Hvers vegna þarf nám að taka svo langan tíma?

Hvers vegna þarf nám að taka svo langan tíma?

Undanfarin ár hefur hægt og bítandi tekist að lengja skólagönguna all ríflega.  Skólaárið teygir sig fram á hásumar og jafnframt hafa námsbrautir verið lengdar og 3 ára háskólanám gert að 5 ára.  Leikskólakennarar, kennarar, félagsfræðingar ofl. ljúka nú 5 ára námi í stað 3 ára áður.  En…..til hvers?

Sjálfsagt má færa ýmis rök fyrir þessu.  En eftir situr samt stóra spurningin:

Til hvers?

 

turtleandrabbitPawel Bartoszek hefur skrifað um þetta og telur að stytta eigi (kennara)námið aftur.  Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarforseti við Menntavísindasvið HÍ svaraði greininni  og var Pawel að sjálfsögðu ósammála.

Með því að vera almennt á móti lengingu náms þá er ekki svo að skilja að ég sé á móti löngu námi eða framþróun, jafnvel nýsköpun!

Mikið bóknám í iðnnámi

Fjöldi nemenda á erfitt með bóknám eða hefur hreinlega ekki áhuga á því.  Margir kjósa að starfa við iðngreinar.  Ég á erfitt með að skilja hvers vegna svo mikið bóklegt nám er komið inn í flestar iðngreinar.

Hvers vegna má nemandi, sem hefur í 10 ár skilað sínu í bóklegum fögum (s.s. dönsku, íslensku og stærðfræði) ekki kjósa sér iðnnám eins og bifvélavirkjun, án þess að þurfa að sitja áfanga í þessum fögum?

Hverju bætir þetta raunverulega við getu hans eða hæfni sem fagmaður í greininni?

Margir nemendur iðnbrauta kjósa að taka stúdentspróf samhliða eða síðar meir, og þá tilheyra þessar greinar því vali.  En það er þá val viðkomandi!

Þessi fjöldi bóknámseininga sem iðnbrautarnemendur verða að taka eykur klárlega falltíðni og jafnvel brottfall, með tilheyrandi kostnaði fyrir allt og alla.

Hvers vegna má ekki stytta ýmsar námsbrautir og hafa þær markvissari?  Hvers vegna þetta moð af ólíkum og almennum greinum?

Nemandi sem er afbragðseinkunnir í verklegum greinum lækkar meðaleinkunn sína talsvert vegna slakrar frammistöðu í bóklegum greinum.

Einhver myndi segja eitthvað ef nemendur á bóknámsbrautum (s.s. félagsfræði) væru allir látir taka áfanga í málmsuðu eða rafmagnsfræði.  Hvers vegna getur annar hópurinn valið “hreint” bóknám en hinn hópurinn situr uppi með blöndu af bóknámi og verknámi?

Nemendur iðnbrauta sem vilja í framhaldinu taka sitt meistaranám geta þá bætt við sig þeim áföngum sem gerð er krafa til varðandi meistaranám.  En aftur, það er þá val.

Ég hef hitt of marga sem ekki geta, eða eiga erfitt með að ljúka sínu iðnnámi vegna erfiðleika með tungumál eða stærðfræði.

Hvað ætlar þú svo að verða?

Er það nema von hve algengt það er meðal nemenda í 10. bekk að vita ekki hvað þeir vilja læra á framhaldsskólastigi.

Fjölmargir hafa enn enga hugmynd þegar þeir útskrifast með stúdentspróf.  Enda hafa þeir litla sem enga reynslu af fögum sem eru raunverulega tengd atvinnulífinu.

Meiri enska, meiri danska, meiri málfræði, enn fleiri ritgerðir og svo mætti lengi telja.  Það er eins og menn þori ekki að aðgreina eitt né neitt.

Því lengur sem nemandinn heldur áfram í jafn almennu námi og flestar námsbrautir raunverulega eru, því lengur frestar einstaklingurinn því að spyrja sig raunverulegra spurninga um hvert hann stefni.

Fjölmargir hefja háskólanám án mikillar íhugunar og verða svo fyrir vonbrigðum, hætta að skipta um brautir.

Menntun er hluti af sjálfsmynd okkar og sá sem ekkert lærir er “ekkert”.  Mörgum finnst það óþægilegt.

