni inn á við. Athyglin er því ekki á umhverfinu heldur hugsunum okkar. Og við munum einkum eftir því sem við tökum eftir. Þess vegna er erfitt að muna það sem fram fór þegar við „dettum út“.
En það góða er að þetta hugarástand (að detta út, stundum nefnt skynvilla í Davis hugmyndafræðinni) getur verið hin mesta blessun.
Gott ímyndunarafl er rót skapandi hugsunar, og með réttum aðferðum og aga getur þetta skipt sköpum. Ímyndunaraflið getur m.ö.o.ráðið því hvort við munum ekki neitt eða allt.
Ef við dettum út á óheppilegum tíma þá situr ekki mikið eftir. Þeir sem eiga erfitt með að muna það sem þeir lesa þekkja þetta. Lesblindir detta einkum út í texta. Fólk með athyglisbrest á það til að detta meira út án þess að það sé bundið við lestur. Athyglisbrestur er því líklegur til að trufla fólk meira í daglegu lífi en lesblinda.
En allt eru þetta bara hugtök sem við gefum einkennunum.
Kosturinn við lesblinduna
Með réttum aðferðum (Þeir sem kunna minnistækni minnistækni geta munað margfalt meira en aðrir) þá má nýta kosti lesblindunnar á þann veg að einstaklingurinn getur margfaldað minnisgetuna. Já margfaldað! Og þá gildir einu hvort nemandinn er lesblindur eða með athyglisbrest.
Sem dæmi má nefna að þá eru nokkrir meistarar í minnistækni (s.s. 8 faldur heimsmeistari Dominic O‘Brien) lesblindir og telja það hinn mesta kost.
Spurningin sem vaknar er því þessi: Er skólakerfið ekki að fara stórkostlega á mis við mikinn mannauð þegar svo gríðarlega stór hópur (lesblindir og einstaklingar með ADD) ná ekki fótfestu í skólakerfinu?
Dominic (margfaldur heimsmeistari í minnistækni) gafst upp á námi 16 ára gamall því hann gat ekki munað spurningu eftir að hafa lesið hana!
Margir krakkar sem ég hef hitt og unnið með hafa átt erfitt með „einfalda“ hluti eins og að læra dagana. Ég er að tala um nemendur sem oft eru í 3.-5. bekk.
Með því að kenna þeim örlítið brot af minnistækni hafa þau undantekningarlítið lært vikudagana í réttri röð á örfáum mínútum. Og alla íslensku forsetana líka. Svona í kaupbæti;)
Hvernig má það vera að eitthvað sem ekki var hægt að kenna á 3-5 árum (oft með þeim afleiðingum að nemandinn telur sig vitlausan), er hægt að kenna á innan við 10 mínútum?
Hvort mistókst nemandanum að læra eitthvað eða skólanum að kenna? Hverjum tókst ætlunarverk sitt? Hvor sigur uppi sem sigurvegar og hvor er tapari? Eru báðir sigurvegarar þegar annar aðilinn fellur (á prófi)? Getur skólakerfið yfirhöfuð fallið á prófinu?
Það er eitthvað bogið við þetta allt saman.
Hvað finnst þér? Sendu línu!
You must be logged in to post a comment.