April 4

Þess vegna skiptir viðbragðið máli í lestri

0  comments

Viðbragðið - hversu langan tíma barnið þitt þarf til að bregðast við tákni eða orði - segir meira til um stöðuna í lestrinum, en þig grunar. Kíkjum nánar á.

More...

Hvers vegna skiptir þetta máli?  Vegna þess að lestur byggir að miklu leyti á sjálfvirkni.  Markmið okkar með lestrarþjálfun er semsagt að nemandinn nái að nefna staf eða lesa orð - án þess að hugsa!

Þá meina ég ekki að lesandinn sé annars hugar.  Heldur á ég við að sjálfvirki hluti hugans - undirvitundin - sjái um grunnvinnuna í lestrinum.

Við fæðumst ekki læs

Við lærum að lesa.  Við þurfum því að læra að þekkja útlit og hljóð bókstafanna af öryggi.  Fyrst gerist þetta meðvitað, þ.e. við þurfum að vanda okkur og einbeita okkur.  Meðan á þessu stendur þurfum við stundum að hugsa okkur um; við hikum og getum jafnvel ruglast.  Stafaruglingur er algengur og hefur hamlandi áhrif á lestrarnámið.

Hér er dæmi um nemanda (birt með leyfi barns og foreldris) þar sem heyra má hvernig hljóðun er ráðandi þáttur í lestrartækninni.  Í stað þess að nefna orðin (undirvitundin les), eru þau lesin hægt, staf-fyrir-staf (vitundin les).

Þrátt fyrir miklar heimaæfingar nær nemandinn ekki árangri (meiri sjálfvirkni og betra flæði).

Auk þess les barnið mörg orðanna vitlaust.  Algengt er að lesa algeng orð vitlaust, einkum orð sem hafa óljósa merkingarmynd.

Stafaþjálfun

Lesum hraðar þjálfunarnámskeiðið leiðir nemandann skref fyrir skref í gegnum hvert stig lestrarþjálfunarinnar.  Fyrsta skrefið er að taka stafaþjálfun föstum tökum.  Stafaþjálfunin fer þannig fram að hluti stafrófsins er æfður í þaula með stuttum endurtekningum.

Lesum hraðar æfingaforritið mælir viðbragðið og birtist viðbragðstíminn sem litasúla undir stafnum.  Markmiðið er að ná súlunni niður og þar með viðbragðstímanum.  Þetta auðveldar foreldri og barni að átta sig á því hvaða stafir eru að vefjast fyrir barninu, og getur nemandinn bætt sig mikið á stuttum tíma.

Með tímanum lærum við að þekkja fleiri og fleiri tákn (stafi) án þess að hugsa.  Það segir okkur að undirvitundin hefur tekið hugsanaferlið yfir.

Við þurfum ekki lengur að hugsa!  Við getum borið kennsl á bókstafinn ósjálfrátt og fyrirhafnarlaust.  Þegar það gerist þá verður svörunin örugg og fyrirhafnarlaus.

Hik og umhugsun minnkar eða hverfur.

Það sama gildir um orð

Til að byrja með þekkjum við ekki orðin sem heild.  Við lesum þau með því að tengja saman stafina. Það er kallað hljóðun. Með tímanum fjölgar orðunum sem við þekkjum utan að, og við getum lesið þau án þess að hugsa.

Lesum hraðar inniheldur sérvalið orðasafn sem inniheldur algengustu hugtök íslenskunnar sem hafa háa birtingartíðni í texta.  Ávinningurinn að læra þau vel er mikill.  Með þessu móti stækkar nemandinn sjónrænan orðaforða sinn sem nýtist honum í hefðbundnum lestri.

Hver umferð tekur mjög stuttan tíma.  Það er gert til að minnka álag á nemandann (sem margir hafa lítið úthald og þolinmæði), og einnig gerir það okkur kleift að endurtaka æfinguna oftar án þess að gera nemandann úrvinda.

Í lok hverrar umferðar sér nemandinn á skjá hvernig honum gekk en endurgjöf er mikilvæg því hún örvar og hvetur nemandann til dáða.

Forritið gefur svo til kynna hvort endurtakaþurfi æfinguna eða hvort tími sé kominn á að halda áfram í næsta borð.

Undirvitundin gegnir því stóru hlutverki þegar við lesum.  Með markvissri þjálfun minnkum við álagið á framheilann (vitundina) þegar undirvitundin tekur yfir stærri hluta lestrarins.

Hvað með hefðbundinn lestur?

Flest börn ná tökum á lestri með venjulegum lestraræfingum.  En ekki öll.  Sum eru lengi af stað og önnur ströggla langt fram eftir aldri.  Ég hef í gegnum tíðina fengið til mín ólæst, fullorðið fólk, svo lestrarörðugleikar eru ekki bundnir við börn.  Þvert á móti, því þeir hverfa sjaldnast af sjálfu sér

Því stundum er ekki nóg að lesa og lesa.  Lesum hraðar þjálfunarnámskeiðið má nota bæði eitt og sér og líka samhliða heimalestri.  Þannig nær nemandinn að æfa ákveðna hluta lestrarins mjög markvisst þótt hann haldi sínu striki í heimalestrinum, því Lesum hraðar æfingarnar taka ekki nema uþb. 5 mínútur á dag.

Þegar við lesum ægir öllu saman.  Lestur er gríðarflókinn og reynir á mörg ólík heilasvæði.  Það ætti því ekki að koma á óvart að mörgum nemendum hentar betur að ná tökum á tækninni skref fyrir skref.


Tags

hægur lestur, lesblindugreining, lestrarþjálfun, Lestur


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>