Rökin fyrir lengingu náms eru í mínum huga fremur veik, eitthvað á þessa leið:

  • Vegna þess að hinir gera það.  Hljómar eins og barn sem vill ná einhverju fram því aðrir fá það.  Eru það næg rök að Finnar eða Frakkar gera eitthvað öðruvísi, þurfum við þá að gera það líka?
  • Við þurfum góða kennara.  Vissulega.  En góður kennari er ekki búinn til á tilraunastofu.  Ég tel að kennarinn mótast af reynslu og byrjar fyrst að læra þegar  hann hefur störf.  Ég tel kennara með 3 ára háskólanám og tveggja ára starfsreynslu mun hæfari en nýútskrifaður kennari eftir 5 ára nám og enga reynslu.
  • Lengra nám dregur að sér hæfari nemendur.  Hæfari nemendur eru ekki endilega hæfari starfsmenn.  Hugsanlega er verið að halda góðum starfskröftum (t.d. kennurum og leikskólakennurum) frá starfi með því að auka kröfurnar í náminu
  • Lengra nám leiðir af sér betri laun.  Alls ekki hreint.  Ég tel það ekki líklegt til árangurs að skrúfa upp laun með verkföllum vegna þess eins að námið hafi verið lengt.  Lengra nám sem ekki er vel launað ýtir aðeins undir starfsóánægju og eykur brottfall úr stéttinni.

Þurfum við ekki á því að halda að fólk mennti sig til starfa sem skapa verðmæti, s.s. við framleiðslu ýmiskonar?

Hver er stefnan?

HönnunEr eitthvað í boði í efri bekkjum grunnskóla sem hjálpar nemendum að tengja námið við hugsanleg áhugasvið og framtíðarmenntun?  Líklega er lítið um það.  Almenna námið ræður ríkjum.

Námskeið sem gefa nemendum kost á að sjá hvaða möguleikar bíða þeirra ef þeir stunda námið af kostkæfni og áhuga?
Ég hitti marga nemendur á efri stigum grunnskólans sem skortir stefnu og sýn.  Eftir 8 ár í námi er enn engin skýr stefna komin á til hvers þau læri hitt og þetta.  Engin tenging.

Væri hægt að hafa:

  • Námskeið sem opna heim forritunar og sýna fram á tengsl við rökhugsun og stærðfræði?
  • Námskeið sem örva ímyndunaraflið, t.d. tölvuleikjahönnun?
  • Námskeið sem veita áhugasömum innsýn í heim hönnunar, s.s. húsgagna, iðn- eða fatahönnunar?
  • Námskeið sem veita innsýn í heim viðskipta- og markaðsfræði?
  • Námskeið sem leyfa nemendum að vinna með rafmagn og tölvubúnað?

Draumórar?
En þetta gæti kveikt á perunni hjá mörgum unglingnum sem sér ekki tilganginn í náminu og eflt hann til dáða.  Gefið honum stefnu.  Ég er ekki að tala um sérhæfingu, heldur tengingu.  Að tengja listgreinar við raungreinar og skapa þannig verðmæti.  Hvað er að því að hafa stefnu?

Dýrt?  
Því skólakerfið sveltur fjárhagslega.  Þetta kostar tæki og tól, hugbúnað. En eru til peningar til að lengja námið? (Er mönnum alvara að setja spjaldtölvur í skólana??)  Myndi minna brottfall og flakk á milli námsbrauta ekki borga sig síðar meir?  Ég er ekki þeirrar skoðunar að meira sé sjálfkrafa betra.

Hver á að kenna þetta?
Einmitt!  Líklega er kennaramenntunin ekki nægilega yfirgripsmikil eftir allt saman.  Módelið gengur einfaldlega ekki upp.  Kennaraháskólinn útskrifar ekki sérfræðinga á þessum sviðum og því er þessi þekking ekki til innan skólanna.

Heldur er sjálfsagt að lengja fræðilegan hluta kennaranámsins í þeirri von að það auki eftirspurn í námið og bæti launakjör.  Er þetta ekki svolítið öfugsnúið?

Aðrir tímar

Þessi skapandi fög voru varla til nema í mýflugumynd fyrir ekki svo löngu.  Í dag þekkjum við:

Eve Online

Eve Online

  • Hugbúnaðargerð og tölvuleikjahönnun
  • Hátæknihönnun eins og Össur og Marel (á gömlum grunni en frumkvöðlar á sínum sviðum)
  • Fatahönnun og handverk
  • Tónlist
  • Útflutningur á verkviti s.s. v. orkumála og mannvirkjagerðar

Lengi mætti telja.  En úrval skapandi greina innan skólanna hefur lítið breyst:

  • Matreiðsla (heimilisfræði)
  • Tónmennt
  • Myndmennt

Þetta eru góð og gild fög, en er ekki full þörf á að snarauka þátt skapandi hugsunar, hönnunar og tækni í skólakerfinu?

