Þú þekkir líklega einhvern sem glímir við námsörðugleika. Einhver sem á erfitt með lestur, utanbókarlærdóm, tungumál eða stærðfræði. Sjálfsálit þeirra sem glíma við námsörðugleika er sjaldnast gott enda vísar hugtakið til þess að viðkomandi eigi erfitt með að … læra. En hvernig má það vera að fullkomlega eðlilegt og greint fólk glímir við námsörðugleika? Er maður kannski bara vitlaus?
Hugtakið „námsörðugleikar“ bendir til þess að viðkomandi eigi erfitt með nám. En allir eru sammála um að námsörðugleikar (s.s. lesblinda og athyglisbrestur) hafa ekkert með greind að gera.
Svo ekki er maður vitlaus í þeim skilningi. En hvað er þá að?
Gallar þess að nota þetta hugtak í daglegu tali eru nokkrir.
1. Hugtakið námsörðugleikar hljómar eins og ástand eða dómur
Að glíma við námsörðugleika má ekki gefa nemandanum tilefni til að slaka á og sætta sig við ástandið. Geta okkar er síkvik og við getum bætt okkur í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Námsörðugleikar ættu ekki að breyta áliti einstaklingsins á sjálfum sér og draga úr honum kjark eða það sem verra er, skálkaskjól fyrir uppgjöf.
2. Vandinn liggur hjá nemandanum en ekki kerfinu
Margir upplifa greiningu á námsörðugleikum (lesblindu eða ADD) sem staðfestingu á því að maður sé 2. flokks. Öll hjálp er tvíeggja sverð í þessu samhengi. Þegar einhverjum er hjálpað (t.d. í formi sérkennslu) er ekki laust við að viðkomandi upplifi sig sem vitlausan (nokkuð sem ég fæ oft að heyra).
Nemandinn hugsar með sér eitthvað: “Hvers vegna þarf ég meiri hjálp og fæ meiri tíma en aðrir en fæ samt lægri einkunn?”. Rökrétt.
Nemandinn fyllist sektarkennd og ásakar sjálfan sig fyrir lakan árangur.
Þótt margt hafi breyst til hins betra í skólakerfinu þá er það samt svo að námsvandinn er vandamál nemandans, ekki skólans. Það er nemandinn sem fær greininguna.
Vottorð með nafni og kennitölu sem staðfestir vangetu hans til náms.
Uppörvandi.
3. Vegna þess að aðrir geta eitthvað þá átt þú að geta það líka
Flestum gengur ágætlega í skóla. Sem betur fer.
Líklega hentar skólakerfið ljómandi vel um 80% nemenda. 15-20% glíma við lestrarörðugleika, um 5 % reikniblindu og enn aðrir athyglisbrest og ofvirkni. Þeim hópi gengur sjaldnast vel í námi, með undantekningum þó.
Nemandi sem á erfitt uppdráttar ber sjálfan sig við meirihlutann sem gengur í meðallagi vel og vanmetur sjálfan sig.
4. Skólakerfið er mjög veikleikamiðað
Líklega hentar skólakerfið meðalsterkum nemendum best. Afburðanemendur, sem og þeir sem glíma við námsörðugleika, eiga það sameiginlegt að leiðast meira og fá síður verkefni við hæfi. Það snýst allt um meðaleinkunnir og lágmörk. Refsað er fyrir mistök sem hefur að mínu mati hrikalegar afleiðingar á kjark og dregur úr náttúrulegu sköpunareðli okkar.
- Of auðveld verkefni valda leiða.
- Of erfið verkefni valda kvíða.
Að læra með því að gera sem fæst mistök er óeðlilegt í hæsta máta. Rannsóknir sýna að ástæðan fyrir afburðagetu felst ekki síst í því að gera mistök, læra af þeim og fá tækifæri til að gera aftur.
Nemandi sem á erfitt með málfræði er tungumál á fárra kosta völ og er settur í aukatíma, námsaðstoð eða sérkennslu…í fögum sem hann hefur minnsta getu til og minnstan áhuga á.
Þá skiptir engu máli hvort viðkomandi fög tengist hæfni og getu nemandans til að stunda fagið eða iðngreinina.
Þurfa allir að vera eins?
Eitt helsta markmið skólakerfisins er að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í atvinnulífinu. En væri atvinnulífið ekki betur sett með starfsfólk sem hefur fengið tækifæri til að rækta styrkleika sína í gegnum námið í stað þess að hafa verið velt upp úr veikleikum sínum?
Maður nokkur sagði á fyrirlestri sem fjallaði um athyglisbrest fullorðinna:
“Ég þakka guði fyrir Rítalín, það hefur bjargað lífi mínu. Ég hef starfað á skrifstofu í áratugi og hefði ekki getað það án lyfjanna”.
Fyrirlesarinn (Thom Hartmann) svaraði eitthvað á þessa leið: “Þú hefur áratugum saman verið í vitlausu starfi!”
Kennsluörðugleikar?
Mætti ekki alveg eins kalla þetta „kennsluörðugleika“. Erfiðleikar við að kenna einhverjum eitthvað svo hann skilji? Að það sé áskorun fyrir kerfið og kennarann að vekja áhuga nemandans en ekki öfugt?
Auðvitað ber nemandinn á endanum ábyrgð á eigin námi og ekki hægt að koma þeirri ábyrgð alfarið yfir á kennara, en líklega mætti kennslan vera fjölbreyttari en nú er svo hún höfðaði til fleiri.
Kerfið setur kennaranum skorður líka og góður kennari á fullt í fangi með að halda utan um hóp nemenda sem hefur mismunandi þarfir, áhuga og getu.
Hvað er að meiri sérhæfingu?
Ég vil að lokum taka það fram að þetta (fremur en aðrir pistlar hér) er ekki gagnrýni á kennara, enda þeir jafn misjafnir og þeir eru margir. Tilgangurinn er fremur að skoða kennsluhætti og kerfið eins og það er uppbyggt. Eftir höfðinu dansa jú limirnir.