February 12

Nei, þú vinnur ekki best undir pressu

0  comments

Finnst þér best að vinna undir pressu?  Jú, hæfilegur þrýstingur er ágætur en dragðu ekki lappirnar þar til á síðustu stundu undir því yfirskyni að það sé gott fyrir þig.

More...

Margir tengja streitu óhjákvæmilega við afköst og jafnvel velgengni.  Eins og það sé sjálfkrafa fórnin sem þurfi að færa.

Taktu það ekki sem sjálfgefið.

Streitan bendir líklega til þess að eitthvað sé að, hlutirnir séu ekki eins vel undirbúnir og þeir ættu að vera, of margt óvænt er að koma upp á og of mikið óljóst varðandi framhaldið.

Spennandi?

Streitan er líklega merki um að þú sért sífellt að slökkva elda, bregðast við.

En þú afkastar litlu – og þú veist það í lok dags.  Því þú náðir ekki að ljúka við helminginn af því sem þú ætlaðir að gera.

Og það veldur streitu.

Það kann þó að líta vel út, alltaf í símanum, svara pósti, áreiti. Mikið að “gera”.

Mikið að “gera” er ekki það sama og að gera mikið.

Verkefni sem eiga að skilja eitthvað eftir sig þurfa frið.

Þú þarft frið til að hugsa og koma hlutunum í farveg.

Ef þú álítur sem svo að streitan sé jákvæð og af hinu góða, jafnvel nauðsynleg, þá muntu leitast til að skapa aðstæður þar sem hún fær að blómstra.

Meðvitað eða ekki.

Þér líður líklega illa þegar hlutirnir ganga vel og snurðulaust fyrir sig.

Engir eldar.  Engin neyðarútköll.  Hlutirnir bara virka. Of rólegt jafnvel.

Þá skapast tími fyrir þig til að hugsa fram í tímann eða gera hluti sem áður sátu á hakanum.

Þú gætir þurft að glíma við hluti sem er óþægilegir eða leiðinlegir. Hlutir sem þú hefur hingað til sloppið við að eiga við því það var aldrei tími, alltaf svo “mikið” að gera.

Skapaðu þína eigin pressu, en láttu ekki stjórnast alfarið af utanaðkomandi áreitum.

Sjáðu til þess að þú afkastir raunverulega einhverju daglega.  Reyndu að gerðu eitthvað sem skilur eitthvað eftir sig, daglega, hnikar þér í rétta átt.

Dagarnir sem þú hleypur í hringi gleymast fljótt og verða allir eins.  Þú verður eins og  hamstur á hjóli, alltaf á fullu en samt á sama stað.

Einfaldir hlutir eins og heimanám víkja auðveldlega fyrir sjónvarpsglápi og tölvutíma.  Tímaskortur er þægilegt skálkaskjól því hann tekur ábyrgðina af okkur sjálfum og setur hana á utanaðkomandi þætti sem við ráðum ekki við.

Góð hugmynd er að byrja á því sem hefur mestan forgang.

Þegar við upplifum tímaskort þá er kominn tími til að staldra aðeins við og forgangsraða.

Þú þarft ekki fleiri tíma í sólarhringinn.  Það er oftast nægur tími til að gera allt sem þú vilt, ef þú vilt.  Annað er líklega sjálfsblekking.


Tags

námstækni


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>