Ballið á Bessastöðum

Ballið á Bessastöðum

Ef þú hefur lært tungumál í skóla þá kannast þú líklega við að hafa lent í basli með að tjá þig á viðkomandi tungumáli þegar á reynir.  Hvernig stendur á því að samfelld tungumálakennsla skilar sér ekki í betur en raun ber vitni? Vandamálið liggur öðru fremur í…kerfinu, því miður.  Í skólum lærum við tungumál meira og minna af bókum.  Áherslan er á málfræði, ritun og lestur.

Fyrir stuttu sá ég frábært barnaleikrit, “Ballið á Bessastöðum” eftir Gerði Kristnýju.  Stærsta vandamál forsetans var yfirþyrmandi magn bréfa sem honum bárust og hann varð að flokka og lesa.  Forsetinn og öll hirðin tóku þátt í leiknum, allir voru uppteknir, allir voru stressaðir, og enginn tími var til neins.

Tungumálanám í æsku

Lítið barn hlustar…og hlustar.  Það hlustar í 1-2 ár áður en það fer að nota fyrstu orðin og orðasamböndin.  Það talar í 3-5 ár áður en það lærir bókstafi og lestur.  Barnið les í nokkur ár áður en það lærir grunnatriði málfræðinnar.

Bitnar þetta á getu barnsins til að tjá sig eða skilja aðra?  Nei, alls ekki.  Þvert á móti.  Talmálið er grunnurinn, málfræðin (eins og hún er kennd) er fræðigrein sem varpar ljósi á talmálið eins og það er.

Við hugsum ekki um málfræði þegar við tölum.  Þegar þú segir “Komdu heim fyrir myrkur” við barnið þitt.  Þá ert þú ekki að orðflokkagreina í huganum.  Hvaða orðflokkur er “Komdu”?  En “heim”?

3 ára börn fallbeygja, nota tíð og tölu.  Þau kunna þetta – þau vita bara ekki hvað þetta heitir.  Drengurinn segir “Ég er svangur” meðan stelpan segir “Ég er svöng.”

Öfugsnúin tungumálakennsla?

Þegar um móðurmálið er að ræða er röðin nokkurn vegin svona:

  1. Hlustun
  2. Talmál
  3. Ritun og lestur
  4. Málfræði

Hlustum og lærum

Hvers vegna snýst þetta þá við þegar kemur að erlendum tungumálum?  Hverjum datt í hug að þetta gengi betur ef við byrjuðum á öfugum enda?  Þegar við hefjum ensku- eða dönskunám er byrjað á bókum, sögur skrifaðar og lesnar og málfræðin kynnt til sögunnar áður en maður getur boðið góðan daginn á viðkomandi tungumáli.

Ég fann sjálfur óþyrmilega fyrir þessu þegar ég lærði – eða átti að læra – nýtt tungumál í menntaskóla; þýsku.  Þar sem ég kunni ekki bofs í þýsku fyrir þann tíma gekk ég á vegg.  Ég var að drukkna í málfræðireglum, fallbeygingum, svo ekki sé minnst á “skaftpottsregluna”.  Mér fannst þetta virkilega erfitt og eyddi meiri tíma í þýsku en flest önnur fög.

Ekki misskilja mig, þetta er ekki sök kennarans, hann fylgir námsskrá og þeim aðferðum sem hann hefur lært.  Vandamálið er því miður stærra en svo, það er innbrennt í vestræn skólakerfi.

Vinnan á Bessastöðum var svo yfirþyrmandi að enginn hafði tíma til að greina það sem var að.  Forsetinn og aðstoðarfólkið hafði ekki undan.  Hringekjan gekk á fullu.  Kerfið var svo upptekið af sjálfu sér að það þurfti utanaðkomandi gest til að sjá hvað var að og breyta hlutunum.  Vandamálið var í rauninni smálegt og auðvelt að leysa.  En forsetinn og hirð hans voru svo upptekin að þau settu ekki spurningamerki við neitt – allt virtist eðlilegt.

Berum saman ensku og dönsku (eða þýsku):

Enska:

  • Við lærum hana í skóla (þ.e. málfræðihlutann)
  • Við lesum vefsíður á ensku
  • Við spilum tölvuleiki á ensku
  • Við horfum á kvikmyndir með ensku tali
  • Við hlustum á tónlist með enskum textum
  • …og svo mætti lengi telja.

Enskan er semsagt hluti af umhverfi okkar og er orðin það áður en formleg enskukennsla hefst í skóla.

Danska hins vegar (eða hvaða annað tungumál sem er):

  • Er kennd í skóla
  • …???

Við erum ekki umkringd af dönsku eins og ensku.  Við horfum ekki mikið á danskar kvikmyndir, né liggjum yfir danskri tónlist.  Danskir tölvuleikir eru sjaldséðir og svo mætti lengi telja.  Öll þekkjum við gildi þess að dvelja í viðkomandi landi, t.d. sem skiptinemi eða við nám og störf.  Danskan er bara hér sem dæmi, en þetta snýst ekki það hvort hún sé skemmtileg eða leiðinleg…heldur framsetninguna í skóla.

Hvaða máli skiptir þetta?

Enskan er hluti af umhverfi okkar en danskan ekki.  Danskan aftur á móti…þar er skólinn meira einn á báti.  Þá skín í ber beinin, þá sést árangur af kennsluaðferðunum mun betur.

