Áttu barn sem les hægt eða þarf hjálp í lestri? Það er sama hvaða aðferðum er beitt, þetta er líklega eitt mikilvægasta atriðið þegar uppi er staðið.
More...
Börn sem eiga erfitt með lestur, hvort sem þau eru lesblind eða ekki, eiga það til að vera of spennt þegar þau lesa. Í neikvæðum skilningi.
Spennan bæði sést og heyrist. Mörg börn iða í sætinu eða rugga sér. Röddin breytist líka, titrar jafnvel örlítið og upplesturinn verður stífur.
Þau eru mörg hver undir pressu að lesa hraðar og eiga það því til að giska eða marglesa orð. Og hvaðan skyldi sú pressa koma? Líklega frá nánasta umhverfi, okkur foreldrunum og skólanum sem ýtir undir álag með áherslu á að barnið nái skilgreindum lágmörkum.
Að flýta sér hægt
Í þessu sambandi gerir spenna illt verra. Mun betra er að fá barnið til að slaka aðeins á, áður en lesturinn hefst.
Við vitum það sjálf hvernig það er þegar flumbrugangurinn tekur af okkur völdin.
Lestur er flókinn og það þarf gríðarlega þjálfun eigi hann að ganga snurðulaust fyrir sig.
Nemandi sem les áreynslulaust hefur náð góðum tökum á grunnþáttunum og lesturinn er að mestu á sjálfstýringu. Sami nemandi er ekki að drattast með íþyngjandi stafarugling eða að brjóta heilann um framandi orðmyndir.
Þegar lestrarörðugleikar eru annars vegar þá getur verið betra að brjóta lesturinn niður í afmarkaða hluta, fremur en að láta barnið lesa texta þar sem öllu ægir saman.
Slakaðu aðeins á...
Einföld leið til að hjálpa barninu að slaka á, felst í því að:
- Loka augunum
- Anda djúpt (telja upp í 7 í huganum)
- Anda rólega út (telja upp í 11 í huganum)
Varðandi lesturinn sjálfan er mikilvægt að flýta sér hægt.
Ekki segja orðið nema þú vitir hvað þú ætlir að segja. Hljómar það ekki rökrétt?
Það er gott að gefa barninu leyfi til að hugsa, eða lesa fyrst í hljóði áður en orðið er lesið upphátt. En þá er líka mikilvægt að foreldrið grípi ekki fram í!
Ég hef oft séð það gerast að barnið stressast upp því það "veit" að foreldrið mun "leiðrétta" það eða "hjálpa" því þegar það hikar eitt augnablik.
Þetta getur aukið pressuna á ungan lesanda, truflar einbeitinguna og skilar litlum árangri, því barnið er ekki að hlusta á okkur...það er að reyna að lesa og við erum bara að trufla!
Segðu "PASS"!
Það sem hefur gefist mér vel er að gefa barninu sjálfu full stjórn, og þar með ábyrgð, á því að biðja um hjálpina þegar hennar er þörf.
Lesandinn veit oftast mætavel hvort hann getur lesið orð eða ekki. Börnin vita líka oftast hvort þau lásu orð rétt eða ekki. Þau finna það. Hjartað segir þeim það. Þau finna fyrir öryggi eða óöryggi meðan þau lesa.
Fullvissa, eða óvissa, er tilfinning sem gott er að hvetja barnið til að taka eftir meðan það les.
Einstaka sinnum mismæla þau sig en oftast greina þau auðveldlega á milli.
Hér er hugmynd: Segðu barninu þínu að segja "pass" þegar það vill aðstoð við að lesa orð. Þá munt þú (foreldrið) lesa orðið upphátt og barnið hermir svo.
Þetta gefur barninu tíma til að brjóta heilann, vanda sig og halda betri einbeitingu meðan það les.
Það pirrar mörg börn þegar foreldrarnir grípa stanslaust fram í fyrir þeim meðan þau eru að reyna að lesa (við höfum ll gerst sek um það).
Mér finnst passlegt að barnið fái u.þ.b. 3-5 sekúndur áður en það segir pass, annars er barnið farið að reyna of mikið og það reynir mikið á og dregur úr úthaldinu.
Mér finnst betra að lesa lengra, og segja aðeins oftar "pass", heldur en að rembast of lengi og gefast fyrr upp.
Undrið
Það góða við að gefa barninu 3-5 sekúndna umþóttunartíma, áður en það segir pass....er að barnið fær þarna verkfæri til að stjórna lestrinum betur sjálft.
Barnið fær líka meiri ábyrgð og mín reynsla er sú að þau eru fullfær um að stjórna þessu sjálf. Það er miklu betra að barn reyni sjálft að lesa orð, yfirvegað og einbeitt, en segi svo pass ef þörf er á og hleypi foreldrinu að.
Þannig þjálfast barnið líka í því að greina á milli, og þarf sjálft að meta hvenær það getur lesið rétt og hvenær ekki. Það er margfalt betra en þessi togstreyta sem getur skapast þegar barnið reynir og reynir meðan foreldrið talar ofan í barnið.
Eins og ég sagði áður þá getur slíkt aukið pressuna á barnið og ýtir undir það að barnið lesi hraðar en það ræður við.
Ég nefndi áðan að oft reynist nauðsynlegt að taka lesturinn í "sundur", og æfa hvern þátt fyrir sig. Lesum hraðar þjálfunarnámskeiðið er einmitt byggt þannig upp. Hver þáttur lestrarins er þjálfaður út af fyrir sig, samhliða heimalestri.
Þannig nær barnið fyrr tökum á hverjum þætti fyrir sig, þar sem hann er æfður endurtekið með yfirveguðum hætti. Síðan er byggt ofan á hverju lagi fyrir sig og lesturinn styrkist með hverjum deginum.