3 staðnaðar hugmyndir um nám sem þú þarft að endurskoða

3 staðnaðar hugmyndir um nám sem þú þarft að endurskoða

Mörgum þykir staðarkennsla (t.d. í kennslustofu) mun betri og líklegri til að skila árangri en fjarnám eða sjálfsnám.  En er það svo einfalt?  Notar þú e.t.v. gamlar hugmyndir um nám sem skálkaskjól?  Skoðaðu 3 staðnaðar hugmyndir sem þú þarft e.t.v. að endurskoða. 

Ófáir hafa skráð sig í fjarnám aðeins til að gefast upp nokkrum vikum síðar.  Raunin er þá oft sú að nemandinn hefur lítið sem ekkert gert og hefur dregist verulega aftur úr.

Þá er oft betra að segja sig úr náminu…og hvað er þá betra en að skella skuldinni á kennsluformið (fjarnámið) fremur en sjálfa sig!

Lítum á nokkra punkta sem benda til þess að við beitum okkur oft sjálfsblekkingum þegar kemur að því að velja staðarnám fram yfir sjálfsnám.

1. Þú þarft kennara

Það kemur vissulega fátt í staðinn fyrir góðan kennara.  En gættu þess að koma ábyrgðinni ekki yfir á kennarann, því ábyrgðin hvílir á þér, nemandanum.  Ótrúlega margar kennslustundir fara í það að láta heilu bekkina skrifa niður texta beint af töflu eða af glærum.

Þetta er gríðarlega tímafrekt og bætir alls ekki gæði kennslunnar.  Efni sem mætavel mætti senda í tölvupósti eða gera aðgengilegt á vef er notað til að fylla upp í kennslustundina.  Þetta er ekki kennsla.

Margir nemendur eyða líka tíma sínum í að hlusta á slaka kennara eða fyrirlesara lesa beint af glærum – og bæta litlu sem engu við það sem á glærunni stendur.

Þegar þetta gerist er freistandi að hugsa; “Ég er læs, ég þarf ekki að mæta hingað til að láta lesa þessar glærur fyrir mig.”

2. Kennslan er hvetjandi

Kennari getur vissulega verið hvetjandi.  En fjarnám er oftast í boði fyrir eldri nemendur (framhalds- og háskólastig) og því ætti drifkrafturinn að koma innan frá.  Rannsóknir sýna að innri drifkraftur er mun líklegri til að skila árangri en ytri þrýstingur.

Eldri kenningar um hegðun mótuðust einkum af þeirri hugsun að við (maðurinn) stjórnuðumst fyrst og fremst af:

  • Umbun (verðlaun, girnd eða vellíðan) sem hvetur okkur til að gera meira af einhverju eða sækjast eftir því.
  • Refsingum (takmörk, ógnanir, ótti) sem fá okkur til að gera minna af einhverju eða forðast það.

Vissulega stjórnumst við að þessu en þetta er jafnframt einföldun, því vísindamenn gátu illa útskýrt hvers vegna fjöldi fólks gerði hluti án þess að fá neitt sérstakt fyrir það, annað en ánægjuna sem fólst í verkinu sjálfu (t.d. sjálfboðastarf).

Þegar engin “ytri” verðlaun eru, né að okkur beri skylda til að gera eitthvað, hvers vegna gerum við það þá?

Svarið liggur (a.m.k. að hluta til) í “innri” hvatningu (e. intrinsic motivation).  Að gera hluti ánægjunnar vegna.  Sá sem gerir eitthvað á eigin forsendum, sjálfs sín vegna, er mun líklegri til að halda út og komast í gegnum erfiðleikatímabil en sá sem gerir það af  “ytri” ástæðum.

3. Það er betra að læra í hópi

Sjaldnast.  Kennari hefur takmarkaðan tíma til að veita stórum hópi nemenda þá athygli sem hver og einn krefst.  Auk þess getur verið talsverð truflun og hávaði í hefðbundinni kennslustofu sem getur truflað einbeitingu.

