Er skapandi hugsun einhvers virði? Hvar?

Er skapandi hugsun einhvers virði? Hvar?

Flestir vita af eigin raun að sjónminni er sterkara en hljóðminni.  Flestir muna betur eftir andliti en nafni.  Þetta er almenna reglan.  En til er hópur en svo sjónrænn, að flest annað – sem ekki er sjónrænt – verður mjög erfitt viðureignar.  Þessi hópur fékk ríkulegt ímyndunarafl í vöggugjöf.  Svo mikið að flestum þykir nóg um. Köllum þetta lesblindu.Þetta kann að vera einföldun, en einfaldir hlutir er jafnan bestir.  Þeir eru til sem muna betur eftir hljóðum en myndum.  Hjá öðrum er verkminni sterkast.  En höldum okkur við almennu regluna sem segir að rúm 60% séu með yfirgnæfandi sjónminni.

Einstaklingur með ríkulegt ímyndunarafl blómstrar jafnan í verklegum, skapandi greinum.  Sjónminnið nýtur sýn vel í smíði, teikningu, legó, tölvuleikjaspil og almennt við leik og störf.  Ímyndunaraflið gerir þeim kleift að leysa verkefni með svo frumlegum hætti að manni hefði aldrei dottið það í hug sjálfum.

Hægra heilahvelið er “ábyrgt” fyrir skapandi hugsun, að greina form, liti og jafnvel andlit.  Að leysa vandamál og finna lausnir.  Að sjá heildarmyndina.  Draumar og dagdraumar eiga þar heima.

Vinstra heilahvelið er línulegra, þar fer fram meiri rökhugsun.  Hvað er rétt og hvað er rangt?  Raðir (1,2,3 og a,b,c) eru erfiðar sem og forgangur (hvað á að gera fyrst?).

Það er stundum sagt að lesblindir séu “hægra heilahvels fólk” í “vinstra heilahvels heimi”.  Þetta útskýrir að hluta erfiðleika lesblindra nemenda við að læra dagana, mánuðina, margföldunartöfluna o.s.frv.

Draumóramenn hafa aldrei átt auðvelt uppdráttar og þrátt fyrir marga kosti skólakerfisins verður að segjast eins og er að skapandi greinar (hægra heilahvelið) mega sín lítils gagnvart vinstra heilahvels greinum, s.s. stærðfræði, stafsetningu og ritun, að bíða í röð, fylgjast með og hlusta osfrv.

Barnshugurinn reikar auðveldlega við þessar aðstæður.  Ef hann reikar of mikið (hvað er of mikið?) þá getum við kallað það athyglisbrest.  Ef barninu leiðist gríðarlega (því það skilur ekki hvað er um að vera í kringum sig og skilur e.t.v. ekki óskrifuðu samskiptareglurnar) getur það truflað aðra og orðið órólegt.

Námsörðugleikar?

KvíðahnúturÞað er augljóst að skólaganga þessara einstaklinga getur orðið þyrnum stráð.  Í skóla er best að geta setið kyrr, hlustað og fylgst með.  Í skóla er best að herma, því þannig lærum við flest þegar öllu er á botnin hvolft.  Þetta er ekki skrifað sem gagnrýni á skólakerfið, heldur sem tilraun til að varpa ljósi á  þróun námsörðugleika hjá einstaklingum.  Kerfið sjálft er stærra en einstaklingarnir sem bera það uppi.  Hinn almenni kennari gerir sitt besta til að miðla sinni þekkingu og hugsar vel um sína nemendur, það er víst.  Uppbygging kerfisins er ekki á ábyrgð kennaranna sjálfra.  Líklega væri kerfið mun betra ef kennarar hefðu meira um það að segja hvað er kennt og hvernig er kennt.  En það er önnur saga.

Í skóla er lítið rými fyrir skapandi hugsun.  Við fáum sjaldnast einkunn fyrir að fara okkar eigin leiðir og sýna hvatvísi.  Enda hafa margir skapandi snillingar vikið snemma úr námi, gefist upp eða verið vísað frá.  Einn merkasti uppfinningamaður allra tíma, Thomas Edison, átti ekki glæsilegan námsferil að bak.  Albert Einstein, Steve Jobs (Apple) og svo mætti lengi telja.

Orðið “námsörðugleikar” eru ekki gott orð, það er eitthvað vont við það.  Það bendir til þess að maður geti ekki lært, sé hreinlega vitlaus.  Flestir sem glíma við “námsörðugleika” eru hins vegar bráðgreindir (sbr. ofangreinda menn).  Margar rannsóknir hafa meira að segja sýnt að þeir sem greinast með lesblindu og/eða athyglisbrest séu yfir meðalgreind.

Á efri skólastigum nýtast þessir skapandi eiginleikar jafnan mun betur.  Sjálfstæð og frumleg hugsun, öðruvísi sjónarhorn.  Að koma með eitthvað nýtt að borðinu.  Slíku husun er mikils virði fyrir öll fyrirtæki og samfélög.  Stöðnun viljum við ekki.

Mistök

Umheimurinn sagði Wright bræðrum að þeir væru snarvitlausir.  Það væri ekki hægt að fljúga.  Aðeins fuglar gætu flogið. Enginn hafði flogið áður, hvers vegna ætti þeim að takast það?  Hver er svo vitlaus að smíða ljósaperu þegar engum hefur tekist það áður, og líklega ekki reynt?  Menn voru taldir kolvitlausir að halda að hægt væri að senda tal þráðlaust um loftið milli loftneta.  Í hugum manna kom ekkert til greina annað en að nota vír til að flytja hljóðið.

Hvar værum við í dag ef þessir “vitlausu” menn hefðu ekki staðið á sínu og neitað að hlusta á “ráðleggingar” umheimsins?  Margir máttu þola háðsglósur og jafnvel útskúfun.  Jafnvel Henry Ford mátti þola slíka framkomu fjölmiðla á sínum tíma.

Galli skólakerfisins liggur að vissu leyti í því að þar læra stórir hópar sömu hlutina og beita til þess sömu aðferðum.  Sérfræðingar framtíðarinnar eru því eins að þessu leyti.  Skólakerfið kennir okkur að mistök eru dýr og röng.  Okkur er refsað fyrir mistök.  Við lærum það snemma á skólagöngunni að mistök eru illa séð.

“Mistök er einfaldlega tækifæri til að byrja aftur, bara með öðrum hætti” – Henry Ford

Mistök frá sjónarhóli skólans er að gera hlutina öðruvísi.  Að gera hlutina rétt er að gera hlutina eins.  Eins og kennarinn.  Eins og allir hinir.

Það er aðeins ein leið til að gera engin mistök – og það er að gera ekki neitt.  Allt er staðlað, vinnubrögð, aðferðafræði og hugsun.  Ferkantað.

Þá er markmiðinu náð, eða hvað?

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!