Gary Kildall var þrítugur árið 1972, þegar hann sá fyrst nýja kynslóð örgjörva sem átti eftir að bylta tölvuheiminum. Örgjörvinn (Intel 4004) var ódýr í framleiðslu og var minni en þumalfingur manns. Kildall skrifaði fyrsta stýrikerfið fyrir þennan örgjörva og var með pálmann í höndunum. Hann óraði ekki fyrir því hvaða afleiðingar hik og dramb átti eftir að hafa þegar ungur maður að nafni Bill Gates hafði samband við hann og bauðst til að hjálpa til við að þróa stýrikerfi fyrir IBM tölvur.
Kildall var með doktorsgráðu í tölvunarfræðum frá Naval Postgraduate skólanum í Monterey, Kaliforníu og starfaði við kennslu. Einn góðan veðurdag árið 1973 setti hann fyrstu PC tölvuna á skrifborð, á stærð við góða ferðatösku. PC byltingin var hafin!
Afrek Gary Kildall fólst í stýrikerfinu sem hann skrifaði fyrir Intel örgjörvann, sem gerði tölvunni kleift að keyra ýmsan notendahugbúnað. Stýrikerfið var kallað CP/M. Skömmu síðar höfðu hundruð þúsunda eintaka af stýrikerfinu selst og Kildall efnaðist vel og hagnaðist um milljónir dollara.
Árið 1980 var CP/M stýrikerfið í notkun á um 90% PC tölva í Bandaríkjunum, sem á þeim tíma voru um 600.000 talsins. Vinsæll hugbúnaður eins og dBase og WordStar keyrði einungis á tölvum með CP/M stýrikerfinu.
Bill Gates kemur til skjalanna
Bill Gates var 24 ára gamall árið 1979 og þekkti hann Kildall. Bill Gates hafði þá stofnaði lítið tölvufyrirtæki sem hét Microsoft. Þeir voru þó gjörólíkir menn að öllu upplagi. Það átti eftir að koma berlega í ljós árið 1980 þegar tölvurisinn IBM hafði samband við þá vegna leynilegs verkefnis sem þeir kölluðu „Big Blue“, en það var IBM PC tölvan nefnd.
IBM bar höfuð og herðar yfir aðra tölvuframleiðendur á þessum tíma, slíkir voru yfirburðir IBM að helstu keppinautar þeirra voru kallaðir „Dvergarnir 7“. IBM var leiðandi með stórtölvur en stjórnendur þess voru farnir að sjá Apple II tölvur á skrifborðum og óttuðust að missa mikilvægt markaðsforskot sitt til Apple ef ekkert yrði að gert.
Kildall fellur
Nú var ljóst að IBM tölvurnar myndu keyra á nýrri kynslóð Intel örgjörva (8080), og því sneru IBM menn sér til Kildall og gáfu honum nokkra mánuði til að uppfæra stýrikerfið sitt svo það gæti keyrt á nýjum örgjörvum.
Á þessum tíma hafði Kildall yfirburða stöðu á markaðnum og átti Bill Gates milligöngu um að koma á fundi milli IBM og Kildall. Kildall hélt aðilum í gíslingu. Hann brást seint og illa við, taldi tímann allt of knappan og á endanum misstu IBM trúna á samstarfi við Kildall. Eiginkona hans sem stýrði fjármálum fyrirtækisins brást illa við á fundinum og neitaði harðlega að undirrita hvers konar samstarfssamninga við IBM.
Þvermóðska hans og stýfni gerði það að verkum að IBM missti áhugann og Bill Gates sá sér leik á borði. Kildall var á þessum tímapunkti eina fyrirstaða verkefnisins.
Sumarið 1980 er orðið ljóst að Bill Gates og Microsoft fái það verkefni að útvega IBM stýrikerfið fyrir nýja Intel 8080 örgjörvann.
Bill Gates var hvatvís, ungur og klókur í viðskiptum. Hann samdi við IBM án þess að hafa nokkuð í höndunum. Hann lofaði IBM stýrikerfi sem yrði tilbúið í október, einungis nokkrum mánuðum síðar.
