E.GGTimer – Einfalt ráð til að bæta vinnuhraða og vinnulag ótrúlega

E.GGTimer – Einfalt ráð til að bæta vinnuhraða og vinnulag ótrúlega

Bestu hugmyndirnar eru oft ekki flóknar.  E.ggTimer er ein af þeim.  Þegar þú vilt vinna í lotu og keppa við sjálfa(n) þig þá skaltu hafa þetta í huga:

E.ggTimer

E.ggTimer

Fátt er meira truflandi en að vera sífellt að hugsa um hvað tímanum líður, þegar þú veist mætavel að þú átt að vera að gera eitthvað allt annað.  Ef þú átt barn þá kannast þú líklega við spurningar eins og “hvað er mikið eftir?”, “Fer þetta ekki að vera búið?”.

Ef þú ert sjálf(ur) í námi þá getur verið mjög slítandi og truflandi að velta fyrir sér hvað maður eigi að sitja lengi við í viðbót.  Þú varst búin(n) að ákveða að lesa en ert stöðugt að spá í hvað tímanum líður, hvort þú eigir að halda áfram eða taka pásu.  Þú ímyndar þér jafnvel að þú sért svangur/svöng.   Hugurinn er ótrúlega klókur þegar hann leitar að afsökunum fyrir sjálfan sig.

Við þurfum jú að réttlæta fyrir sjálfum okkur hvers vegna við þurfum pásu.

Gallinn við að taka ótímasetta pásu er að við þurfum að rífa okkur aftur í gang og það getur verið erfitt. Stoppaðu stutt ef þú stoppar!

Nóg um það.  Þú getur aukið afköstin verulega með því að losa þig við þessar hugsanir.  Alvöru skeiðklukka losar þig við þessar vangaveltur.  Þú ferð inn á http://e.ggtimer.com og stillir inn tímann sem þú ætlar að halda þig að verki.

Prófaðu t.d. að stilla tímann á 20-30 mínútur, og settu þér svo markmið að vinna/lesa eins hratt og þú getur þar til hann hringir.  Þú þarft ekki að velta fyrir þér hve lengi þú þarft að sitja við, hvort þú eigir að borða eða ekki.   Hugsanir sem gera ekkert annað en að trufla einbeitingu eiga ekki erindi og þú blakar þeim rólega frá þér ef þær leita á þig.

Og vittu til, tíminn líður og áður en þú veist af ertu jafnvel kominn mun lengra en þú reiknaðir með!

Ég mæli hiklaust með þessari græju.  Ef þú átt barn eða ungling sem á erfitt með að halda út við heimanám, þá skaltu prófa að semja við hann/hana um að vinna hratt í t.d. 10-15 mínútur.  Þegar sú lota er búin, þá getur þú stillt tímann á 5 mínútur og þá getur barnið gert það sem það vill á meðan.

Þannig losnar þú við leiðinda samningaviðræður!

email-footer

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!