Enskukennslan er nefnilega “menguð” af umhverfisáhrifum.  Mengaðri en önnur tungumál.
Sem betur fer, því annars væri enskukunnátta okkar væntanlega á svipuðu róli og danskan.  Semsagt, þegar við fjarlægjum tónlist, kvikmyndir og tölvur…og stólum svo til eingöngu á kennsluaðferðir skólans þá er árangurinn heldur rýr.

Það er ekki nóg að geta lesið dönsku.  Rithátturinn er keimlíkur íslensku og við getum kraflað okkur fram úr dönsku blöðunum.  Mér gekk alltaf sæmilega í dönsku, þ.e. ég féll aldrei.  Ég get bara ekki talað dönsku. Er það vandamál?  Já, fyrir mig.  Fyrir skólann? Ég efa það. Árangurinn eftir áralangt nám er í raun skelfilegur.  Ég get ekki spurt til vegar í Damörku, hvað þá meir.

Gildi endurtekninga

Endurtekningar eru gríðarlega mikilvægar.  Kannski ekki skemmtilegar, en mikilvægar.  Hve oft heldur þú að þú þurfir að heyra nýtt orð áður en þú lærir merkingu þess og ferð sjálf(ur) að nota það sem hluta af þínum orðaforða?  5 sinnum? 10 sinnum?

30 sinnum! Já þú last rétt.  Og hér erum við að tala um innfæddan aðila.  Hve oft ætli við þurfum að heyra orð á framandi tungumáli?  Líklega 50-100 sinnum.

Endurtekin hlustun er gagnleg

Þessa endurtekningu fáum við úr umhverfinu, t.d. með því að hlusta á tónlist, aftur og aftur.
Hins vegar skortir þessa endurtekningu í skólakerfinu.  Tímaskortur?  Í náminu snýst allt um að fara úr einu í annað.  Tilfinningin fyrir framförum byggir á því.  Yfirferðin er aðalmálið. Ferðalagið, ekki áfangastaðurinn.

Við förum úr einum kaflanum í annan, úr einum textanum í annan.  Þessi hraði veldur því að við náum aldrei almennilega því sem við erum að læra.  Við náum hugsanlega tímabundnum tökum á því en það gleymist aftur fljótlega.  Þess vegna þurfum við að “læra” svo mikið fyrir próf.  Vegna þess að við lærðum það ekki raunverulega þegar það var kennt.

Kennsla á villigötum?

  • Fyrir hvern er kennslan?
  • Hvert er markmiðið?

Maður gekk fram á vinnumann sem var að tilla ljóskeri ofan á steinahrúgu.  “Til hvers er steinahrúgan?” Spurði maðurinn.  “Til að halda uppi lugtinni.” svaraði hinn.  “En til hvers er þá lugtin?” – “Nú til lýsa upp hrúguna.”  svaraði þá vinnumaðurinn.

Ætti markmiðið ekki að gera okkur (nemendurna) fær um að tjá okkur á viðkomandi tungumáli og skilja aðra?  Ef það er markmiðið þá er skólakerfinu að mistakast hrapalega.  Við lærum ekki að tala með því að fylla út blöð.  Vissulega eru hlustunaræfingar hluti af náminu en þær eru tilgerðarlegar (leiknar).  Þær innihalda takmarkaðan orðaforða og eru jafnvel lesnar hægt með “óeðlilega” skýrum framburði.

En þegar ég lendi á Kastrup og heyri á samtal tveggja Dana þá skil ég ekki neitt!!  Þeir tala alltof hratt og nota orð sem ég hef aldrei heyrt.  Þar fór skóladanskan fyrir lítið.

Þægilegt!

Vandamálið varðandi tal- og málskilning frá kennslufræðilegu sjónarhorni er að hann er svo huglægur.  Hvernig mælir maður orðaforða?  Framburð?  Ef skólinn gæti ekki stuðst við stafsetningu, málfræði og niðurstöður skriflegra verkefna, á hverju á þá að byggja einkunnakerfið?

Ég hef sjálfur staðið frammi fyrir því að kenna hópi fólks eitthvað.  Ég viðurkenni að það er afskaplega þægilegt að dreifa blöðum og skriflegum verkefnum til nemenda.  Þannig get ég haldið þeim uppteknum og mælt niðurstöðuna. Slæ tvær flugur í einu höggi.   Allir eru uppteknir, allir eru að læra..og mér finnst ég vera að kenna!  Ég verð mikilvægur og ómissandi, alveg eins og forsetinn.

En raunveruleikinn er annar.  Nemendurnir eru ekki að læra og ég er ekki að kenna.
Pappírsæfingarnar eru fyrst og fremst uppfyllingarefni.  Þær hjálpa nemandanum ekki úti á götu.

Ballið á Bessastöðum

Leikrit með boðskap?


Þegar forsetinn (sem nb. taldi sig ómissandi) kom til baka eftir stutt ferðalag kom í ljós að vandamálin sem höfðu þjakað hann voru horfin.  Hann var svo vanur að gera hlutina með sínum hætti að ekki hafði hvarflað að honum að hægt væri að breyta þeim.

Vaninn og hefðirnar höfðu yfirbugað hann.  Honum fannst hann mikilvægur, ómissandi, duglegur og afkastamikill.

Kannski var hann ekkert af þessu.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hvað finnst þér? Sendu línu!