6 ávanar sem auka líkur þínar á árangri

6 ávanar sem auka líkur þínar á árangri

Er drifkraftur í þér? Veistu hvað þú vilt? Veistu hvert þú stefnir?  Ef ekki þá er full ástæða fyrir þig til að tileinka þér hegðunarmynstur fólks sem veit það!

Finnst þér stundum eins og aðrir séu á öðrum stað í lífinu en þú? Njóta meiri velgengni? Stundum er það svo, en ekki alltaf. Útlitið getur sannarlega blekkt.  En engu að síður er hollt að rýna í eigin hegðun og skoða hvort hlutirnir séu á réttri leið.

Því hegðun skapar vandamál og hegðun leysir vandamál.

Fólk sem nær árangri, í hverju sem er, gerir það af ástæðu.  Það hefur brennandi áhuga, hefur elju og úthald og þjálfar þannig með sér hæfni til að takast á við mótlæti þegar það birtist.

Allt sem er einhvers virði krefst einhvers af okkur.

dreamsHér eru 6 ávanar sem hollt er að tileinka sér, þeir munu sannarlega skila sínu.  Áramótaheiti mótar ekki ávana.  Endurtekin hegðun gerir það.  Það sem þú hugsar, segir og gerir myndar þín hegðunarmynstur og líf þitt er útkoman úr því.

Ef þú ert ekki sátt við útkomuna þá þarftu að breyta hegðuninni.  Oft þurfum við bara að biðja um meira.  Við fáum ekki (sjaldnast) það sem við biðjum ekki um. Ef þú ert óánægð með eitthvað farðu þá fram á breytingu.

En ekki misskilja mig.  Ekki biðja aðra um meira, komdu ekki ábyrgðinni yfir á aðra.

Farðu fram á meira af sjálfri þér.  Ef þú vilt breytingar, þá þarft þú að breytast.

