Lærðu utan að á margföldum hraða

Lærðu utan að á margföldum hraða

Góðan daginn!  Þar sem það styttist nú í stóru prófin – og svo eru þau litlu alltaf þarna innan um – þá ætla ég í dag að skrifa um einfalda aðferð sem styttir upprifjunartíma gríðarlega, minnkar kvíða og prófstreitu og bætir árangur á prófum.  Hvað er betra en það?

Flass kort

Er lesturinn hægur?  Tekur langan tíma að koma sér að verki?  Finnst þér lítið síast inn?  Ber á kvíða fyrir próf og jafnvel í prófum?
Þá skaltu lesa áfram.

Erfiðleikar við að koma sér að verki (frestunarárátta) eru merki um kvíða.  Líklegt er að nemandanum finnist hann ekki ráða við verkefnið, það sé of umfangsmikið eða flókið.  Að það taki því ekki að byrja.  Sjálfstraustið er lítið.  Þetta eru í raun alvarleg einkenni um að eitthvað sé að.

Aðferðin sem um ræðir kallast “Flass-kort” (e. flash cards) eða minniskort.  Margir þekkja til hennar en hafa e.t.v. ekki náð nógu góðu tökum á henni eða lært að tileinka sér hana nógu vel.

Skoðum fyrst vandamálið:

  • Margir lesa hægt og detta út og muna því ekki hvað þeir lásu
  • Þessi hópur les efnið gjarnan  oft til að “læra það”
  • Margir eiga erfitt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum

Bara þetta er nóg!  Nemandi sem upplifir þetta getur glímt við mikla erfiðleika í námi, í það minnsta staðið frammi fyrir miklum áskorunum.  Þetta er veruleiki margra lesblindra nemenda en lesblinda er gríðarlega útbreitt vandamál þótt einkennin séu missterk milli einstaklinga.  Þú getur lesið nánar um lesblindu og einkenni hennar hér.

Hvers vegna virkar flass-kort svo vel?

Þau gera okkur kleift að endurtaka hluti hratt og því komumst við yfir mikið magn upplýsinga á stuttum tíma.  Flass kort geta bætt að nokkru upp lítinn lestrarhraða.

Ef þú lest hægt þá skaltu ekki lesa oft! Leitaðu allra leiða til að bæta námstækni þína svo þú þurfir ekki að eyða svo miklum tíma í eitthvað sem þér finnst erfitt.   En flestir hæglæsir falla í þá gryfju að lesa oft, því miður.

Frítími

Mun betra er að nota aðferð eins og flass kort og hugarkort.  Flestir eyða allt of miklum tíma í nám.  Ég er ekki að tala um að trassa eigi nám.  Ég er að meina að flestir geta bætt vinnhraða sinn umtalsvert svo þeir læri mun meira á mun minni tíma.
Flestir gætu notið meiri frítíma og það á við um allan aldur.

Njóttu þess að læra hratt – svo þú hafir meiri tíma í að gera það sem þú hefur yndi af.

Svona býrðu til flass kort

Klipptu A4 blað niður í 8 hluta.  Þú getur líka keypt línustrikuð spjöld í bókabúðum.  Aðferðin er einföld:

Skrifaðu spurningu öðru megin á spjaldið – og svarið hinu megin.

Hvaða spurningar fara á spjöldin?

Allt sem þú telur mikilvægt fyrir próf!  Svo einfalt er það.  Það getur hjálpað að hafa þetta í huga þegar þú velur spurningar:

  • Um hvað er kaflinn almennt?
  • Skoðaðu vel feitletruðu/skáletruðu orðin
  • Skoðaðu spurningar sem kunna að vera aftast í kaflanum
  • Vertu með glærur frá kennaranum á hreinu

Þetta ætti að duga til að ná prófi.  Mundu að spjöldin koma  í stað próflestrar í sumum tilfellum. Ef þú lærir öll svörin á spjöldunum þá þarftu ekki að lesa neitt meira.  Spjöldin eiga m.ö.o. að fara alla leið.

Allt sem þú þarft að vita fyrir prófið á að vera á spjöldunum!

Það er enginn tilgangur í því að fara hálfa leið.  Þá þarftu bæði að lesa spjöldin og bókina, blöðin og glærurnar og glósurnar.

Farðu alla leið með þetta!

Ferlið frá A-Ö

Lesturinn

Skoðaðu fyrst efnið.  Ekki lesa – skoða.  Skoðaðu myndirnar og renndu yfir fyrirsagnirnar.
Hvers vegna? Þannig færðu yfirsýn og nærð heildarmynd.  Þú færð tilfinningu fyrir umfangi og tímanum sem fer í þetta.

Strikaðu í svörin (Best er að nota lit eða blýant ef ekki mál lita).  Þetta er mikilvægt!

Hvers vegna?
Þetta þvingar þig til að skilja aðalatriði frá aukaatriðum.  Lestu til að finna.  Á þessu stigi skaltu ekki lesa til að læra.  Ekki stoppa til að skilja betur, muna eða setja í samhengi – það kemur síðar.  Þú getur því lesið mun hraðar en venjulega því ein helsta orsök hæglestrar er tvílestur (e. regression).  Ef þú lest texta án þess að vita til hvers þú lest hann (þ.e. án markmiðs) – þá muntu líklega ekki finna neitt.

