March 19

Erum við of upptekin af smáatriðum?

0  comments

Orðaforði lesblindra barna er oft minni en jafnaldra.  Mörg hugtök reynast þeim snúin og stafsetning er gjarnan slök. Þau eiga oft erfitt með að þekkja muninn á „vinstri“ og „hægri“.  Loks furða margir foreldrar sig á því hve vitlaust barnið les "litlu" orðin í textanum.  Hvað er málið?

More...

Michael Phelps - Ofvirkur, 8 faldur Ólympíumeistari

Til að skilja þetta skulum við rifja upp að lesblindir einstaklingar „sjá“ hugsanir sýnar betur en flestir aðrir. 

Myndræn hugsun er þeim í blóð borin. Þetta gerir það að verkum að þau muna afskaplega vel eftir því sem þau sjá og upplifa, en geta virkað afskaplega gleymin þegar kemur að því að „læra“ eitthvað.

Lesblindum einstaklingum gengur mjög vel að skilja og muna eftir því sem er myndrænt, en geta verið annars hugar mörgum stundum.  Kennari afrekssundmannsins Michael Phelps sagði móður hans (sem einnig var kennari), að sonur hennar myndi aldrei geta einbeitt sér að neinu!

Hugtakið er myndlaust í huga þess sem ekki skilur

Hugtök sem eru ómyndræn geta því valdið vandræðum. Við þurfum að muna, þau bera það ekki með sér líkt og myndræn hugtök. Afleiðingarnar eru þær að barnið les „var“ sem „er“, „ég“ sem „og“, „í“ sem „á“ o.s.frv. (Ef barnið þitt glímir við lestrarvanda, smelltu hér).

Nöfn hluta og staða í textum reynast þung.  Stærðfræðihugtök, fyrirmæli og leiðbeiningar geta reynst torskilin.  Léttlestrarbækur með nöfnum á borð við „Rúrí“ og „Ómar“ eru lúmskt þungar fyrir þennan hóp.  Þetta getur valdið erfiðleikum þegar bóknámið þyngist (hefur þú skoðað minnistækni?).

Hins vegar eiga lesblindir einstaklingar oft auðvelt með að sjá “stóru” myndina.  Að setja hluti í víðara samhengi, að finna lausnir.  Smáatriðin vefjast síður fyrir þeim, enda skipta þau oft minna máli í víðara samhengi.

Þótt hugtakið sé myndlaust, er hugmyndin það ekki.  Lesblindir nemendur eru upp til hópa mjög skapandi og hugmyndaríkir einstaklingar.  Það á líka við um fólk með ADD og ADHD.

Bestu skólaár þessa hóps eru gjarnan leikskólaárin.

Í skóla er nemanda ekki umbunað fyrir að fara eigin leiðir.  Hvernig ætti svo sem að mæla það? Í skóla gildir að gera það sem fyrir mann er lagt.  Engin þörf á því að hugsa út fyrir kassann.

Ofuráhersla á smáatriðin?

Hvað eru nokkrar stafsetningarvillur samanborið við meistaralega fléttu í sakamálasögu?  Ómetanlegar penslastrokur á striga?  Rödd sem gefur okkur gæsahúð?

Reglur skipta vissulega máli.  En föllum við of auðveldlega í þá gryfju að stjórnast af þeim?  Er þetta virkilega eini mælikvarðinn á framfarir sem okkur dettur í hug?

Smáatriði hafa þann eiginleika að vera rétt eða röng.  Þau eru auðmælanleg og því auðvelt að leggja of mikla áherslu á þau.  Smáatriði eru forsenda einkunnagjafar í skóla.

Stafsetningarvilla eða formerkjavilla í stærðfræðiprófi?  Klaufavillur?  Að ruglast á forsetningu og atviksorði?

Þetta eru klassískir veikleikar lesblindra nemenda, en frábær mælitæki fyrir skólann.  Engin mæling, engar framfarir.  Með því að einblína á smáatriði má finna nemendur sem mælast undir "viðmiðum" og hjálpa þeim.

Hjálpin? Aukatímar eða sérkennsla á þeirra veikasta sviði.

Hvað með styrkleikana?

Hvenær skyldi skólakerfið byrja á því að horfa meira til styrkleika nemenda fremur en veikleika?  Að leyfa nemendum að njóta sín betur í því sem liggur vel fyrir þeim?  Myndi það ekki styrkja sjálfsmynd þeirra, áhuga og afköst?  Margir kennarar eru frábærir en kerfið er orðið íþyngjandi fyrir þá líka og vandfundin er starfsstétt með meira brottfalli.

Ég er ekki að tala um að leyfa nemendum að gera það sem þeir vilja.  En ég er hugsi yfir því að enn í dag skuli nemendur ekki geta haft áhrif á námsframvindu sína nema að sáralitlu leyti.

Hvað þetta varðar er skólakerfið eins og við þekkjum það barn síns tíma.  Sprottið upp úr iðnbyltingu þar sem áherslan var á að skapa vinnukrafta sem gátu dregið til stafs og höfðu tök á grunnreikningi.  Skapandi hugsun óþörf.

Er ekki mögulegt að næsta snilldarverk, tónverk eða tækniundur kvikni í huga nemanda sem fékk tækifæri til að láta hugann reika, án þess að óttast mistök eða neikvæðar athugasemdir?

Hvernig mælir maður "gæði" skapandi greina?  Hvenær er málverk rétt eða rangt? Of dökkt eða ljóst? Of ljótt eða of fallegt?

Nákvæmni er mikilvæg, t.d. í vísindum og tækni. Og það er fullt af fólki sem elskar nákvæmni.  En er það ekki oftast svo að snillingarnir sem elska tækni og vísindi starfa oftar en ekki hjá snillingunum sem fengu hugmyndirnar?

Tags

add, adhd, dyslexia, lesblinda, Lestur, skrift, stærðfræði


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>