Upptekin? Með lífið á bið?

Upptekin? Með lífið á bið?

“Er mikið að gera?” eða “Er ekki alltaf nóg að gera hjá þér?” eru klassískar spurningar þegar kunningjar rekast á. Okkur finnst einhvern veginn allt vera eins og það á að vera ef það er bara “nóg að gera”. En gættu þín, því álagstími getur hæglega verið úlfur í sauðagæru. Iðjuleysi er mjög mjög slæmt. Við erum vinnudýr að upplagi, mennirnir. Og vanaföst. Einstaklingur sem missir vinnuna eða dettur tímabundið út, t.d. vegna veikinda eða slyss, kynnist af eigin raun afleiðingum iðjuleysis. Iðjuleysi sem oft á tíðum skapast vegna aukins frítíma. Okkur fer fljótt að leiðast, og þá gerist oft hið ótrúlega. Fólk koðnar niður og finnur ekki hjá sér frumkvæði til að gera einföldustu hluti.

Aðgerðaleysið getur endað með depurð og jafnvel þunglyndi. Engin furða að við sækjum stíft að hafa nóg fyrir stafni Vandinn er kannski sá að verkefnum og skyldum er af mestu stýrt af öðrum. Flestir foreldrar þekkja það af eigin raun að frítíminn er í raun svo lítill að við þurfum ekki að hugsa um það hvernig skuli ráðstafa honum. Margir vilja einfaldlega bara hvíld. Auk þess sem heimilið, börn og skutl tekur drjúgan tíma líka.

Upptekinn?

Upptekinn?

Við erum “upptekin”. Þegar aðstæður breytast skyndilega, hvort sem einstaklingur velur að hætta að vinna, er sagt upp eða þá hættir sökum aldurs, þá lenda ótrúlega margir í vandræðum með sjálfa sig. Þeir hafa aldrei þurft að hugsa um það hvernig þeir skulu ráðstafa sínum persónulega tíma af neinu ráði. Sumir eru meira svo eirðarlausir að þeir vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera í fríum. Áreitið þarf helst að vera gegndarlaust. Mörgum nemendum finnst best að læra við tónlist, með sjónvarpsþátt í tölvunni og Facebook opið. Kyrrðin er óæskileg, allt að því óþægileg.

En þetta getur verið blekking.

Úlfur í sauðagæru

Það er nefnilega ekki það sama að vera upptekinn og afkastamikill. Upptekið fólk afkastar oft afskaplega litlu. Rannsóknir hafa sýnt að starfsmaður á skrifstofu “vinnur” í raun aðeins rúma 3 tíma á dag. Restin eru truflanir, kaffitímar og annað áreiti (s.s. sími og tölvupóstur). Í lok dags þá hljótum við að standa skil á því hverju við afköstuðum. Ef dagurinn fór í að bregðast við áreiti, slökkva elda, þá afköstum við litlu sem engu. Hvernig færumst við áfram ef við róum ekki? Hvernig nær maður markmiði ef maður afkastar engu?

Framfarir byggja á einhvers konar afköstum. Láttu hugann reika til baka, hvað gerðir þú í gær, síðustu viku, síðasta mánuði…sem virkilega skilur eitthvað eftir sig, skilar framförum? Eða eru flestir dagar eins. Upptekin(n)? Of upptekin til að gera þetta og hitt? Ertu e.t.v. að bíða? Bíða eftir því að börnin vaxi úr grasi, þú fáir meiri frítíma?

Margir bíða leynt og ljóst eftir eftirlaunaaldrinum – en þeir myndu aldrei viðurkenna það.

Þá á allt að gerast

Ferðalögin, golfið og áhugamálin eiga að blómstra, bara síðar. En hvers vegna ekki í dag? Þú hefur nægan tíma, ef þú hættir að vera “upptekin” og einbeitir þér að því að afkasta.  Láttu ekki blekkjast.  Það er afskaplega auðvelt að virðast upptekin(n) en afkasta litlu sem engu.

wp-footer

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!