Allt hefur afleiðingar.  Og hugsanir þínar eru ekki undanskildar!

Allt hefur afleiðingar. Og hugsanir þínar eru ekki undanskildar!

Fellur þú stundum í þá gryfju að kenna öðru(m) um ófarir þínar?  Það er vissulega þægilegt, en oft vitum við innst inni að við berum meiri ábyrgð á stöðunni en við kærum okkur um að vita. Lestu þetta – ef þú þorir!Við erum skrýtnar verur.  Við höfum tilhneigingu til að færa rök (lesist: afsakanir) fyrir öllu því misjafna sem fyrir okkur kemur.  Hugsanaferlið gæti litið svona út:

1. Við tökum ákvörðun byggða á tilfinningu (leiði, reiði, ótti osfrv).

2. Við færum rök fyrir því sem “gerðist”.

Taktu eftir að það sem “gerðist” var bein afleiðing af ákvörðun okkar (nr. 1).  Við höfum alltaf útskýringar á öllu.  Hefur þú heyrt íþróttamann eða þjálfara útskýra með rökum eftir leik hvers vegna lið hans tapaði eða vann?  Hefur þú heyrt einhvern sem hætti í námi færa “rök” fyrir því hvers vegna hann hætti?  Hefur þú heyrt einhvern réttlæta hvers vegna hann keypti nýjasta snjallsímann á frábæru verði?

Þú hefur heyrt frasann “Þú ert það sem þú borðar”.  Tilfellið að þú borðar það sem þú hugsar. Eða þannig.  Þú borðar það sem þig langar í.  Orsakasambandið er þar fremur ljóst.  Þú ert ekki það sem þú borðar, heldur það sem þú hugsar.  Því á bak við hverja ákvörðun sem við tökum er hugsun.  Þú getur talað við sjálfa þig, rökrætt við sjálfa þig.  Þú getur jafnvel orðið reið út í sjálfa þig og orðið fyrir vonbrigðum.  En á endanum kemst hugurinn að niðurstöðu, samviskan og löngunin komast að niðurstöðu.

Orsakasamband

Orsakasamband

Tilfellið er að oftar en ekki er útkoman (afleiðingarnar) fyrirsjáanleg.  Nemandi sem sýnir námi lítinn áhuga og sinnir því illa stefnir í vandræði. Leynt og ljóst.  En hann er ekki vís til að viðurkenna það strax.  Þegar líður á önnina  versnar e.t.v. mætingin hjá honum, því hann er jú hættur að skilja um hvað er fjallað í tímum.  Síðasta skrefið er svo að segja sig úr náminu eða áfanganum.

Síðar er ekki ólíklegt að heyra nemandann færa rök fyrir því hvers vegna hann hætti.  E.t.v. var námið ekki fyrir hann, skólinn var svona og kennararnir einhvern veginn.  Allt hafði áhrif…nema hann sjálfur.

Nám er vinna.  Ef þú átt erfitt með nám þá máttu reikna með því að þurfa að leggja meira á þig.  Ekki minna á þig. Heldur meira á þig.  Það er fátt verra en að sjá fína krakka gefast upp, oft vegna lesblindu eða annarra þátta, án þess að hafa lagt eins mikið á sig og þeir gátu.

Ég veit mætavel að lesbinda, athyglisbrestur og reikniblinda hafa ekki góð áhrif á námsárangur, þvert á móti.

En hvernig veistu hvað þú getur fyrr en þú reynir?

Mæting og heimanám eru grundvallaratriði í námi.  Sá sem mætir illa eða sinnir ekki lærdómi á ekki von á góðu.  Og þá skiptir engu hvort viðkomandi er lesblindur eða ekki.  Aðstoð og skilningur og réttar námsaðferðir geta sannarlega skipt miklu, en hugarfarið skiptir öllu.  (Því miður er stór hópur nemenda sem fellur úr námi og hefur sannarlega reynt.  Skólakerfið hentar ekki öllum jafnvel því miður.)

Það sést best á því að fjöldi nemenda sem ekki glímir við neina sérstaka námsörðugleika baslar í námi.  Á sama tíma gengur stórum hópi lesblindra krakka ljómandi vel.  Þau eru upp til hópa dugleg og vön því að leggja hart að sér.

Munurinn á útkomu þessara hópa liggur ekki í námsgetu þeirra, heldur hugarfari.

James Allen, höfundur klassísku bókarinnar “Þú ert það sem þú hugsar” orðaði þetta þannig (lauslega þýtt):

“Þú ert í dag á þeim stað sem hugarfar þitt hefur leitt þig; þú verður á morgun á þeim stað sem hugarfar þitt leiðir þig.”

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!