Fyrir nokkrum misserum fór ég ásamt samkennara mínum til London að kynna okkur kennsluaðferðir í stærðfræði sem kallast Numicon. Þar er börnum frá 4 ára aldri kennd grunnatriði í faginu með hlutbundnum aðferðum, þar sem tölurnar eru gerðar „raunverulegar“.
Kubbar, talnabrautir, form og púsl eru meðal þeirra „verkfæra“ sem notuð eru. Börnin tengja þannig saman með sjónrænum hætti viðfangsefni stærðfræðinnar. Allt þetta er gert til að efla grunnskilning og að nemendur fái jákvæðar forhugmyndir um fagið.
Síðan er haldið áfram með þetta næstu árin og byggt ofan á þann grunn sem fékkst i upphafi. Talið er að yfir 4.000 skólar í Bretlandi notist við aðferðafræðina í kennslunni. Hér á landi hafa sífellt fleiri grunnskólar unnið með Numicon.
“Til hvers að læra stærðfræði?”
Hversu oft heyrum við sem foreldrar börnin okkar spyrja þessarar spurningar?
Hvort sem hér er um að ræða stærðfræði, náttúrufræði, eðlisfræði eða hvaða aðra námsgrein sem er, þarf nemandinn alltaf að sjá fyrir sér tilganginn í því sem verið er að læra.
Það þarf því að kveikja áhuga með fjölbreyttum aðferðum og byggja framhaldið á því. Neikvæðar forhugmyndir nemenda er ein helsta ástæða námserfiðleika síðar á skólagöngunni og þegar að þannig háttar getur verið nokkurn veginn sama hvað kennarinn og foreldrar reyna; það reynist nær vonlaust.
Setjum námsefnið í samhengi
Einhvers staðar á skólagöngunni lendir nemandinn í erfiðleikum ef ekki hefur tekist að byggja upp sterkan grunn og fá hann til að skilja tilganginn með námsgreininni.
“Hvernig nota ég þetta í mínu daglega lífi?” er spurning sem verður að vera hægt að svara á sannfærandi hátt. Það að setja viðfangsefnið upp á myndrænan hátt eykur líkurnar á því að nemandinn nái samhenginu. Numicon aðferðin byggir einmitt á því.
Skýring sem oft hefur dugað mjög vel við spurningum um hvers vegna tölum og bókstöfum er blandað saman í algebru er að sjá fyrir sér t.d. x sem epli og y sem appelsínu. 3x + 2y getur því talist sem 3 epli og 2 appelsínur.
Epli og appelsínur er ekki sami ávöxturinn og því er ekki nóg að segja að þetta séu bara 5 ávextir. Við viljum vita hvað er mikið af hvorri tegund og því er ekki hægt að taka saman ólíka liði frekar en að blanda saman epli og appelsinum.
Styrkjum grunninn í stærðfræðinni!
Skólagangan er gríðarlega stór hluti af þroska- og lærdómsferli nemandans. Það skiptir því öllu máli að börnum og unglingum líði vel í skólanum.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil vitundarvakning í skólum landsins um mikilvægi fjölbreyttra kennsluhátta og að setja námsefnið fram á skiljanlegan hátt. Myndræn framsetning gegnir þar mikilvægu hlutverki.
Því miður er staðreyndin sú að talsverður hluti nemenda lendir í námserfiðleikum einhvern tímann á skólagöngunni.
Þetta sýna opinberar tölur svo ekki verður um villst og margir þurfa sérkennslu.
Lykilatriði er að við fylgjumst vel með nemandanum í gegnum hvert skref og þar er hlutverk foreldra ekki síður mikilvægt en kennara.
Munum að allur árangur í námi byggist á að vinna jafnt og þétt yfir veturinn í öllum námsgreinum og takast á við námið með opnum huga og jákvæðni.
Gleðilegt sumar J
Halldór Þorsteinsson er stærðfræðikennari og annar höfunda Almenn brot-Fjarnámskeið