Þvert á móti virðist allt snúast um almennt nám.  Og eftir 10 ár í almennu námi taka við 4 ár í öðru almennu námi.  Almenna námið er þægilegt því þá þarf maður ekki að velja á milli.  Helsta áskorun ungmenna í 10. bekk er að velja framhaldsskóla, sem eru hver öðrum líkir hvað varðar námsframboð.

Þegar því vali er lokið getur nemandinn andað léttar, hann þarf ekki að taka næstu ákvörðun fyrr en eftir 4 ár þegar hann fer í háskóla.

Er lausnin fólgin í því að auka kröfurnar og lengja námið? Varla.  Bendir þetta ekki fremur til þess að það sé eitthvað að í kerfinu?

  • Er kennslan nógu góð?
  • Eru skólarnir of margir?
  • Er fjármagninu dreift um of?

Lengra nám verður að borga sig

Framhaldsnám á háskólastigi er besta mál, en hvers vegna má það ekki vera val?  Ef fólk telur hag sínum betur borgið með meistara- eða MBA gráðu þá fer það í það nám.  Ef meiri starfsmöguleikar og hærri laun réttlæta kostnaðinn við námið þá er það vel.

Það fer þá minni hópur í framhaldsnámið og þeir sem svo gera njóta því góðs af minni samkeppni á vinnumarkaði.  Prófgráða sem allir eru með fletur hana út, minnkar atvinnuöryggi og eykur líkurnar á því að fólk fái ekki  vinnu við hæfi.  Það hlýtur að auka óánægju í starfi (ekki nægilega krefjandi, lægri laun) um leið og prófgráðan missir óhjákvæmilega eitthvað af gildi sínu (sbr. stúdentspróf).

Fjölmargir með viðskiptamenntun vinna í raun almenn skrifstofustörf.  Allt of oft tel ég að menntunin sé ekki að skila sér að fullu inn í atvinnulífið því hún er of almenn  og of margir eru með hana.

Flestir nemendur sem hafa unnið skólaverkefni fyrir fyrirtæki úti í bæ hafa upplifað það að flottar skýrslur, rannsóknir og úttektir, unnar með brennandi áhuga nemanna hafa flogið beint ofan í einhverja skúffuna eftir skil.

Nám fyrir alla

Réttur okkar til náms á að ná til þess að hver og einn geti valið nám eftir áhuga og við hæfi.  Það fer eftir aðstæðum hvað hentar hverjum og einum.

Háskólaumhverfið er uppspretta nýsköpunar og þar fer mikið rannsóknarstarf fram.  En það er ekki fyrir alla.  Margir eru einfaldlega að leita sér að starfsmenntun við hæfi.

Það má svo ekki gleyma því að allir þurfa atvinnu og skólarnir framleiða fyrst og fremst starfsmenn, ekki frumkvöðla.  Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Atvinnuleysi hefur í gegnum tíðina bitnað nokkuð á viðskiptafræðingum. Maður skyldi ætla að viðskiptafræðingar væru öðrum færari að reka fyrirtæki en svo er ekki, þeir sækjast flestir eftir því að vinna hjá öðrum eins og flestir sem ljúka námi.

Áherslan er jú á að auka atvinnumöguleika.

Námið þarf einfaldlega að vera hnitmiðað og eins stutt og kostur er.  Annað hlýtur að vera sóun á tíma og fjármagni.

Verða þeir síðustu fyrstir?

rabbit-turtles-amazing-raceEn til er hópur sem er líklegri til að ljúka ekki ljúka námi en aðrir og það eru lesblindir.

Í Bandaríkjunum eru um 30% fyrirtækjaeigenda lesblindir (eða glímdu við námsörðugleika).

En hjá þeim starfa menntaðir stjórnendur.  Í hópi stjórnenda eru aðeins um 1% lesblindir.

Er það ekki áhugavert?

Langskólagengna fólkið vinnur hjá þeim minna lærðu.

Hugsum því vel um hag lesblindra og annarra sem eiga undir högg að sækja í skólakerfinu.

Við gætum þurft að sækja um vinnu hjá þeim einn daginn.

Og þá er eins gott að hafa prófgráðu upp á vasann;)

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.