Flestir sem glíma við lestrar- eða námsörðugleika (s.s. vegna lesblindu og athyglisbrests) eiga eitt sameiginlegt. Þeir fengu ríflegan skammt af ímyndunarafli í vöggugjöf. Getur þú leyst þessa þraut?
Getur þú dregið 4 beinar línur svo þær fari í gegnum alla punktana, án þess að lyfta blýantinum?
(Lausnina er að finna hér neðar – en ekki kíkja, reyndu fyrst).
Þegar þú stendur frammi fyrir vandamáli getur reynst nauðsynlegt að hugsa út fyrir rammann. Að láta ekki staðalhugmyndir og ranghugmyndir um eigið ágæti draga úr sér kjarkinn. Að stjórnast ekki af ótta.
Ótta við að gera mistök, ótta við álit annarra.
Eina leiðin til að gera ekki mistök er að gera ekki neitt
En ekki skilar sú hugmyndafræði okkur áfram? Hugmyndafræðin að baki Davis lesblindunámskeiðunum byggir m.a. á þeirri hugsun að ríkulegt ímyndunarafl geti orsakað námsörðugleika. Slíkir einstaklingar þrífast oft illa í skólakerfinu, eru annars hugar og reika um í eigin humarheimi fremur en að fylgjast með því sem fram fer í skólastofunni.
Ekki vegna þess að þeir vilja það ekki, það viðheldur bara ekki áhuga þeirra. Einrænt tal og einhliða samskipti (kennari talar, nemendur þegja) eiga afskaplega illa við þennan hóp.
En styrkur þeirra liggur fremur í þeim greinum þar sem hugmyndaflugið fær að njóta sín. Myndmennt, handmennt og aðrar skapandi greinar eins og smíði og matreiðsla eiga betur upp á pallborðið.
Þegar fram í sækir nýtast þessir styrkleikar í skapandi greinum, við hönnun og jafnvel í viðskiptum. Hvar værum við ef Thomas Edison hefði hlustað á gagnrýnisraddir og gefist upp á þróun ljósaperunnar. Hver hefði ekki gefið upp eftir 10.000 misheppnaðar tilraunir. Edison vildi ekki meina að tilraunirnar hefðu misheppnast, þær sýndu bara fram á hvernig ætti ekki að gera. Við svo búið hélt hann áfram.
Hvar værum við ef Wright bræður hefðu gefist upp á flugvélasmíðinni, allir sögðu að þeir væru klikkaðir. Ef allir segja eitthvað þá hlýtur það að vera rétt. Ef allir gera eitthvað þá hlýtur það að vera rétt líka. Við leitum ósjálfrátt samþykkis annarra með því að lesa í hóphegðun. Enginn vill vera útundan – það þarf kjark til að fara sínar eigin leiðir þótt það líti vel út á pappírunum.
Enginn vill raunverulega breytingar, breytingar ógna okkur. Það verður allt vitlaust í fyrirtæki ef það á að innleiða nýtt tölvukerfi. Fólk gæti þurft að læra eitthvað nýtt. Ef stimpilklukka er sett upp á verksmiðjugólfi þá kvarta menn yfir frelsisskerðingu. Ef stimpilklukku er skipt út fyrir farsímaforrit þá dæsa menn líka. Nýir siðir eiga oft erfitt uppdráttar. Áramótaheitin sem fela í sér ósk um breytingar og betri heilsu eru oft ansi skammlíf.
Breytingar eru erfiðar því þá duga gömlu vanarnir ekki lengur og við þurfum aftur að hugsa.
Ávanar gera okkur nefnilega kleift að hugsa lítið!
En aftur að þrautinni – gastu leyst hana? Hugsaðir þú út fyrir rammann? Takmörkuðust hugsanir þínar við útlínur punktanna? Hvers vegna? Gafstu þér e.t.v. að lausnina væri að finna innan rammans en ekki utan hans?
Síðast en ekki síst: Gafstu nokkuð upp og kíktir?
Hvað finnst þér? Sendu línu!
You must be logged in to post a comment.