Á allt að gerast á morgun? Þá máttu bíða lengi!

Á allt að gerast á morgun? Þá máttu bíða lengi!

Því morgundagurinn er ekki til.  Þolinmæði flestra gagnvart öðru og öðrum er oft af skornum skammti.  En það er ótrúlegt hve þolinmóð við getum verið gagnvart okkur sjálfum.  Einföldustu hlutir komast ekki á dagskrá, allt skal gerast á morgun…eða hinn, í haust, osfrv.  Ertu búin að vera lengi á leiðinni í nám? Í ferðalagið? Í ræktina? Er þetta allt í pípunum, ertu á leiðinni, á morgun?

trainÁ morgun er einfaldlega alltaf á…morgun!  Sá sem hefur tilhneygingu til að segja “á morgun” hefur að sama skapi tilhneigingu að fresta hlutum þar til “á morgun” er ekki lengur valkostur, ella eru hlutirnir alls ekki gerðir.

Margir eru árum saman í starfi sem þeim líkar ekki í.  Eru mörg ár á leiðinni að breyta lífsstílnum sínum.  Eru “að hætta” að reykja árum saman.  Eru “á leiðinni” í nám, haust eftir haust.

Hlutir sem hafa skilafrest (s.s. skólaverkefni) er frestað þar til frestur er ekki lengur í boði.  Þekkt er lögmálið sem segir að hlutir (verkefni) hafi tilhneigingu til að vaxa í hlutfalli við tímann sem úthlutað er til að skila þeim.

Þeir sem hafa glímt við stórar ritgerðir þekkja það 😉

Morgundagurinn er þess vegna stærsti óvinur námsmannsins.  Því hann kemur aldrei, og það sem er sett á hann gerist aldrei.

Líklega er þetta vegna þess að við teljum okkur alltaf hafa meiri tíma.  Það kemur önnur lest. En við vitum aldrei hvenær síðasta lestin fer, og fresturinn til að stökkva um borð er liðinn.

Dagurinn í dag er eini dagurinn sem þú hefur

Það er einfaldlega ekkert annað í boði. Gærdagurinn er sannarlega liðinn.  En dagurinn í dag, kemur aftur og aftur.

Það sem þú ákveður að gera í dag, er gert!

Það góða er, að þú getur endurtekið góða hluti aftur og aftur, í dag.

Tilveran er allt önnur hjá manneskju sem nýtur dagsins í dag en þeirri sem ætlar að gera allt á morgun.

  • Manneskja sem afkastar einhverju frá degi til dags, líður vel og finnst hún hafa tíma aflögu.
  • Manneskja sem skýtur öllu á frest (en gerir í raun fátt) upplifir tímaskort.

Með tímanum safnast upp (verk)kvíði gagnvart öllu því sem óunnið er.  Tilhneigingin til að fresta hlutum verður því enn meiri og óunnum verkum fjölgar.  Tilfinningin er sú að maður hafi engan tíma (því það er svo mikið í pípunum).

Það skrýtna er að frestunarmanneskjan upplifir tímaskort, eins og það sé aldrei rétti tíminn til að byrja.  Það er svo margt sem eftir er að gera.

En morgundagurinn kemur aldrei. Dagurinn sem allt á að leysa.  Það er bara einn dagur í lífi okkar og það er dagurinn í dag.

Þú ert líklega með einhverja hluti sem setið hafa á hakanum.  Í dag er einmitt góður tími að koma hreyfingu á hlutina.

Það er ótrúlegt hvað örfá handtök frá degi til dags skila þegar uppi er staðið.

Valið er þitt.

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.