Lesblinda – Eðlileg eða afbrigðileg?

Lesblinda – Eðlileg eða afbrigðileg?

Er minnihlutinn sjálfkrafa afbrigðilegur og er meirihlutinn sjálfkrafa „eðlilegur“.   Og hvar liggja mörkin? Eru lesblindir einstaklingar sjálfkrafa annars flokks nemendur því þeir eru í minnihluta (10-20%)? Hvað ef 50% væru lesblindir? Væri skólakerfið þá sjálfkrafa betra þar sem það myndi laga sig að gjörbreyttum aðstæðum?

Aðstæðum þar sem lestrarörðugleikar væru ekki skilgreindir sem frávik heldur regla. Spyr sá sem ekki veit.

Við fæðumst sjáandi.   Tal og lestur lærum við síðar. Eftir því sem ég kemst næst þá er engin tiltekin heilastöð sem sér um lestur (ólíkt tali, sjón osfrv). Lestur er tiltölulega nýtt fyrirbæri í þróunarsögunni, og því reynir lesturinn á samspil margra ólíkra þátta í heilanum.

Heilinn eyðir mikilli orku í sjónræna úrvinnslu (a.m.k. 60%). Eitt megineinkenni lesblindu er styrkleiki þegar kemur að sjónrænum og verklegum greinum. Lesblinda (eins og við þekkjum hana) er semsagt ekki ný af nálinni. Hún hefur líklega „grasserað“ í gegnum aldirnar og árþúsundin – án þess vera neinum til ama.

Þvert á móti.

Lesblinda og athyglisbrestur er kostur í náttúrulegu umhverfi

Lesblinda og athyglisbrestur er kostur í náttúrulegu umhverfi

Lesblinda og athyglisbrestur er kostur í náttúrulegu umhverfi

Lesblinda hefur væntanlega komið sér vel fyrir hellisbúa,frumbyggja, veiðimenn, sjómenn og bændur fyrri alda. Í þessu samhengi er að sjálfsögðu kjánalegt að tala um lesblindu þar sem lestur þekktist ekki, ég er einkum með lesblindueinkenni í huga.

Áður fyrr gat það þýtt bráðan bana að líta ekki við þegar þrusk heyrðist að baki. Slanga í trjágrein, ljón í runna eða snákur í grasi var raunveruleg hætta. Í skólaumhverfi nútímans þykir þetta hins vegar mikill ókostur og nemandi sem getur ekki „einbeitt“ sér vegna skrjáfs í blýöntum eða skvaldurs í næstu stofu er vísað í greiningu þar sem „orsakanna“ er leitað.

Fyrirbærinu þarf að gefa nafn (því annars vitum við ekki við hvað er að etja) og lesblinda og athyglisbrestur eru þar ofarlega á blaði.

En tilfellið er að skólakerfið eins og við þekkjum það er mjög ungt, einungis um 200 ára gamalt og það verður að segjast eins og er að náttúran hefur ekki fengið langan tíma í sögulegu samhengi til að laga heilastarfsemi okkar að þessum breytingum.

Náttúrulegur hæfileiki verður að meinsemd

Getur verið að náttúrulegur hæfileiki okkar til að komast af í náttúrunni í gegnum árþúsundin sé nú orðinn að einni mestu meinsemd í vestrænu skólakerfi? Sumir vilja kenna tölvum og sjónvarpsglápi um en það er líklega einföldun.

Er hitt ekki líklegra að skólakerfið sjálft sé meingallað að þessu leyti? Að „frávikin“, „undantekningartilfellin“, nemendurnir sem glíma við „námsörðugleika“ séu einfaldlega fullkomlega eðlilega skapaðir og þenkjandi einstaklingar?

Raunveruleikinn er annar því þessi hópur fær kaldar móttökur í skólakerfinu þar sem ofuráhersla er lögð á ritað mál og línulega hugsun. Lítið rúm er gefið fyrir skapandi lausnir þar sem einstaklingurinn fær umbun fyrir hvatvísi og frumleika (hvernig í ósköpunum ætti 1 kennari á móti 25 nemendum að komast yfir slíkt?).

Niður með Gúllíver

Menn ganga jafnvel svo langt að gefa út vottorð og lyf út á krankleikann. Það er ekki pláss fyrir Gúllíver í Putalandi.

Sá lesblindi er útskrifaður úr skólakerfinu, marinn og blár á líkama og sál. Með vottorð upp á það að hann sé 2. flokks nemandi. Lágar einkunnir, lyfseðlar, lélegar umsagnir og jafvel slök mæting sanna allt sem sanna þarf í þeim efnum.

Ég hef margoft hitt fólk sem hefur ekki treyst sér aftur í nám fyrr en 20-30 árum eftir grunnskóla.  Svo slæmar eru minningarnar og vanmáttarkenndin um eigið ágæti.

Það einkennilega í þessu öllu saman er að greindarpróf sýna að þeir sem greinast með lesblindu eru jafnan yfir meðalgreind.

Hvernig getur jafn stór hópur vel greindra einstaklinga átt jafn erfitt uppdráttar í skólakerfinu og raun ber vitni?

Getur verið að skólakerfinu sé að mistakast hrapallega þegar kemur að því að veita öllum sömu tækifæri til menntunar?

Eru svimandi háar brottfallstölur úr námi e.t.v. birtingarmynd falleinkunnar skólakerfisins?

Ef stór hópur nemenda fellur í tilteknu fagi, hjá tilteknum kennara, í tilteknum skóla…er þá ekki tilefni til að skoða kennsluhættina nánar?

Vissulega er lesblinda og lestrarörðugleikar til trafala í námi, á því leikur enginn vafi.  En liggur vandinn hjá nemandanum eða í kennsluaðferðunum?

Það má vera að árþúsunda þróun virki gölluð í þröngu ljósi 200 ára sögu skólakerfisins.  En hvort kom á undan, eggið eða hænan?

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!