Hik Kildall setur af stað óvænta atburðarás
Sú ákvörðun Kildall að samþykkja ekki útgáfudag fyrir nýtt stýrikerfi kom óorði á fyrirtæki hans og hugbúnaðargeirinn missti ákveðna tiltrú á framtíð stýrikerfisins CP/M. Tölvuframleiðendur sem stefndu á að hafa nýja örgjörvann í tölvum sínum þurftu einnig nýtt stýrikerfi, ekki bara IBM.
Óvænt og ódýr skyndilausn kemur af stað byltingu
Ekki langt frá sat forritari og vann hann að ómerkilegri, tímabundinni lausn sem átti eftir að hafa ótrúlegar afleiðingar. Hann skrifaði stýrikerfi, svipað CP/M sem gerði hugbúnaði sem hafði verið skrifaður fyrir CP/M að keyra á nýju 8080 tölvunum.
Q-DOS: Quick and Dirty Operating System
Stýrikerfið var kallað Q-DOS og stóð fyrir „Quick and Dirty Operating System“. Þegar Bill Gates og Paul Allen fyrrum skólafélagi hans og meðeigandi Microsoft heyrðu af þessari lausn sáu þeir sæng sína útbreidda og keyptu lausnina hið snarasta. Þannig næðu þeir að standa við samþykktan skiladag gagnvart IBM.
25000 dollarar verða að milljörðum
Microsoft greiddi einungis um 25000 dollara fyrir stýrkerfið, lauslega reiknað um 2.5 milljónir íslenskra króna.
MS-DOS verður til
Eftir nokkurra mánaða þrotlausa vinnu við endurbætur var stýrikerfinu gefið nýtt nafn, MS-DOS (Disk Operating System).
Bill Gates sagði síðar að Microsoft hefði aldrei tekist að skrifa stýrikerfi frá grunni og afhenda IBM á svo stuttum tíma sem hann hafði lofað.
Meingallað stýrikerfi frá fæðingu
Þegar sérfræðingar IBM fengu stýrikerfið í hendurnar var það umsvifalaust sett í prófanir og til að gera langa sögu stutta féll það með glæsibrag á öllum prófum. IBM-menn áttu ekki orð til að lýsa undrun sinni á því hve gallað stýrikerfið í raun var. Á endanum þurfti IBM nánast að endurskrifa stýrikerfið frá grunni en Microsoft hafði staðið við sinn hluta samningsins og átti stýrikerfið.
Framhaldið þekkja flestir, Microsoft gerði Bill Gates að milljarðamæringi á örfáum árum en fyrirtæki Kildall (Digital Research) fór í lóðrétt í þrot. Hann náði þó síðar að selja það og komst líklega ágætlega frá þessu enda hafði hann efnast vel persónulega.
Af þessari stuttu frásögn má glöggt sjá hvernig dramb of ofmat Kildall á sjálfum sér leiddi hann og fyrirtæki hans í ógöngur. Hinn ungi Bill Gates var hins vegar hvatvís og kaldrifjaður að mörgu leyti. En samspil margra þátta gerði það að verkum að Microsoft komst í þá lykilaðstöðu sem átti eftir að leggja grunninn að veldi þeirra.
En Microsoft hefur e.t.v. ekki lært mikið og enn í dag, rúmum 30 árum síðar hefur Microsoft ekki getað gefið út nýtt stýrikerfi án þess að því fylgi tugir og jafnvel hundruð þúsunda forritunarvillna.
Bill Gates lagði af stað í þennan leiðangur án þess að vita nákvæmlega hvert það leiddi hann, en það kom ekki að sök. Að hika er að tapa. Hann vissi í hvaða stefnu hann átti að fara þótt hann vissi ekki nákvæmlega hvernig hann kæmist á leiðarenda. Ljósin eru aldrei öll græn.
Dramb er falli næst
Kaldhæðni örlaganna er sú að allir lögðust á eitt við að hjálpa Kildall, honum var boðinn samningur á silfurfati. Yfirkeyrt sjálfstraust hans olli því að hann taldi sig með ósigrandi stöðu á markaðnum. Gary Kildall lést árið 1994 í einkennilegu slysi þegar hann féll á reiðhjóli. Orsök slyssins var aldrei að fullu ljós en Kildall hafði glímt við áfengisvandamál síðustu ár sín.