Getur barnið þitt ekki lært dagana?

Margir foreldrar hafa klórað sér í höfðinu og furðað sig á því hvers vegna barnið lærir ekki heiti og röð daganna.  Í þessum pósti reyni ég að varpa ljósi á líklegars ástæður og úrræði sem gefist hefur vel, reyndar ótrúlega vel.

Vandinn

Minni okkar er stundum stórfurðulegt!  Við lærum oft hluti sem okkur finnst engu máli skipta en getum svo ekki lært/munað annað þótt mikið liggi við.  Mörg börn eiga afar erfitt með að læra dagana, í það  minnsta röð þeirra, og hef ég bæði hitt og heyrt af börnum sem ekki kunna dagana komin á táningsaldur.

Oftast er um að ræða börn/unglinga sem eru lesblind eða með athyglisbrest (ADD).  Krakkar (og fólk) með athyglisbrest á erfitt með að halda einbeitingu nema stutta stund í einu.  Að vísu geta þau sökkt sér niður í eitthvað langtímum saman en það er þá oftast eitthvað verklegt eða skapandi, þ.e. þau geta dvalið í eigin hugarheimi t.d. við leik.

Líkleg skýring

En þegar kemur að því að fylgjast með, t.d. kennara eða fylgja fyrirmælum, þá vandast málið oft.  Af þessu leiðir að barnið á erfitt með að halda athygli nógu lengi til að fylgja eftir fyrirmælum og læra raðir.

Það þarf samfellda athygli til að læra raðir.  Með röðum er átt við:

  • Að læra daga og mánuði
  • Að fylgja fyrirmælum
  • Að læra stafrófið
  • Að læra að reima
  • Að læra margföldunartöfluna
  • Að læra vísur og texta

Erfið orð

Eins og þetta sé ekki nóg, þá getur annað vandamál spilað inn í.  Hugtök (orð) sem barnið sér ekki fyrir sér (eru ómyndræn), getur barnið átt erfitt með að skilja.  Merkingin er í myndinni.  Barnið skilur og man eftir orðum eins og “epli” og “appelsína” því þau eru myndræn.  Þetta á í raun við okkur öll – okkur reynist mun auðveldara að muna myndræn hugtök en ómyndræn (ártöl, nöfn) því það er auðveldara að setja þau í samhengi.

Af þessu leiðir að nöfn daganna gera lærdóminn enn erfiðari.  Hvernig lítur þriðjudagur út?  Hann hefur ekki útlit er það?

Tillaga að lausn

Við leysum þetta í tveimur þáttum:

  1. Finnum myndræn orð sem líkjast dagaheitunum nógum mikið svo barnið skilji hvað átt er við
  2. Spinnum sögu utan um orðin til að muna röð þeirra

Dæmi – Minnisorð:

Máni: Mánudagur
Þríhjól: Þriðjudagur
Miði: Miðvikudagur
Fimm: Fimmtudagur
Fötur: Föstudagur
Lauf: Laugardagur
Sund: Sunnudagur

Ath. Að sjálfsögðu getur þú búið til þín eigin orð.  Gættu þess bara að barnið þitt geti sér rétt til um hvaða  dag þú ert að meina þegar þú nefnir “Minnisorðið”.  Lykilatrið er að minnisorðið sé myndrænt.

Sagan:

“Einu sinni var máni á þríhjóli að dreifa miðum.  Hann tók fimm fötur af laufi og setti í sundlaugina“.

Það þarf ekki meira!  Ekkert nóbelsverk kannski en dugar.
Hér er mikilvægt að barnið sjái fyrir sér söguna og læri hana eins og kvikmynd.  Sagan verður sjálfkrafa kjánaleg og eftirminnilegri fyrir vikið.   Stundum er gott að láta þau loka augunum og ímynda sér söguna meðan hún er sögð.

Láttu svo barnið endurtaka söguna strax og impraðu á henni 1-2 sinnum á dag næstu dagana.  Árangurinn gæti komið þægilega á óvart;)

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!