Það góða við hópana er að nemendatengsl geta komið að góðum notum í námi.  En samfélagsmiðlar og tölvukerfi koma fullkomlega í staðinn fyrir það og eru ómissandi hluti af tengslanetum nútímans og nægir að nefna Facebook, Yammer, Chatter og LinkedIn í því samhengi.

Ekki má gleyma því að Facebook rekur uppruna sinn til samfélagsnet fyrir nemendur í Harvard þar sem stofnandinn var við nám.  Samskiptanet hafa því lengi verið baknet nemenda sem hafa deilt námsefni og glósum með aðstoð þeirra.

Úrelt kennsluform?

Í dag ætti hver að geta lært það sem hann vill, með eða án kennara.  Aðgangur að náms- og fræðsluefni hefur gjörbreyst á örfáum árum og sáraeinfalt er að nálgast efni um hvaðeina.  Youtube er sjálfsagður hlutur og má til gamans nefna að Youtube er næst stærsta leitarvél heims, á eftir Google.

(Það er þægilegra að leita á Youtube að upplýsingum um það hvernig skipta skal um dekk á Toyotu Yaris.)

KhanAcademy er gott dæmi um vef sem hefur sprungið út og ég veit um dæmi þess að nemendur sem stunda verkfræðinám við Háskóla Íslands noti þennan vef fremur en að mæta í suma fyrirlestra.  Að skoða stærðfræðileiðbeiningar á myndbandi hentar mörgum betur þar sem hægt er að stoppa spilarann, bakka og hlusta aftur, allt eftir þörfum hvers og eins.

Fólk sem notast við almenningssamgöngur, ekki síst erlendis þar sem ferðir til og frá vinnu og skóla eru tímafrek, hentar þessi möguleiki vel því auðvelt er að hlusta á fyrirlestra og horfa á myndskeið í símanum og nota til þess tíma sem annars færi í súginn.

Líklega mun hefðbundin kennsla breytast ört í þessa átt á næstu árum og væntanlega vera mörkin milli staðarnáms og fjarnáms óljósari með tímanum.

Lifandi og hressileg kennslumyndbönd

Lifandi og hressileg kennslumyndbönd

Fjarnám eru hagkvæm leið til árangurs og af þeim sökum hefur Betra nám boðið upp á ýmis fjarnámskeið, s.s. í hraðlestri og minnistækni auk stærðfræði.  Mörgum hentar þessi nálgun vel.

 

 

ebook-e-book-ipad-tabletSteve Jobs, stofnandi Apple, náði á örfáum árum að gjörbreyta tónlistariðnaðinum með smíði iPod.  Kvikmyndageirinn hefur gengið í gegnum gríðarlegar breytingar og nú síðast er það bókaiðnaðurinn í gegnum Amazon Kindle og spjaldtölvulesara.  Rúm 2 ár eru síðan rafbókarsala fór fram úr hefðbundnum bókum í sölu á Amazon.

Næsta verkefni hans var að breyta skólabókarumhverfi í Bandaríkjunum og rafbókarvæða bókakostinn og gera hann þannig aðgengilegri.  Norðlingaskóli hefur m.a. unnið með spjaldtölvur í efri bekkjum og er víst að fleiri skólar horfa til þess líka.

Tíminn mun leiða í ljós hvernig þessu miðar en ljóst er að tækifæri eru við hvert fótmál.  Að halda eitthvað annað er afneitun.

En þýðir þetta að kennarar séu óþarfir?  Að sjálfsögðu ekki.  Þörfin á góðu námsefni er og verður alltaf til staðar.

Það er fyrst og fremst miðlun námsefnisins sem er að breytast.  Hvernig því er komið á framfæri.  Nám þarf áfram að vera skipulega framsett og eftirlit með framgöngu nemenda minnkar ekki þótt framsetningin breytist.

Við verðum áfram að geta treyst því að nemandi með tiltekna námsgráðu hafi staðist þær kröfur sem námið gerir til hans.

Þessi umfjöllun á að sjálfsögðu við bóklega hluta námsins.  Um verknám gegnir öðru.  Þar hefur kennarinn (leiðbeinandinn, meistarinn) gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna, því suma hluti lærir maður einfaldlega ekki í bókum.

 

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.