Framfarir eða bara hreyfing?

Framfarir eða bara hreyfing?

Stundum er ekki nóg að hreyfast til að koma hlutunum á hreyfingu.  Margir nemendur eiga erfitt með að meðtaka þá hugsun að læra hratt.  Þeim finnst sjálfgefið að nám eigi að taka langan tíma, og það er einmitt vandamálið.

Tíminn flýgur

Tíminn flýgur

Það að eitthvað sé tímafrekt þýðir ekki að það sé mikilvægt.  Okkur hættir til að meta mikilvægi hluta út frá tímanum sem tekur að vinna þá.  Það er kolröng nálgun.  Oft er best að sleppa því að gera hlutinn alfarið.  Ímyndaðu þér hvað þú sparaðir þá mikinn tíma.

Við hömpum þeim sem læra mikið, eru lengi að læra.  “Hann/hún er svo dugleg, hún er alltaf að læra”.

Mín reynsla er sú að sá eða sú sem er lengi að læra glímir oftar en ekki við vandamál í tengslum við lærdóminn, t.d. hæglæsi.  Að sjálfsögðu er samviskusemi af hinu góða, en það er ekki það sem skiptir máli hér.

Það er auðvelt að virðast upptekinn við það að svara tölvupósti og liggja í símanum.  En þarf pósturinn virkilega að vera opinn allan vinnudaginn?  Hversu oft athugar þú hvort nýr póstur hafi borist? 50 sinnum á dag? Kvöldin? Kíkir þú jafnvel um helgar?

Til hvers?

Oft er óþarfi að hringja þegar ein lína í tölvupósti gerir sama gagn.

Tilfellið er að flest getum við stórbætt afköst okkar með betri vinnubrögðum.  Líklegt er að þú sért fastur/föst í viðjum vanans (annað væri í raun óeðlilegt).  Gallinn er sá að þessir ávanar eru oft gagnslitlir þegar kemur að afköstum og hægja verulega á þér yfir daginn.

Er nauðsynlegt að kíkja á Facebook jafn oft yfir daginn og þú gerir?  Stendur þú þig að því að kíkja oft á sömu fréttasíðurnar yfir daginn?  Og líka eftir að þú kemur heim? Og um helgar? Til hvers?

Hlustar þú auk þess reglulega á útvarpsfréttir yfir daginn?  Horfir þú jafnvel á kvöldfréttirnar? Og Kastljós? Og seinni fréttir?

Til hvers?

Hefur þú tekið saman hve miklum tíma þú eyðir yfir daginn í að athuga (og svara) tölvupósti, fylgjast með facebook, hlusta á útvarpsfréttir, horfa á sjónvarpsfréttir og síðast en ekki síst, fletta dagblöðum?  Hefur þú spurt sjálfa/n þig í hvaða tilgangi þú gerir það?  Líklegast veistu ekki svarið.  Líklega gerir þú þetta bara af gömlum vana.

Þú færð nett áfall ef þú gerir það.  Er ekki nóg að renna yfir þetta í lok dags? Ertu raunverulega að missa af einhverju sem skiptir þig og þín markmið persónulega máli?  Hvað hafa þessar upplýsingar raunverulega gert fyrir þig?

Hefur þú einhvern tímann hagnast raunverulega á þessum upplýsingum sem réttlætir þann tíma sem þú eyðir daglega í þetta? Hve mikill er sá tími á viku? Á mánuði?  Með þessu er ég ekki að segja að það eigi alls ekki að fylgjast með dægurmálum og fréttum.  Tilgangurinn er að fá þig til að velta því fyrir þér hvort nauðsynlegt sé að gera þetta svona oft.

Ef þú hugsar þig vel um – ertu að nýta tíma þinn í þína þágu eða annarra?  Er ekki kominn tími til að fjárfesta í sjálfri sér?

wp-footer

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!