Hugmyndasnauðar og leiðinlegar skólabækur?

Hugmyndasnauðar og leiðinlegar skólabækur?

Öll ferðalög hefjast heima, og það eru foreldrar sem móta börnin.
En líka skólarnir.
Þar hefur margt breyst ánægjulega til batnaðar síðan ég sat í grunnskóla, kennslan orðin frjórri, skemmtilegri, og skólabækurnar aðgengilegri – eða sumar þeirra.

Skólabækur eru einn af stóru þáttunum þegar kemur að læsi, en jafnframt hugsanlega sá hluti sem síst er hugsað um í þessu samhengi. Sonur minn, 13 ára, var nýverið að lesa til prófs í samfélagsfræði um mikilvæg nöfn í Íslandssögunni, Jón Sigurðsson, Hannes Hafstein og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Ekki var um eiginlega námsbók að ræða, heldur efni prentað út af Skólavefnum, sett í möppu, skreytt með fáeinum ljósrituðum, daufum, óspennandi myndum, annars voru þetta textahlemmar, og textinn alveg laus við tilþrif, hvað þá hugkvæmni, hvað þá húmor, stundum virðist sneytt hjá honum í skólabókum eins og hann sé stórhættulegt fyrirbæri. Og spurningarnar lögðu áherslu á páfagaukalærdóm, ekki skilning – hvað hétu foreldrar Hannesar Hafsteins?
Mér er spurn, veitir sú þekking dýpri sýn á manninn, á söguna, á lífið?

Og kvæði Hannesar, þau voru sögð einkennast á trú á framtíðina og karlmannlegri sýn á tilveruna.

Karlmannlegri – við erum stödd á árinu 2012. Karlmannlegri, og öll umgjörðin sagði manni að hér bæri að leggja gamaldags merkingu í orðið, að það þýddi kraftur, þolgæði, hugrekki. Eins og þeir eiginleikar séu fyrst og síðast bundnir við karlmenn. Ég þarf ekki að taka það fram; en sonur minn færðist ekki einu hænufeti nær skilningi eða áhuga á þessu góða og mikilvæga fólki. Og hver er þá tilgangurinn með náminu?

Sumar skólabækur eru blessunarlega vel í áttina, ég á við, þar er reynt að koma til móts við nemendur, reynt að tala við þá, ekki yfir þeim. Reynt að gera námsefnið lifandi, frjótt. Það eru þó óþægilega margar bækur, og sumar nýlegar – í íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði, trúabrögðum – sem eru, mér liggur við að segja, merkilega leiðinlegar, áhuginn dofnar jafnvel við það eitt að opna bókina, maður farinn að geispa á fyrstu síðu, og þá er öll bókin eftir. Framsetningin ófrjó, hugmyndasnauð, höfundar virðast hafa litla stílgáfu, efnið ekki sett fram á aðgengilegan, spennandi hátt, líklega vegna þess að höfundarnir eru ekki gæddir þeim hæfileikum sem góður kennari þarf að hafa; að geta gert flókna hluti einfalda. Og athyglisverða.

Skyldum við gera okkur grein fyrir hversu mikill ábyrgðarhluti það er að semja kennslubók handa grunnskólastiginu? Og gerum við þær kröfur að þær séu vel og skemmtilega stílaðar, hugmyndaríkar í framsetningu? Ég er ekki viss, öllu heldur, ég get ekki séð að svo sé raunin. Og það er alvarlegur hlutur. Leiðinleg, ófrjó skólabók vinnur gegn læsi. Vinnur gegn gleði. Vinnur gegn sköpun. Hún getur steindrepið áhugann og þar með gert námið leiðinlegra, þar með erfiðara. Og þá fer vond keðjuverkun af stað. Nemandi verður tregari til að læra, að leggja eitthvað á sig, sem þýðir aukið álag á heimilið, auknar áhyggjur foreldra, meira átak að koma börnunum að efninu, að draga þau yfir ófærur textans, og trúið mér; það eru ófærur í sumum bókanna, maður á sjálfur fullt í fangi með að meðtaka efnið, finna svar við spurningum, hvað þá barnið. Hugmyndadaufar skólabækur draga úr almennun lestri, sá grunur sest að í brjósti nemandans, ósjálfráður grunur, að lestur þýði leiðindi. Að fræðsla þýði leiðindi. Frumskilyrði er að höfundar kennslubóka hafi hæfileika og hugkvæmni til að setja efnið fram, matreiða það vel, búa til veisluborð, öðrum má alls ekki hleypa nálægt gerð skólabóka. Og hér má ekki spara, við megum ekki detta niður á það dapurlega og huglausa plan að spara við gerð kennslugagna. Það er meira en vont, það er átakanleg skammsýni að leggja hugmyndadaufar, þunglamalegar skólabækur fyrir börnin okkar. Og kvarta síðan yfir minnkandi læsi.

Jón Kalman Stefánsson – Fréttatíminn (lesa alla greinina hér)

Grein er byggð á erindi sem var flutt á ráðstefnunni Alvara málsins – Bókaþjóð í ólestri, sem haldin var í Norræna húsinu

Staðreyndir málsins

Lærðu minnistækniJón Kalman hefur rétt fyrir sér – því miður mætti e.t.v. segja.  Í skóla reynir mun meira á minni en rökhugsun og skilning.  Próf reyna á minnisgetu meira en nokkuð annað.  Gott minni er ávísun á góða einkunn.  Slakt minni (og lesskilningur) hið gagnstæða.

Ef þú vilt bæta minnisgetu þína eða barnsins þíns, jafnvel margfalda hana, þá skaltu skoða hvað minnistækni getur gert fyrir þig.  Betra nám hefur boðið uppá og kennt minnistækni árum saman, bæði sem einstaklingsnámskeið og fyrir hópa.  Fjarnámskeiðið OFURMINNI er afrakstur þessarar vinnu og reynslu.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!