Manstu bara það sem þú hefur áhuga á?  Sannleikur eða afsökun?

Manstu bara það sem þú hefur áhuga á? Sannleikur eða afsökun?

Við þekkjum þetta öll og ég heyri þetta oft. “Ég man best það sem ég hef áhuga á”. Það kann að vera rétt, en ef þú sættir við þessa skýringu þá muntu fljótlega rekast á veggi og jafnvel gefast upp.  Og ég skal segja þér ástæðuna.

Þér er það eðlislægt að muna betur það sem þú hefur áhuga á en annað. Það er innbyggt í okkur að fylgjast betur með og taka eftir aðstæðum sem hafa áhrif á afkomu okkar.

Þegar þú brenndir þig á kertaloga sem barn þá lærðir þú þína lexíu. Það þurfti hvorki tuð né endurtekningar. Þú lærðir af reynslunni. Líkurnar á því að þú brenndir þig aftur með sama hætti viku síðar voru hverfandi.

Ef hellisbúi borðar eitruð ber þá mun hann læra að þekkja berin svo þetta endurtaki sig ekki. Til eru kenningar sem halda því fram að við sjáum í lit fyrst og fremst til að þekkja betur í sundur matvæli.

Semsagt, það sem hefur áhrif á afkomu okkar eða ógnar öryggi okkar er líklegt til að lærast fljótt og vel.

Það sem tengist áhugamálum þínum virðist festast vel í minni, fyrirhafnarlaust. Sá sem hefur áhuga á fótbolta getur verið gangandi upplýsingabanki um staðreyndir sem engu máli skipta, nema fyrir hann sjálfan að sjálfsögðu.  Sami einstaklingur getur hæglega átt erfitt með að læra hluti sem tengjast námi.

Notalegt!

Notalegt!

Þetta er þægilegt, afskaplega þægilegt meira að segja.  Náttúran undirbýr okkur með þessu móti fyrir ný hlutverk eða aðstæður.  Fólk sem á von á barni finnst óléttum konum fjölga skyndilega. Það er barnavagnar hreinlega út um allt.  Sá sem er í bílahugleiðingum sér tiltekinn bíl mjög víða, mun oftar en áður.

Hvað er eiginlega að gerast?

Með auknum áhuga færist athygli okkar ósjálfrátt að öllu því sem kann að undirbúa okkur betur undir nýtt hlutverk eða breytingar.

Nema í skóla!

Þá þarftu að læra fullt af staðreyndum sem koma þér ekki beint við. Staðreyndir um landafræði, náttúrufræði, félagsfræði og sögu. Hverjum er ekki sama? Nú eru góð ráð dýr. Upplýsingarnar vilja ekki tolla í höfðinu á okkur stundinni lengur. “Ég man ekki það sem ég les!”.

Og þá kemur gullkornið: “Ég man bara það sem ég hef áhuga á!”. En gettu hvað?

Nám er ekki áhugamál!

Nám er vinna. Það er ferli sem tekur langan tíma og því lýkur í raun aldrei. Þú getur hætt í skóla en þú hættir aldrei að læra – vonandi!

Ef þú trúir þessu – og þetta er í sjálfu sér satt – ef þú sættir þig við þessa mítu að þú getir bara munað það sem þú hefur áhuga á, þá er ekki von á góðu. Þetta er fyrirtaks afsökun til að leggja ekki meira á sig. Til hvers að reyna, til hvers að eyða tíma í eitthvað ef þú “manst bara það sem þú hefur áhuga á?”.

Ef til vill er þörf á hugarfarsbreytingu ef þetta er raunin. Það er fullt sem þú getur gert til að muna auðveldlega alls konar hluti og staðreyndir, jafnvel þótt þú hafir engan persónulegan áhuga né not af þeim.

Minnistækni er samansafn aðferða sem gera þér kleift að muna nánast hvað sem er í ótakmörkuðu magni.

Ef þú vilt!

Minnistækni er öflugt verkfæri

Minnistækni er öflugt verkfæri

Minnistækni hjálpar þér að skila betur hvernig hugurinn og minnið starfa svo þú getir gripið inn í og hreinlega lagt upplýsingar á minnið í gríðarlegu magni.
En þú þarft að vilja það. Þú þarft að leggja á þig að læra minnistækni. “Úff, þarf ég virkilega að gera eitthvað til að uppskera? Get ég ekki bara fengið uppskeruna án þess að sá og leggja rækt við hana?”.

Því miður, nei.  En námsörðugleikar eru staðreynd, og margir þeir vinnusömustu og samviskusömustu nemendur sem ég hef hitt glíma einmitt við lestrar- eða námsörðugleika.  Þeir vita að nám er vinna.  Oft betur en þeir sem lítið þurfa að hafa fyrir námi.

Því þú uppskerð eins og þú sáir

Margt smátt gerir eitt stórt. Ef tilhugsunin um að þurfa að leggja þetta á sig samræmist ekki hugmyndum þínum um nám og námsárangur, þá er vissulega þörf á hugarfarsbreytingu.

Þangað til munu engin trix, engin námskeið, engar aðferðir og engar kennsluaðferðir skila neinum árangri. Skyndilausnir höfða mun betur til þessa hóps því þú getur keypt skyndilausnir. En þú kaupir ekki árangur.

Því árangur er uppskera erfiðis. Og það er það góða við þetta allt saman:

Þeir fiska sem róa!

Annað væri ósanngjarnt, er það ekki?

email-footer

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!