  1. Hafðu endinn í huga
    Hvað er það sem þú vilt fá?  Þú verður að hafa sýn á hlutina, einhvers konar markmið.  Þú nærð ekki markmiði sem þú hefur ekki.  Þú hittir ekki skotmark sem þú sérð ekki.  Lífið verður stefnulaust og tilviljanakennt ráf ef það er ekki einhvers konar markmið í gangi.  Þau geta verið persónuleg, fagleg, námsleg, fjárhagsleg osfrv.  En eitt er klárt, engin markmið skila manni engu.  Markmiðið þarf ekki að vera eitthvað gríðarlegt eða formlegt, en einhver stefna þarf að vera í gangi.
  2. Gerðu það sem þú hefur gaman af
    Þetta finnst mörgum umdeilanlegt.  En staðreyndin er sú að þú ert mun líklegri til að komast í gegnum erfið tímabil, leiða, og sigrast á mótvindi ef þú, innst inni, nýtur þess sem þú ert að gera.  Ef þú byrjar á einhverju af takmörkuðum áhuga (nám eða starf), þá er oft bara tímaspursmál hvenær þú leggur niður laupana.  Við leitum jafnvel logandi ljósi að afsökunum til þess að réttlæta ákvörðun okkar að hætta.
  3. Leggðu hart að þér
    Enginn nær árangri með hangandi hendi.  Árangur kostar vinnu.  En það góða er að ef þú hefur gaman af því sem þú gerir þá upplifir þú þetta ekki sem vinnu, heldur sjálfsagðan hlut.  Gerðu meira en aðrir ætlast til af þér.  Það mun alltaf skila sér, fyrr eða síðar, í námi og starfi.
  4. Nýttu tímann vel
    Þú hefur ekki endalausan tíma.  Flestir (sem betur fer) eru samviskusamir og standa sig gagnvart vinnuveitanda osfrv.  Mæta á réttan stað á réttum tíma og gera það sem ætlast er til af þeim.  En því miður gegnir oft öðru máli með frítímann.  Það er þinn tími.  Hvernig þú mótar og nýtir frítímann hefur áhrif á það hvernig þú nýtir líf þitt.  Flestir sóa frítímanum hugsunarlaust.  Sjónvarpsgláp og tölvuhangs kostar marga fleiri klukkustundir á dag.  Meðal “skjátími” í Bandaríkjunum er sagður um 30 klst á viku.  Það slær upp í heila vinnuviku.  Þetta er ekki uppskrift að góðu lífi.  Flestir sem “hanga” yfir sjónvarpi eða tölvu leiðist.
  5. Komdu þér að verki
    Eitt það erfiðasta sem við gerum er að koma okkur að verki.  Góðar hugmyndir eru gagnslausar.  Það eru verkin sem tala.  Margir eru með hugmyndir sem aldrei verða að veruleika, því þeir eru alltaf að bíða.  Bíða eftir rétta tækifærinu, rétta augnablikinu, rétta makanum, rétta veðrinu… Bíða eftir því að öll ljósin verði græn.  Það gerist aldrei.  Þú verður bara að leggja af stað.  Þú munt lenda á rauðu ljósi á leiðinni, sættu þig við það og byrjaðu.  Hlutirnir þurfa ekki að vera fullkomnir til þess að byrja.  Það er fullkomin ástæða til að gera ekki neitt.  Óttinn við mistök er líklega ástæða þess að við þorfum ekki að breyta til.  Það kostar  kjark að hefja nám, skipta um starf eða læra eitthvað nýtt.  Gera eitthvað sem er ekki hluti af sjálfsmyndinni.  En þegar þú gerir eitthvað nýtt, þá verður það hluti af þér fyrr en varir.  Það er erfitt fyrir kyrrsetumann að sjá sig sem hlaupara, en eftir að hafa skokkað í 4 vikur þá er ekkert eðlilegra en að fara út að hlaupa.  Þú ert orðin hlaupari!
  6. Fáðu endurgjöf
    Við sjáum ekki allt sjálf, því getur verið gott að fá álit annarra á því hvernig okkur gengur og öðlast viðmið.  Í skóla er endurgjöfin mikil og stöðug (verkefni og próf).  Yfirmaður eða samstarfsfélagi getur einnig hjálpað okkur að sjá okkur í nýju ljósi.  Ef þú stefnir á önnur mið þá getur þú sparað þér mikinn tíma og kostnað með því að fá þér leiðbeinanda eða þjálfara.  Þannig yfirvinnur þú frekar hindranir og færð leiðsögn sem nýtist þér strax.  Þú getur skráð þig í gönguklúbb, fengið þér einkaþjálfara, farið á golfnámskeið, lært hraðlestur eða minnistækni.  Möguleikarnir eru óþrjótandi.  En það getur margborgað sig að fá leiðsögn strax.  Annars er líklegt að þú lendir í öllum “drullupollunum” og vitir ekki hvað þú eigir að gera.  Þá er líklegra að þú hættir við og gefist upp. Leiðsögn borgar sig.

Enginn er fullkominn en allir geta bætt sig.  Rétt handtök og skýr markmið eru líkleg til að skila sér margfalt.  Sá sem veit hvað hann vill og hvernig hann á að nálgast það er mun líklegri til að uppskera það en sá sem veit ekki hvað hann vill né hvernig hann á að nálgast það!  Það segir sig sjálft.  Er þá ekki kominn tími til að sækja draumana sína?

Ummæli

ummæli lesenda

Fáðu nýjustu póstana beint í innhólfið þitt!

Um Kolbeinn Sigurjónsson

Ég heiti Kolbeinn Sigurjónsson og starfræki Betra nám. Markmið Betra náms er að veita ráðgjöf og úrræði í tengslum við lesblindu og námsörðuguleika sem henta aldri og getu hvers og eins. Betra nám hefur boðið upp á Davis lesblindunámskeið og tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar á Íslandi.

Ég er með diploma réttindi frá Alþjóðlegu Davis samtökunum (Davis Dyslexia Association International), auk réttindi til dáleiðslumeðferða (Dip.Hyp.Therapy) og B.sc. í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.