Að fara línuvillt og sleppa orðum er algengt umkvörtunarefni. Lestur krefst þess að við hreyfum augun frá vinstri til hægri af lipurð. Hér eru 2 mögulegar skýringar á þessu leiðinlega fyrirbæri: Línuhoppi. Það eru ekki bara lesblindir sem sleppa orðum. Augnhreyfingar okkar eru sérhannaðar af náttúrunnar hendi til að:
More...
- Skima umhverfið eldsnöggt fyrir hættum.
- Fylgja eftir föstum punkti, t.d. bráð eða ógn.
Svo einfalt er það. Athugaðu að hreyfa augun skipulega, orð fyrir orð, frá vinstri til hægri, línu fyrir línu…er ekki á þessum lista. Almættið sá það líklega ekki fyrir, og ekki náttúran heldur.
Veiðimaður lítur til himins. Hann skimar loftið og jaðarsjónin skynjar hreyfingu. Hann sér fugl og einblínir á fuglinn og fylgir eftir hverri hreyfingu. Hann dregur upp bogann…
Á heimleið heyrir hann þrusk fyrir aftan sig. Eldsnöggt lítur hann við og skimar grasið. Hann sér snák og nær með snarræði að bjarga sér.
Í hvorugu tilfellinu hefði þriðja augnhreyfingin (vinstri til hægri, línu fyrir línu) orðið að gagni. Líklega þveröfugt. Hefði veiðimaðurinn litið til himins og skimað sjónsviðið línulega niður í grasið þá hefði það orðið of seint. Snákurinn hefði orðið fyrri til.
Í náttúrulegu umhverfi eru líklega engin not fyrir þá augnhreyfingu sem mæðir hvað mest á í lestri. Er nema von að það sé algengt að hoppa yfir orð og línur?
Áhrifin á lestrarnámið
Þegar nemandi les, einkum á fyrstu árunum þegar lesturinn er ekki alveg orðinn sjálfvirkur, þá getur þetta "hopp" valdið töluverðum vandræðum.
Þessar augnhreyfingar þjálfast oft seint og illa, kannski ekki furða því lesturinn er framan af svo hægur að það reynir lítið á þessar hreyfingar.
Augun renna í raun ekki í gegnum textann,,heldur hoppa frá vinstri til hægri.
Staðreyndin er sú að við lesum ekki með því renna augunum í gegnum textann. Við sjáum í raun ekki skýrt þegar augað hreyfist. Myndin er óskýr á því augnabliki.
En hreyfingin er svo eldsnögg að við tökum ekki eftir því. Við sjáum orðið skýrt þegar augað hefur stöðvað fókuspunktinn á orðinu. Og þá lesum við orðið og stökkvum svo á næsta orð.
Nemendur sem eru hæglæsir, geta lent í því að þurfa að æfa augnhreyfingar sérstaklega. Hægar augnhreyfingar koma ekki að sök þegar lesturinn er mjög hægur. En til að ná upp meiri hraða getur reynt meira á þessa sérhæfðu augnhreyfingu, að hoppa yfir línuna frá vinstri til hægri.