Kortin

Nú skaltu skapa minniskortin.  Farðu yfir allt sem þú strikaðir í og búðu til spurningu.   Settu spurninguna öðru megin á spjaldið og svarið hinum megin.  Vertu stuttorð/ur – engar langlokur.  Ekki skrifa í setningum, heldur stikkorðum.  Ekki skrifa “Hvar fæddist Jón Sigurðsson?”, skrifaðu heldur “Fæðingarstaður”.

Hvers vegna?
Nú gerast galdrar.  Að hugsa og skrifa í stikkorðum þvingar okkur til að pressa setninguna niður í kjarnamerkingu sína.  Merkingarlitlu orðin detta út svo eftir situr það sem raunverulega er spurt um.  Það er mun auðveldara að muna hluti út frá grunnmerkingu sinni, athyglispunkturinn er þá á lykilatriðinu, því sem skiptir máli.

Upprifjun

Þegar kortin eru tilbúin þá skaltu setja þau í bunka.  Teldu þau.  Þannig færðu tilfinningu fyrir tímanum sem fer í þetta.  Svaraðu spurningum upphátt – það er betra.  Ef þú veist svarið skaltu draga spjaldið úr bunkanum.  Ef þú veist ekki svarið þá skaltu kíkja aftan það og lesa svarið með athygli, endursegðu svo svarið frá eigin brjósti.  Það er mikilvægt – ef þú getur það ekki þá getur þú ekki svarað.  Settu spjaldið svo aftast í bunkann.  Taktu tímann á einni umferð.

Hvers vegna?
Það er þægileg tilfinning að vita hve langan tíma ein umferð tekur.  Ef þú ert t.d. með 50 spjöld þá virðist það e.t.v. nokkuð mikið.  Ef þú ert að meðaltali 5 sekúndur að svara (fljótlegt já því annað hvort veistu svarið eða ekki..ekkert hangs hér!) þá tekur það ekki nema 250 sekúndur að fara í gegnum bunkann eða minna en 5 mínútur!  Næsta umferð gengur helmingi hraðar því líklega eru mjög spjöld farin úr bunkanum og önnur svör kanntu.

Góð ráð

  • Tími: Búðu kortin til tímanlega – það er best að eiga þau tilbúin þegar kemur til prófs.
  • Ró: Slakaðu vel á þegar þú lest kortin, þannig manstu meira.
  • Hástafir: Skrifaðu í stórum stöfum (hástöfum) – þeir örva athyglina
  • Litir: Notaðu liti – þeir örva líka athyglina
  • Gott er að nota sitthvorn litinn í spurningu og svar.  Þá er augljóst hvernig þau skulu snúa.
  • Tölustafir: Skrifaðu tölu í sviga aftan við spurninguna þegar svarið felur í sér fleira en eitt svar:  Það er gott að vita eftir hve mörgum atriðum er falast þegar spurningin er lesin
  • Myndir: Sjáðu fyrir þér svarið myndrænt.  Teiknaðu myndir svar-megin. Það örvar ímyndunaraflið og eflir minnið.
  • Athygli: Ekki ofþreyta þig. Renndu í gegnum bunkann 2-3 sinnum og hvíldu þig svo.
  • Svamp-áhrif: Það tekur tíma fyrir heilann að melta svörin og setja í samhengi.  Ekki vanmeta gildi pásanna.
  • Umfang: Spjaldabunkinn er sjónrænn, raunverulegur.  Það er gott að sjá umfang verkefnsins – njóttu þess.
  • Ímyndun: Notaðu ímyndunaraflið.  Hugsaðu um hvað þetta gerir fyrir, hvert gildi þess er að ná prófinu oþh.
  • Jákvæðni: Vertu  jákvæð/ur.  Það víkkar sjónsvið okkar og við verðum móttækilegri fyrir hugmyndum og lausnum.

Þetta kann e.t.v. að virka flókið og seinlegt – að “gamla aðferðin” sé í raun betri.  Hugsaðu þig aftur um!
Þetta er einfalt, fljótlegt og öflugt.  Ekki gera of mikið úr hlutunum.

Ekkert hangs!

Skannaðu textann og strikaðu undir allt sem þú vilt vita eða telur þig þurfa að vita.  Ef þú veist það ekki – þá ertu í raun á hálum ís því hvernig lærir maður undir slíkt próf?  Búðu svo til kortin og renndu yfir þau nokkrar umferðir.  Það borgar sig að læra hratt!  Einn stærsti kostur flass korta er sá að það er lítið að skrifa og lítið að lesa.  Því undirstrika ég mikilvægi þess að forðast að skrifa í setningum, því þá þarf að lesa.

Með því að lágmarka lestur og skrift fjarlægjum við 2 gríðarstórar hindranir, eða lágmörkum vægi þeirra.

Vilt þú bæta einhverju við?  Allar hugmyndir og athugasemdir eru velkomnar.  Enginn er eins og leið sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum.

Kveðja,
Kolbeinn

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!