Vofan í skólakerfinu

Vofan í skólakerfinu

Þessi skoðun kann að falla í grýttan jarðveg hjá sumum.  Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna þetta tiltekna fag er kennt af svo miklum ákafa að það er eins og rauður þráður í gegnum skólagöngu flestra.  Endar svo oft á því að vera fyrirstaða hjá mörgum, þrátt fyrir að þeir hafi árum saman skilað sínu í þessu fagi.  Hvaða fag er þetta?

Ekki stærðfræði, hún er grunnur að ótal faggreinum og fyrir hana eru not alla leið.  Það er sjaldan hægt að læra of mikið í stærðfræði eða að verða of góður.

Fagið sem ég á við er íslenska.

Með fullri virðingu fyrir íslensku sem móðurmáli.

Þessi ofuráhersla á málfræði er mér algjörlega óskiljanleg.  Orðflokkagreiningar eru komnar á námsskrá í yngri bekkjum grunnskóla.  Orðflokkagreiningar halda svo  áfram sem hluti af námsskrá og þ.a.l. verkefnum upp alla efri bekkina.  Í framhaldsskóla heldur málfræðikennslan svo áfram.

Ótrúlegum tíma, fjármunum og orku er eytt í upprifjanir, próf og kennslu.  Er ekki nóg að kunna skil á þeim og ná prófi þar að lútandi?  Þarf lesblindur nemandi sem hyggur á verknám (t.d. pípulagnir eða trésmíði) að taka 2-3 áfanga í íslensku þar sem hann er hundeltur af þessu fyrirbæri.

Mörgum þykir vofan Casper er vinalegri en málfræði

Mörgum þykir vofan Casper er vinalegri en málfræði

Ég upplifi málfræðikennslu og þá áherslu sem hún fær í skólakerfinu svolítið eins og vofu.  Hún er einhvern veginn alls staðar.  En samt hvergi.  Hún hjálpar mér ekki beinlínis í neinu.

„Jú, til að læra erlend tungumál er nauðsynlegt að kunna góð skil á eigin tungumáli“, segja sumir.

Það er skiljanlegt.  Því erlend tungumál eru kennd með þeirri arfavitlausu aðferð að byrja á málfræði, svo er farið í lesturinn og síðast er talað.  En fæstir ná því.  Ég þekki engan sem hefur lært að tala erlent tungumál eingöngu með því að vera í skóla. En látum það vera hér.

Ég er ekki að segja að það eigi ekki að kenna málfræði. Eða orðflokkagreiningar.  Það er þessi ofuráhersla og endalausi tími sem hún fær.  Flestir sem hafa reynt vita að árangurinn er lítill sem enginn þegar uppi er staðið.  Hver man og skilur hvað „andlag“ er, nema rétt á meðan kennslunni stendur?

Til gamans fylgir skilgreiningin hér:

„Andlag er setningarliður, oftast nafnliður, sem stendur með áhrifssögn og hún stýrir falli þess“.

(heimild http://vefir.mh.is/gudlaugg/setnvefur/andlag.html)

Á meðan er skorið niður í sérkennslu, skapandi greinar eiga undir högg að sækja og kennarar þurfa ítrekað að beita verkfallsrétti til að leiðrétta laun sín.  Ég býst fastlega við því að íslenskukennarar séu flestir á móti þessari skoðun. En gagnrýninni er ekki beint að þeim, heldur þessari ákvörðun kerfisins að nota fjármunina og tímann ekki í annað.  Það rúmast margt áhugavert innan íslenskunnar sem kæmi í betri þarfir en eiginleg málfræði.

Það er klárt að málfræðikennsla bætir ekki málfar okkar.  Þriggja ára barn notar eintölu og fleirtölu, nútíð og þátíð, jafnvel andlag.  Það veit bara ekki hvaða nöfnum þetta nefnist.

Construction Worker Building Timber Frame In New HomeLíklega er spurningin þessi, hvenær er komið nóg af tilteknu fagi?  Hvers vegna má ekki skilja innstu kima málfræðinnar eftir sem valfög fyrir þá sem hafa áhuga og stefna á  framhaldsnám í tengdum fræðum (s.s. íslensku og/eða kennslu)?

Og leyfa þeim sem stefna annað að gera það.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!